Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Stóra Gammamálið og dauða bókmenntafræðin

Stóra Gammamálið og dauða bókmenntafræðin

University politics are vicious precisely because the stakes are so small-

 

Henry Kissinger


Bragi lætur gamminn geysa

 


Hver hefur ekki gaman af því þegar skáld og gagnrýnendur fara í hár saman. Að minnsta kosti hef ég gaman af því, og því líka að taka þátt.

Stóra Braga-málið, eða Gamma-málið hófst þegar aðdáendur Braga Ólafssonar á Druslubóka og Doðranta blogginu grófu upp eintak af nýjustu bók hans (eða markpósti, en verkið var nú einmitt tilnefnt til Ímark verðlaunanna fyrir beina markaðsetningu). 

Stórir atburðir eiga sér ekki stað í sögunni þótt frásögnin sé á sinn hátt hröð; samræðum persónanna er lýst nákvæmlega, þær eru hlaðnar spennu og óútskýrðri merkingu og jafnvel í smæstu tilsvörum hefur lesandinn á tilfinningunni að meira búi undir. Gústaf og Herbert sérstaklega eru eftirminnilegar persónur í hversdagslegum ógeðfelldleika sínum. Frásögnin er hlaðin kunnuglegum húmor. Þetta er semsagt mjög Braga Ólafssonarleg bók, sem aðdáendur hans væru ekki sviknir af.

Druslubækur og Doðrantar 29 Apríl.

 

En það voru ekki allir á því að aðdáendur hans kæmu ósviknir út úr þessu. Hjalti Ægisson bókmenntafræðingur skrifaði inn á Kjarnann mjög harðorða grein um málið. Honum fannst skítt af höfundinum að skrifa bók einungis ætlaðri takmarkaðri elítu fjárfesta, á meðan hann væri á ritlaunum hjá almenningi. Ég tek undir að það sé skítt, ekki að bókin komi ekki í bókabúðir, en að eintak sé ekki að finna á þjóðarbókhlöðu sem lögum samkvæmt á tilkall til alls útgefins efnis.

Á sama tíma má velta fyrir sér hvort þetta sé ekki akkúratt það sem myndlistarfólk geri. Þeir örfáu sem fá listamannalaun skapa fyrir peninginn verk sem fámennur hópur fær að njóta. Meirihluti af myndlist endar ekki í almannarými.


Opinberir styrkir hafa gert Braga Ólafssyni kleift að þroskast og verða til sem rithöfundur og það má vel halda því fram að ef þessara styrkja nyti ekki við væri hann ekki starfandi rithöfundur heldur eitthvað allt annað. En því skyldi ríkissjóður veita fé til listamanna sem skapa eingöngu fyrir lokaða elítu?
Kjarninn, Hjalti Snær Ægisson í greininni Samkvæmisleikir 8 Maí. 

Margir voru sárir yfir orðalagi Hjalta Snæs en ég er mjög sympatískur gagnvart þessu viðhorfi. Hjalti rifjaði upp þegar Bubbi sveik aðdáendur sína endanlega og seldi lögin sín til tryggingafélags, við vorum öll svikin á bóluárunum sem leiddu til hrunsins og ekki bara af pólitíkusum og bankafólki. Af listafólkinu líka.

 

Samstaða íslenskra rithöfunda
 

 

En rithöfundar Íslands standa saman. Ekki gagnvart stjórnvöldum sem hækka bókaskatt þannig að hann verði sá hæsti í Vestur-Evrópu, eða gagnvart bókaútgáfum sem vilja greiða ungum höfundum lægra hlutfall af arði bóksölu með því að gefa þá út í kilju. Hvað þá borgaryfirvöldum sem láta bókasöfn grotna niður eða menntamálaráðuneyti sem fjársveltir skóla þannig að þeir geti ekki boðið upp á upplestra eða keypt inn nýjar barnabækur.

Rithöfundar Íslands standa saman gegn gagnrýnendum. Helvítin skulu ekki komast upp með að ásaka okkar menn um hræsni. Og þess vegna þótti Hermann Stefánssyni gott að benda á að Hjalti Snær ynni hjá háskóla þar sem svo sannarlega væri drulluskítugt kunningjasamfélag.

Háskóladeildin sem Hjalti Snær starfar við er til dæmis ekki beinlínis neitt kirkjuskrúðhús og nær að ætla að hún sé slétt sagt spillt því hún er rekin eins og fjölskyldufyrirtæki. Ástráður Eysteinsson prófessor hefur ráðið þar mágkonu sína til starfa, Heiðu Jóhannsdóttur, sem og svila, Björn Þór Vilhjálmsson. Við deildina starfar Guðni Elísson og einnig kona hans, Alda Björk Valdimarsdóttir.

Ég veit ekki alveg hvað Hjalti Snær á að gera í þessu. Það má vel vera að þessi gagnrýni eigi rétt á sér, víða er pottur brotinn í íslensku samfélagi, (eiginlega alls staðar) en ég sé ekki tenginguna. Þetta minnir mig svolítið á þegar svilinn Björn Þór Vilhjálmsson var ásakaður um að vera skítugur perri rétt fyrir seinustu jól af því hann hafði vogað sér að fíla ekki ljóðabók í botn. Að minnsta kosti getum við huggað okkur við að bókmenntafræðinga-klíkan og rithöfunda klíkan eru ekki sömu klíkurnar. 

Það er hægt að hafa gaman af þessum ritdeilum. Sérstaklega af því menningarumfjöllun og umræða á Íslandi er svo lítilfjörleg. Sennilega hefur þó Kissinger rétt fyrir sér að þeim mun meiri gífuryrði og rætni sem finna má í greinaskrifunum því minna er í húfi. Ég skora á Hjalta Snæ og Hermann Stefánsson að skrifa næst eitthvað um hvernig bókaskatturinn gæti orðið til þess að fleiri bókaútgáfur gætu farið á hausinn á næstu árum, hvernig það er óásættanlegt að skólabókasöfn hafi ekki fjármagn til að endurnýja sig, hvað það er skítt að flestir rithöfundar neyðist til að selja Gömmum verkin sín því að ritlaunin eru bara hlutastarf . . . 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni