Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Milli sirkuss og svefns, Parísar og Brussel

Milli sirkuss og svefns, Parísar og Brussel

Eitt af því sem ég elska við Brussel á vorin eru grænu páfagaukarnir sem skyndilega birtast í trjánum (sérstaklega við tjarnirnar í Ixelles þar sem þeir falla vel inn) og garga. Af einhverjum ástæðum hefur páfagaukum sem sloppið hafa frá eigendum náð að fjölga sér og mynda nýlendur hér en ekki sunnan Brussel í borgum eins og París.

Það er stressandi tími hjá mér. Að flytja er höfuðverkur hvert sem maður ætlar sér, en ef maður er að koma sér fyrir í Frakklandi þá er verkurinn nístandi sár. Eftir því sem líður á daginn þarf ég að kæfa mörg þögul öskur í hvert sinn sem ég sé eyðublað. Svo er líka Brussel helmingi ódýrari svo á öðrum hverjum kroissant þarf ég að spyrja mig: er þetta þess virði?
(En svarið er auðvitað já. Þótt að bestu krossantar í heimi séu á Charlies bakaríinu í miðbæ Brussel).

Uppgötvun vikunnar var Porte de Clignancourt, þangað sem við erum að flytja. Þótt að flóamarkaðurinn þar sé ekki eitt af því fyrsta sem maður ætti að gera í borginni, af því maður þarf að fara á Louvre, Orsay, Eiffel, Montmartre og latínuhverfið fyrst, þá er hann eitt af því sem maður ætti að tékka á ef maður er í lengri tíma. Barinn la Recyclerie, sem er einhvers konar blanda af mörgum kaffihúsum og hjólreiðaverkstæði/vinnustofu fyrir smiði er fallega hrár og rétt fyrir ofan gamla járnbrautalínu sem búið er að breyta í almenningsgarð.(Sjá myndina sem fylgir blogginu).

 

Við fórum (ég og Ragnheiður kona mín) að sjá sirkus í Theatre le monfortEffet Bekkrel var skemmtileg sýning, aðallega út af snjallri ljósahönnun og kraftmiklum ungum performerum. (Fjórar nýútskrifaðar stúlkur úr frönskum sirkússkóla). Við fórum aðallega út af því að vinur minn er hljóðmaður þar, en aldrei þessu vant var gaman í sirkúsinum. Hann virkar stundum, þegar fólk hefur húmor og kraft. Reyndar er vel þess virði líka að skella sér með metrónum niður á Porte de Vanves og sjá sýningar í leikhúsinu. Það minnir pínulítið á vissa kirkju í Breiðholtinu (lítur út eins og álklætt indíánatjald) og fyrir þá sem tala ekki bofs í frönsku eða kannski bara pínu þá eru þetta aðgengilegar sýningar. (Yfirleitt sirkús eða fjölskyldusýningar).

Svo snerum við aftur frá stórborginni í belgíska þorpið að sækja drasl og heilsa upp á vini. Það reyndar hentaði afskaplega vel að Kunsten Festival des arts skildi vera í gangi. (Já titill hátíðarinnar er að sjálfsögðu bæði á frönsku og hollensku rétt eins og öll götuheiti). Við gistum heima hjá myndlistarmanninum Kristni Guðmundssyni og kærustu hans leikstjóranum Renée Goethijn. Þau búa á mörkum Etterbeek og Ixelles, við hlið Theatre Varia. Við litum þangað föstudagskvöldið til að sjá TG Stan með uppfærslu á Kirsuberjagarði Tjékovs. Sýningin var góð, það er alltaf gott þegar fólk hefur skilning á því að um kómedíur en ekki tragedíur sé að ræða þegar kemur að Tjékov. Leikstíllinn var hrár, tilgerðarlegur og ýktur, en leikarar duttu í og úr karakternum eftir því hvort þeir höfðu línu eða ekki. Leikarar voru þó misgóðir í að tileinka sér þennan erfiða stíl.


Laugardagskvöldið sáum við verk La Substance (but in english) eftir Mårten Spångberg í húsnæði dansflokksins Rosas. Ég hafði aldrei komið í æfingarrými dansflokksins en það kom mér á óvart hversu stórt það var. Þarna voru margir salir, gistingaraðstaða, stórar skrifstofur og mörg hús sem salurinn hafði yfir að ráða. Ég var þó ekki jafn imponeraður af fimm tíma sýningu Mårtens, þó mér finnist tilraunin flott. Við sátum í þrjá tíma á gólfteppinu ásamt öðrum áhorfendum (þetta var ekki inni í sýningarsal heldur stóru dansstúdíói) og fylgdumst með því sem líktist hippa kommúnu með blæti fyrir vörumerkjum og gosdrykkjum. En þótt búið væri að tileinka sér fagurfræði anarkismans er verkið undir niðri tyranní. Það er best að mála innan línanna og fylgja reglunum.
 

Sunnudaginn sáum við Exit eftir Kris Verdonck og Alix Eynaudi. Við steinsofnuðum. Sem var mjög skemmtileg upplifun. Verkið gekk út á svefn og slökun, og byggðist á síendurteknum danshreyfingum í mjög hægum ljósaskiptum. Áhorfendur höfðu mikið pláss, hver og einn hafði rými á við þrjú sæti með púðum, koddum og mjúkri dýnu þannig að hver og einn gæti lagst niður og fylgst með dansinum. Er hægt að nota dans til að svæfa fólk? Og er hægt að gera góða sýningu þar sem meirihluti fólks sofnar? Svarið myndi ég segja að sé já. En sennilega bara einu sinni eins og með öll svona súper-konseptúal verk.

 

Annað sem ég mæli með er heimildarmyndin Beyond Clueless. Hvort sem fólk hefur gaman af amerískum unglingamyndum eða ekki (og ég ímynda mér að ef maður er vaxinn upp úr markhópnum þá yfirleitt ekki) þá er myndin frábær. Unglingamyndir eru einstakt fyrirbrigði, þegar maður hefur séð þessa mynd þá skilur maður það!

 



Að lokum enda ég pistilinn á þessu stutta vídjói þar sem Íslendingar í París prjóna saman til stuðnings nýrri stjórnarskrá. Þetta eru krúttleg meðmæli, en einlæg. Í alvöru talað, reynum nú að færa stjórnarskránna til nútímans. (Frakkar eru sjálfir á sínu fimmta lýðveldi, það veitir stundum ekki af að lagfæra stjórnkerfi). Það var Parísardaman Kristín Jónsdóttir sem var aðalsprautan í þessum meðmælum og hún talar um þau í vídjóinu.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni