Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Okkar vinir, okkar skömm

Það er ekki sjálfgefið að lýðræði, mannréttindi og skynsemi sigri ávallt. Slíkt gerist ekki ef meginþorri okkar lætur eins og sér komi ekkert við nema bara það sem gerist í næsta nágrenni við sig. (Og stundum varla það).

Ótal smærri þjóðir um allan heim eru undir hælnum á öðrum stærri. Þannig hefur það kannski alltaf verið, bæði áður og eftir að Aþeneyingar sögðu íbúum Melos að: „Þeir sterku gera það sem þeir geta og hinir þola það sem þeir þurfa.“ En í  slíkum heimi væri Ísland ekki sjálfstætt, Apartheid í Suður-Afríku hefði aldrei verið lagt af, Eystrasaltsríkin aldrei losnað undan Sovíetríkjunum og Palestína ætti enga von. Þegar við látum okkur það varða þegar stærri aðilar níðast á þeim smærri stuðlum við að breyttum heim, þar sem hvorki þeir stóru né smáu gera það sem þeim sýnist og við þurfum ekki að þola óréttlæti.

Rödd okkar skiptir ekki síst máli þegar um vina eða bandalagsþjóðir er að ræða. Myanmar getur látið sem vind um eyru þjóta þó við fordæmum þjóðarmorð á Róhingja-fólkinu (sem breytir því ekki að auðvitað fordæmum við slíkt), en það getur Tyrkland ekki gert. Ekki ef við tökum þetta upp til umræðu á samstarfsvettvangi Evrópulandi, nú eða á fundum NATO. Þjóðarmorð og ólöglegur stríðsrekstur Tyrkja skiptir mun meira máli í hinu stóra samhengi heldur en skrípaleikurinn í kringum morðið á Skripal, sem þó hefur markað upphafið á nýju kalda stríði.

Annað sem við ættum að láta okkur skipta máli er þegar önnur smáþjóð í Evrópu krefst sjálfstæðis. Ef danskar ríkisstjórnir hefðu hagað sér eins og valdstjórnin í Madrid gerir væri Ísland ennþá ósjálfstætt land. Ef saga Íslands á 20. öld er saga um þjóð sem fékk að ráða eigin örlögum og eigin menningu er saga Katalóníu á 20. öld sorgarsaga, saga um lýðræðislega kjörin stjórnvöld sem slátruð voru af fasistum og bandamönnum þeirra. Eini lýðræðislega kjörni forseti sem tekinn hefur verið af lífi í sögu Evrópu var forseti Katalóníu Lluís Companys i Jover, sem var handsamaður af Gestapo og afhentur Franco árið 1940.

Í dag sitja katalónskir stjórnmálamenn, listamenn og almennir ríkisborgarar inni fyrir að tjá sig, og margir eru á flótta. Þar með talið ŕéttkjörinn forseti Katalóníu, Carles Puidgemont sem er í gæsluvarðhaldi í Þýskalandi og spænska valdstjórnin krefst framsals á.

Spánn er náinn viðskiptaaðili okkar. Vegna saltfisksviðskipta urðu Íslendingar að leyfa sölu spænsks rauðvíns á miðjum bannárunum. Það má því segja að Spánverjar hafi eitt sinn haft vit fyrir okkur og eiga því inni greiða hjá okkur. En Katalónar eru smá þjóð rétt eins og við, rétt eins og Kúrdar, og í heimi þar sem slíkar þjóðir eiga sér ekki málsvara, hverju getur Ísland þá átt von á þegar einhver gengur á rétt þess?

Það væri því ekki bara hetjulegt að taka afstöðu með lítilmagnanum og vanda um fyrir bandalagsríkjum okkar. Það er hreinlega skynsamlegt. Það er spurning um hvernig heim við viljum búa í.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu