Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Að borða engisprettur með bjórnum

Að borða engisprettur með bjórnum

Nýlega sat ég ásamt vinum á veitingastað við fjölfarið torg í Mexíkóborg þegar götusali einn vék sér að okkur með varning sinn, grillaðar engisprettur sem nefnast chapulines og eru vinsælt barsnakk með bjór og öðrum svaladrykkjum. Engispretturnar eru „grillaðar upp úr hvítlauk, límónusafa og salti sem geymir þykkni úr agave-ormum“ (Wikipedia). Mmmm.

Ég er hálfgerð veimiltíta og veigra mér jafnan við skordýraáti, en dóttir mín, Alma, tæplega tveggja ára gömul, lét engan bilbug á sér finna og hámaði í sig hálfan poka af þessu góðgæti.

„Meira! Meira! Meira!“

Vinir okkar, parið Ivan og Carina, létu ekki heldur sitt eftir liggja. Í Mexíkó þykir það að maula pöddur sjálfsagt og skemmtilegt.

„Nammi nammi,“ sagði Ivan, „langt síðan ég hef borðað almennilegar chipulines!“

Síðan bætti hann því við, dapur í bragði, að engispretturnar væru miklu sjaldgæfari þessa dagana en í uppvexti hans. Ástæðurnar væru, óumdeilanlega, loftslagsbreytingarnar og sá aldauði sem við mennirnir erum að valda á jörðinni.

„Það er mjög sennilegt að Alma tilheyri síðustu kynslóðinni sem elst upp við að borða chipulines,“ sagði Ivan og benti hryggur á Ölmu, sem gúffaði af miklum móð í sig agnarsmá höfuð með brostnum egglaga augum, leðurkennda vængi, fálmara.

„Meira! Meira! Meira!“

Ég staldraði aðeins við þessi orð Ivans. Síðasta kynslóðin til að borða grillaðar engisprettur. Setningin suðaði í kollinum á mér lengi á eftir.

Tilhugsunin um að Ölmur framtíðarinnar fengju ekki að kjamsa á grilluðum engisprettum var vissulega dapurleg, en um leið fannst mér nálgun Ivans eitthvað svo dæmigerð fyrir hvernig við hugsum flest í dag. Mannhverfa er orðið sem best nær yfir slíkan hugsunarhátt. Sem sagt: Það sorglega við hvarf engisprettanna – útrýmingu þeirra vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum – var ekki endilega að lífverur, sem hafa gildi og fegurð í sjálfum sér, væru að hverfa, heldur hitt: að við mennirnir gætum ekki innbyrt þær í ókominni framtíð, yfir bjór. 

Ég hef oft lesið að skordýr eigi að verða ein helsta prótínlind okkar mannfólksins í drungalegri framtíð þegar fiskurinn verður horfinn úr sjónum (ef fram fer sem horfir verður meira plast í hafinu en fiskur árið 2050), verksmiðjudýrin orðin of nærungarsnauð og þrútin af sýkalyfjainntöku, uppskerubrestir svo tíðir vegna hitabylgja og ofnýtingar landsvæða að við náum ekki lengur að kornfæða heimsbyggðina. En hvað ef skordýrin hverfa líka? Hvað ætlum við þá að borða?

Í grein sem birtist í The New York Times fyrir ekki svo ýkja löngu, og nefnist „Endalok skordýranna eru runnin upp“ (e. The Insect Apocalypse Is Here), kemur meðal annars fram að samkvæmt þýskri rannsókn hafi skordýrum í Þýskalandi fækkað um 75 % á síðustu 27 árum, og um 82% ef við einskoðum okkur við sumartímann. Sjálfur hef ég einmitt tekið eftir því að flugur splundrast ekki lengur í sama mæli á framrúðum bifreiða þegar ekið er um sveitir Evrópu. En ég þykist ekki einu sinni byrja að skilja hvað í slíkum tölum felst.

Hvaða afleiðingar hefur það á vistkerfi jarðar þegar lífverur, sem gegna öðru eins grundvallarhlutverki í náttúrunni, stráfalla, hverfa?

Það verður Ölmu, og seinna afkomenda hennar, að takast á við slíkar spurningar.

Í millitíðinni væri ráð fyrir okkur hin að taka úr eyrunum heyrnartólin, líta upp af skjánum, hætta að spila textaskilaboða-borðtennis við vini og vandamenn – hvað þá að dást að öllum frægu manneskjunum og afrekum þeirra – og reyna að horfa út fyrir mannhverfuna, flýja þennan kæfandi, einhæfa og mannmiðaða heim, enduruppgötva jörðina, fyllast lotningu gagnvart henni. Það er erfiðara að tortíma heiminum, og éta hann, ef manni finnst hann fallegur og mikils virði í sjálfum sér. 

Í nýútkominni franskri bók, Finance, climat, réveillez-vouz, benda höfundarnir þrír á að það sem sé í húfi fyrir okkur, nú þegar sífellt herðist á loftslagsbreytingunum og sjötta útrýmingin er staðreynd – samkvæmt nýlegri rannsókn hefur mannkynið stuðlað að dauða 60% dýralífs á jörðinni frá árinu 1970 – sé ekki framtíð jarðarinnar, heldur framtíð okkar mannkyns. Jörðin verður hér áfram næstu aldirnar, þúsaldirnar, og lengur. En hvað um okkur?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu