Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Hvar værum við án þeirra?

Ljósmæður, hvar værum við án þeirra?

Mjög stór hluti okkar væri eflaust ekki hér og nú að lesa þessa grein. Það er nefnilega ekki að ástæðulausu að strax árið 1761 var farið að mennta ljósmæður eða yfirsetukonur. (Og reyndar ljósfeður/yfirsetumenn líka, fyrsti karlmaður til að taka ljósmóðurpróf á Íslandi var Jón Halldórsson bóndi sem gerði það 1776, árið sem Bandaríkin lýstu yfir sjálfstæði). En auðvitað löngu áður en byrjað var að mennta ljósmæður var fólk sem aðstoðaði við fæðingar, er þetta ekki mögulega fyrsta starfsgreinin sem mannkynið þurfti síðan það þróaði með sér þetta óhemju stóra höfuð?

Svo hvað skuldum við ljósmæðrum?

Við skuldum þeim, rétt eins og öllum öðrum, sanngjörn kjör. Ef við laun væru greidd í einhverju hlutfalli við hversu nauðsynlegir viðkomandi aðilar væru fyrir samfélagið væri ljósmóðirin á forstjóralaunum og forstjórinn á ljósmæðralaunum, og fyrir hverja milljón sem forstjóri N1 fengi í launahækkun fengi hver ljósmóðir tíu. Og ef kjör væru í einhverju hlutfalli við hversu vinsæl starfstéttin er (ljósmóðir var valið fallegasta orð íslenskunnar í einhverri könnun ... ögn væmið að mínu mati, en ég er ekki íslenska þjóðin), þá væru ljósmæður með 180 þúsund króna launauppbót til að geta fjárfest í öðru húsi nær vinnu og allan bensínkostnað niðurgreiddan að eigin geðþótta.

En við greiðum ekki laun eftir vinsældum eða nauðsyn. Markmiðið er sanngirni. Að fólk geti verið sátt.

Í augnablikinu eru ljósmæður ósáttar við kjör sín. Við ættum að sýna því skilning og hækka laun þeirra þannig að þau séu sambærileg við aðrar jafn-menntaðar stéttir. Við eigum að sjá til þess að með gleðinni yfir að taka á móti barni fylgi einnig gleði yfir því að opna launaumslagið. Þær eru ekki að biðja um mikið. Ekki um milljón aukalega á mánuði, ekki um extra-hús nær vinnustaðnum, ekki um annað en sanngirni.

Þessvegna eigum við að styðja ljósmæður.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu