Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Er listnám þess virði?

Þetta er ekki bloggpóstur um hvort maður þurfi menntun til að vera listamaður. Listafólk skapar list, menntað eður ei, og menntun hefur gildi hvernig svo sem hún er notuð eða ónotuð.

Ég varð bara hugsi þegar ég skoðaði þessa frétt rétt áðan:
http://www.artandeducation.net/school_watch/entire-usc-mfa-1st-year-class-is-dropping-out/

Heilt meistaranám í hönnun hætti hjá mjög flottum bandarískum listaháskóla til að mótmæla hversu hátt gjald nemendur þurftu að greiða fyrir námið. Flott samstaða og góðar ábendingar. Staðreyndin er sú að lausar stöður eru það fáar, og laun það lág, í kennarastöðum við listaháskóla gerir það að verkum að erfitt er að réttlæta stóra fjárhagslega áhættu þegar farið er í framhaldsnám á þessu sviði.

Það er ekki vafi í mínum huga að slíkt nám sé verðmætt. Ekki bara fyrir einstaklinginn sem tekur það heldur fyrir samfélagið í heild. En verðmæti borga sig ekki alltaf peningalega séð. Sérstaklega ekki innan bandaríska skólakerfisins sem flest allir ættu að vera sammála um að sé orðið alltof dýrt.

En hvað með íslenska listaháskólann? Af hverju er dýrara að verða myndlistamaður heldur en lögfræðingur? Hvað er það sem réttlætir slíkt? Hvers vegna ætti ein starfstétt, sem er að meðaltali mun lægra launuð, þurfa að borga meira en langflestar hinna fyrir nám sitt? 

Það er ekki réttlátt að námsgjöld íslenskra listamanna séu þrjúhundruð þúsund þegar aðrir þurfa bara að borga skráningargjöld. Það er ekki listaháskólanum að kenna, hann er sjálfseignarstofnun sem hefur verið vel rekin (eiginlega er það nokkuð íronískt að eini háskólinn sem ekki hafði viðskiptafræðideild skildi vera sá sem var í bestri fjárhagsstöðu eftir hrun). Það eru íslenskir listamenn sem sætta sig við þetta og gera enga kröfu á því að þessu fyrirkomulagi sé breytt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni