Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Verkefnastyrkir listamanna

Köllum þetta verkefnastyrki af því það er það sem um er að ræða. Það er uppi algengur misskilningur að listamannalaunum fylgi engin skilyrði eða aðhald, en það er líklega af því ferlið er að óþörfu ógagnsætt. Með hverri höfnun og hverju vali gæti fylgt stutt útskýring þar sem dómnefnd nefnir hvaða verkefni henni hafi litist á, eða ástæður þess að verkefni hlaut ekki náð. (Óraunsæ tímaáætlun, ekki nægilegur árangur eftir síðustu úthlutun osfrv.)

Með slíkum opinberum rökstuðningi myndi skapast meira traust og kveða niður goðsögur um dularfullar klíkur. Framvinduskýrslur mætti líka birta opinberlega.

Þegar ég sat í panel í listaháskólanum að ræða menningarmál stuttu fyrir síðustu kosningar sat ég við hliðina á fyrrum formanni stjórnskipulags- og eftirlitsnefndar, Brynjar Níelssyni. Það voru heitar umræður, stjórnmálafólk lofaði að sjálfsögðu að bjarga nemendum úr myglandi húsnæði og að afnema virðisaukaskatt á bækur, (sjáum til hvernig það fer), en salurinn sprakk úr hlátri þegar Brynjar svaraði spurningu um listamannalaun. Hann sagðist vilja gera þau að verkefnastyrkjum!

Ef að alþingismenn átta sig ekki á því hvernig listamannalaun virka þá er ekki nema von að almenningur skilji það ekki heldur. En við getum svo sem sjálfum okkur um kennt fyrir að ranglega kalla þessar verktakagreiðslur laun.

Margar aðrar breytingar mætti alveg íhuga líka. Kannski ættu úthlutanir að vera oftar en einu sinni á ári, kannski ætti frekar að miða við hvernig kvikmyndasjóður úthlutar, þannig að fólk geti sótt um allan ársins hring. Að sjálfsögðu ætti líka að fjölga úthlutunum, það er alltof mikið af duglegu listafólki sem ekki fær styrk til að ljúka verkefnum sínum og svo ætti að hækka fjárhæðina þannig að ekki sé lengur um 67% vinnu að ræða heldur 100%.

Það myndum við gera ef við hefðum metnað fyrir því að halda uppi almennilegu menningarlífi á þessari eyju.

 

E.S.
Höfundur fékk úthlutað 6 mánuðum fyrir umsókn sem innihélt þrjár ókláraðar skáldsögur.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu