Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Adults in the room-bókadómur

Adults in the room-bókadómur

Það er ekki á hverjum degi sem maður les virkilega spennandi sjálfsævisögulega bók eftir stjórnmálamann. Hvað þá fjármálaráðherra. En það er kannski skiljanlegt að bók Yanis Varoufakis sé á köflum eins og spennusaga, viðfangsefnið eru harkalegustu samningaviðræður sem þjóð innan evrópusambandsins hefur farið í við sambandið sjálft. Þarna er í húfi framtíð sambandsins, framtíð Grikklands og jafnvel heimsins. Niðurstöðurnar eru dapurlegar en ekki vonlausar.

Þegar maður les bók eftir pólitíkus spyr maður sig ósjálfrátt hvaða skilaboð er verið að senda. Ætla menn að ná höggi á andstæðinga, ætlar höfundur sér að nota þetta í hugmyndafræðilegri baráttu, er þetta varnarrit? Það væri auðvelt að afskrifa bókina Adults in the room sem vörn fyrir fjármálaráðherra sem þurfti að segja af sér, tilraun til að skapa sér arfleifð, en í raun er hún eins og aðrar bækur Varoufakis ákall um breytingar og hörð gagnrýni á núverandi ástand mála, kerfisgalla Evrópusambands (sem hann er mjög hlynntur) og hugleysi stjórnmálastéttarinnar.

Margt í bókinni er býsna djúsí. Samtöl milli hans og þekktra einstaklinga, svo sem Bandaríkjaforseta, Christine Lagarde forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, annarra fjármálaráðherra í Evrópu standa upp úr. Emmanuel Macron kemur býsna vel út úr þessu, sem fær mann til að velta fyrir sér hvort Varoufakis sé að lýsa yfir stuðningi við hann og Frakka í baráttu þeirra við Þjóðverja um stefnu ESB. Sama má segja um Bernie Sanders sem er einn fyrsti bandaríkjamaðurinn til að setja sig í samband við nýkjörinn þingmann og fjármálaráðherra. Það ætti kannski ekki að koma á óvart að Sanders hafi þrýst á því inn á Bandaríkjaþingi að Grikkir fengju aðstoð, öldungadeildarþingmaðurinn frá Vermont er róttækur vinstrisinni af sama meiði og Syriza og hefur mikinn áhuga á því að skuldum sé aflétt af þriðjaheims ríkjum. (Grikkland gæti skapað gott fordæmi fyrir slíku). Ýmsir aðrir Bandaríkjamenn eru áberandi í bókinni, m.a. Larry Summers, en bókin hefst á samræðum við hann sem Yanis skráði hjá sér, sem undirstrika strax í byrjun að fjármálaráðherrann líti á sig sem utangarðsmann ekki innherja.

Sumt í bókinni er svo absúrd að það er fyndið. Miðað við lýsingar Varoufakis á gríska fjármálaráðuneytinu hafa grísku kerfisflokkarnir farið með það sem flokkstofnun frekar en ráðuneyti, þegar nýr ráðherra tekur við tæmist byggingin af starfsfólki og vinnutækjum þannig að ráðherrann á meira að segja í mesta basli með að fá wifi-tengingu. Annað er hrikalegt, Varoufakis fær símtöl með hótunum framan af þegar hann er einungis álitsgjafi með bloggsíðu að tjá sig um efnahagsmál og stjórnarflokkarnir grípa inn hjá ríkissjónvarpsstöðinni þegar hann er fenginn til að ræða skoðanir sínar á ríkisfjármálum. Allt þetta verður þeim mun óhugnanlegra í sögulegu samhengi, það er tiltölulega stutt sögulega séð síðan Grikkland var undir herstjórn og í upphafi bókar er fasískur flokkur, Gyllt Dögun, í mikilli uppsiglingu.

Kjarni bókarinnar eru þó samningaviðræður Varoufakis við fjármálaráðherra evrópusambandsins. Þar verða kerfisgallar ESB mjög áberandi, því hvorki stjórnsýslan né pólitíska stéttin virðast reiðubúin að axla ábyrgð á stöðunni. Stjórnmálamennirnir segjast bundnir af skriffinnskuræðinu í Brussel, en formenn stofnana segjast ekki geta tekið ákvarðanir án pólitísks vilja hjá kjörnum fulltrúum. Kenning Varoufakis er sú að pólitískur ómöguleiki skulda-afskrifta hjá Grikkjum sé heimatilbúið vandamál. Þegar fjármálakrísan hófst 2008 hreyktu Þjóðverjar sér af því að evrópsku bankarnir skildu hafa sýnt meiri ráðdeild en þeir bandarísku. Raunin var þó sú að rétt eins og bandarísku bankarnir fóru of geyst í braski með fasteignalán þá gengu þýsku og frönsku bankarnir of langt í lánum sínum til Grikkja.

Ef sú leið hefði verið farin strax árið 2009 að láta gríska ríkið viðurkenna að geta ekki greitt bönkunum til baka þá hefði Þýskaland annað hvort neyðst til þess að bjarga bönkunum sínum með „bailout“ en þess í stað var farin sú leið að láta Grikkland borga upp skuldirnar með neyðarlánum frá þýskum og evrópskum skattgreiðendum. Þar með varð fjármálakrísa gerð að pólitískri krísu, þýsku bankarnir gátu bjargað orðspori sínu tímabundið en á móti var Grikkland fest í skuldafangelsi.

Það er erfitt að vera ósammála þessari greiningu, né þeirri að skuldir Grikklands séu óviðráðanlegar. Eftir stendur að það er pólitískt ómögulegt fyrir Merkel og aðra þýska pólitíkusa að játa að lánveitendurnir eigi hluta af ábyrgðinni. Grikkir einir verða að bera alla ábyrgðina og út alla bókina er Varoufakis að reyna að finna leiðir þar sem skuldaniðurfelling hjá Grikkjum geti orðið túlkuð sem pólitískur sigur fyrir þýsku pólitíkusana.

Einn af þeim aðilum sem fær versta útreið í bókinni er Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands, sem samkvæmt Varoufakis talar tveimur tungum og fer jafnvel aftan að forsætisráðherra sínum. Svo virðist vera sem hans draumalausn sé útganga Grikkja úr ESB. Hið kaldhæðnislega er svo að Bretarnir sem Þjóðverjar vildu helst halda inni ganga úr ESB stuttu eftir að samningaviðræður brotlenda, spurningin sem við stöndum eftir með er hvort að jákvæðari lausn á grísku krísunni hefði getað leitt til þess að Evrópusambandssinnar í Bretlandi hefðu fengið nokkur prósent til viðbótar í Brexit-kosningunum.

Í lok bókar stendur Varoufakis einangraður án baklands meðal Syriza, (hann var ekki flokksmeðlimur og átti fáa bandamenn í flokkinum til að byrja með), Tsipras býður honum menningarmálaráðuneyti til að friða hann þegar Yanis segist ætla að stíga frá sem fjármálaráðherra. Það endar þó á því að Varoufakis gerist óbreyttur þingmaður, gagnrýninn á stjórnvöld en án vina í stjórnarandstöðu.

Ég þekki ekki gríska pólitík nógu vel til að segja til um hvort hann eigi sér framtíð þar. Mögulega hefur hann marga stuðningsmenn og óvini, en skortir áhugann. Það er þó nokkuð ljóst að hann mun hafa hátt á alþjóðlegum vettvangi og tala fyrir endurbótum á Evrópusambandinu. Og vilji sambandið halda áfram að dafna (hagvöxtur og atvinnutölur í suður-evrópuríkjum hafa reyndar aldrei litið jafn vel út síðan Evran var tekin upp og þær gera í dag), ættu ráðamenn að hlusta.

Maður vonar ósjálfrátt að bókin rati á náttborðið hjá Macron og að hann láni einhverjum upprennandi pólitískum á bundestag hana eftir lesturinn.

-það er óhætt að mæla með Adults in the room, my battle against Europe's deep establishment handa öllum áhugamönnum um alþjóðapólitík og fjármál. Hún er mjög læsileg, með mikið af tilvísunum í klassísk bókmenntaverk og flæðir vel. Og fyrir þá sem ekki hafa endilega mikinn áhuga á ríkisfjármálum er nóg af æsispennandi atvikum sem ættu að krydda lesturinn.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu