Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Grínast með hatur

Einn vinur minn varð fyrir miður skemmtilegri lífsreynslu þegar sonur hans hringdi úr grunnskólanum.

„Pabbi….Strákarnir voru að sparka í mig og ég veit ekki af hverju ... Þeir sögðu eitthvað „ginger“ og það hlógu allir af mér og ég skil ekki af hverju?“ (Það má nálgast status Hákon Helga Leifssonar um þetta mál hér).

Í umræddum status útskýrir Hákon hvað var í gangi. Á netinu flakkar „brandari“ um svokallaðan „kick a ginger“ dag. Með öðrum orðum dagur þar sem börn og vanþroska einstaklingar á fullorðinsaldri hvetja aðra til að sparka rauðhært fólk.

Það er óendanlega mikið af svipuðu „gríni“ til á netinu. Grín sem hefur afleiðingar í raunveruleikanum, og ýtir undir ofbeldi. Því ef einhverjir krakkar í einum grunnskóla hafa rekist á þetta og framkvæmt, þá eru a.m.k. einhverjir krakkar að íhuga þetta á öðrum stað.

Það eru því miður ekki einungis börn sem eru að hvetja til þessa heldur greinilega fullorðnir einstaklingar með kreditkort til að greiða fyrir að viðhalda vefsíðum eins og t.d. þessari: kick-a-ginger-day.com

Nei, það er ekki grín. Og ekki bara bundið við Ísland, heldur eru dæmi um alvarlegar afleiðingar annars staðar.

Samkvæmt örstuttu gúggli þá á þessi brandari upphaf sitt að rekja til Southpark og gott ef mig rámar ekki í þann þátt. Ég kenni þó ekki Southpark um, þátturinn er paródía og Cartman sem stendur fyrir hatursáróðri gegn rauðhærðum krökkum í þáttunum er ekki stillt upp sem fyrirmyndar einstaklingi. 

En þessi viðburður fær mig til að hugsa um hversu mikilvægt það er að kenna börnum betur á netið. Að það sé ekki einungis uppspretta upplýsinga, heldur nokkuð sem við þurfum að vantreysta og efast um. Ungt fólk stendur sig reyndar betur en það eldra við að greina falsfréttir frá raunfréttum en það þarf meira til.

Eitt það mikilvægasta sem skólakerfið getur kennt okkur er að standa ekki á hliðarlínunni þegar óréttlæti á sér stað. Ekki bara að setja okkur í spor annarra eða viðlíka, heldur að grípa inn.

Því það sem fylgdi sögunni voru að eldri krakkarnir stóðu til hliðar, hlógu og hvöttu jafnvel yngri krakkana áfram við barsmíðarnar. Ef þessir einstaklingar læra ekki eitthvað af þessu er ekki hægt að treysta á þá til að gæta mannréttinda annarra í framtíðinni.

Það vill nefnilega svo til að við stöndum sem samfélag alltof oft á hliðarlínunni, meðan þeir meira vanþroska á meðal okkar hvetja fólk áfram. Það er nefnilega fullt af hatursáróðri á netinu sem er dreift áfram af vitleysingum, sem inn á milli ratar til vitleysinga sem framkvæma það sem hvatt er til. Það eru meira að segja heilar útvarpsstöðvar tileinkaðar þannig þvælu.

Einhvern veginn var ég að vona að skólar væru betri í þessu en þegar ég var þolandi, gerandi og stóð á hliðarlínunni á þeim áratug sem ég var í grunnskóla. Því miður veit ég að Hákon var ekki eina foreldrið með börn sem varð vart við þennan dag. En eins og hann benti réttilega á í færslu sinni þá hefði mátt fagna öðrum degi í gær:

„Það eru mannréttindi að verða ekki fyrir ofbeldi og bendi ég því öllum á að dagurinn í dag er ekki eingöngu ljótur. Í dag er alþjóðlegur mannréttindadagur barna og hefur sá verið haldinn á hverju árinu frá því 1954. Beini ég því þeim fyrirmælum til allra skólastofnanna að sjá til þess að honum verður fagnað innilega að ári.“

Ég tek undir með honum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu