Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Lausn í leit að vandamáli

Lausn í leit að vandamáli

 *Viðvörun: Ég er að skrifa um eitthvað sem verður auðveldlega að miklu tilfinningamáli enda snýst það um börn. Hvað um börnin er alveg lögmætt komment undir þessari grein. En hafa verður í huga að þó áhrifin séu nærri engin á yfir 90% Íslendinga og margir fyllast réttmætri reiði þegar einhver efast um skynsemi laganna, þá legg ég til að lesandi spyrji sjálfan sig fyrst, hversu öðruvísi er ég reiðubúin að leyfa öðrum að vera?

Aðeins um bann við umskurði drengja

Til að hægt sé að fremja glæp verður að vera fórnarlamb. Í sumum löndum væri litið á þá loftmengun sem verður til um hver áramót, auk hljóðmengunar sem glæp. Fórnarlömbin eru mörg, og eiga undir högg að sækja. Fólk sem hrjáist af veikindum eða hefur slæm lungu, fyrir utan gæludýr og ungabörn, viljum við hrella þau?

Af því meirihluti Íslendinga stundar þann sið að sprengja rakettur langt fram eftir nóttu lítum við þó ekki á þetta sem glæp. (Ég sjálfur er þar með talinn).

Einn frægasti mótmælandi Íslands Helgi Hóseason leit lengi vel á sig sem fórnarlamb og íslensku þjóðkirkjuna þar með sem brotaðila. Það var vegna þess að skírnin sem hann varð fyrir var óafturkræf, a.m.k. vildi kirkjan ekki draga hana til baka. Þökk sé mótmælum Helga er í dag tiltölulega auðvelt að segja sig úr þessari stofnun og fólk hefur fundið sér mörg tilefni til. Kynferðisafbrot Ólafs Skúlasonar og óhemju ókristilegar launakröfur núverandi biskups svo dæmi séu nefnd. En myndum við banna óafturkræfar skírnir? Ég efa það. Við getum ekki einu sinni hætt þeim ósið að láta börn sjálfkrafa skrá sig í þjóðkirkjuna og höldum áfram að láta ólögráða unglinga sverja Jesú hollustueið.

En nú telja sumir í löggjafanum sig þess umkomna að banna annars konar trúskráningu. Umskurður drengja er algengur meðal gyðinga og múslima, en þeir sem láta umskera af trúarlegum ástæðum eru sjaldséðir hvítir hrafnar hérlendis. Gyðingar á Íslandi hafa ekki hátt, við höfum heldur ekki gefið þeim ástæðu til að líta á sig sem velkomna hér. Helsta þjóðarkvæði Íslendinga, passíusálmarnir, eru á lista alþjóðlegra stofnana yfir hatursorðræðu gegn gyðingum (á Íslandi má ekki kalla homma kynvillinga, en þú mátt mæta í útvarp allra landsmanna og lesa ljóð um ljóta júða), það var frægt þegar hjólreiðabúð bannaði gyðinga og svo eru landsmenn mjög reiðir vegna Palestínu. Ég er einn af þeim, en stundum finnst mér nóg um þegar talað er um gyðinga á Íslandi, við megum ekki rugla þjóðum, trúarbrögðum og ríkisstjórnum saman.

Það mun eflaust reynast auðvelt að banna umskurð. Íslendingum finnst þetta upp til hópa vera ógeðfelld aðgerð. En þetta er lausn í leit að vandamáli, svipað og þegar Þorgerði Katrínu datt í hug að banna búrkur. Þær örfáu búrkur sem sjást hérlendis eru túristar og líf þeirra engu bætt ef fjölskylda þeirra ákveður að heimsækja þess í stað Lofoten til að skoða norðurljósin.

Þegar þingmenn hafa bannvopnið finnst þeim hægt að banna allt alveg eins og maður með hamar sér nagla alls staðar. Þetta er snúið mál því vissulega eru góð rök fyrir því að banna ýmislegt. Á Íslandi ríkir t.d. flugeldabann. Það er bannað að halda vöku fyrir nágrönnum sínum og dreifa loftmengun með flugeldum um miðjan mars, svo það myndi lítið þýða fyrir tilbiðjendur Ahúra Mazda að halda upp á Nowruz með glæsibrag. Auðvitað veltur löggjöf alltaf á siðum í landinu, við munum hafa lögbundið frí á jólunum og um páska um ókomna tíð, og það er gott. En þurfum við að banna einhverjum að fasta yfir ramadan af heilsufarslegum ástæðum? Það er spurningin.
Ættum við að banna foreldrum að setja göt í eyru unglinga, eða húðflúr eins og gæti vel verið siður einhvers staðar? Ættum við að skipta okkur af mataræði barna inn á vegan heimilum? Það er millivegur einhvers staðar, við leyfum ekki fólki að lemja börn þó það geti þótt góð uppeldisaðferð einhvers staðar, en í báðar áttir hvort sem við leyfum eða bönnum eru einhver mörk.

Við ættum að sýna fámennum hópum smá tillitsemi. Þjóðfélagið er ekki mótað að þörfum þeirra, en þeir gera einsleitt samfélag aðeins fjölbreyttara. Ef við ætlum að banna eitthvað þá væri ágætt fyrsta skref að leita fyrst að fórnarlambinu. Annars er kannski ekki um glæp að ræða.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu