Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Verum ekki meðvirk með Erdogan!

Verum ekki meðvirk með Erdogan!

Hvað munu íslensk stjórnvöld gera ef það fæst staðfest að friðarsinninn og aktívistinn Haukur Hilmarsson er látinn, myrtur í hinni glæpsamlegu árás tyrkneskra stjórnvalda á Afrin?

Þetta er spurning sem verður vonandi tekin fyrir á þingi, í utanríkismálanefnd og ef íslenskur ríkisborgari hefur sannarlega verið myrtur af tyrkneskum stjórnvöldum þá krefst það aðgerða af hálfu utanríkisráðherra.

Þegar árásin í Afrin átti sér stað boðaði utanríkisráðherra Frakka,  Jean-Yves Le Drian, til neyðarfundar í öryggisráðinu. Bæði hann og forsetinn tjáðu sig um málið, Emmanuel Macron sagðist líta á þetta alvarlegum augum sem vandamál fyrir Frakkland og Jean Yves sagði að Ankara (höfuðborg Tyrklands) ætti ekki að bæta gráu ofan á svart: „Ensuring the security of its borders does not mean killing civilians and that should be condemned. In a dangerous situation in Syria, (Turkey) should not add war to war.“

Fjölmargar aðrar þjóðir auk Frakka fordæmdu aðgerðina sem brot á fullveldi Sýrlands, með jafnvel hvassari orðum. Við þurfum að láta heyra í okkur líka.

Guðlaugur Þór er í góðri stöðu til að vanda um fyrir Erdogan. Hann átti þátt í því að sjálfstæðisflokkurinn gengi inn í alþjóðasamtök íhaldsmanna þar sem flokkur Erdogans Tyrklandsforseta, AKP (réttlætis og þróunarflokkurinn) er einnig meðlimur.

Er Íslandi stætt að vera í stjórnmálasambandi við Tyrkland ef Tyrkir virða ekki landamæri Sýrlands og stuðla að auknum óstöðugleika og ófriði á svæðinu? Þessi spurning er stór og mikilvæg óháð því hvort íslenskur ríkisborgari hafi látið lífið í ólögmætri árás Tyrkja eða ekki.

Getum við þolað þjáningar Kúrda í algjörri þögn, eða eigum að þora eins og forðum þegar við vorum fyrst allra til að viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna? Eigum við að þora að tala fyrir réttindum almennra borgara og fordæma svívirðilega hegðun tyrkneskra stjórnvalda?

Mér finnst þetta ekki erfið spurning. Við skulum ekki vera meðvirk með Erdogan.

(Mynd sem fylgir grein er eftir listakonuna Zehra Dogan, sem situr inni í fangelsi í Tyrklandi fyrir þetta málverk, ásökuð um hryðjuverkaáróður).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni