Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Aðeins um gungur, druslur og gluggaskraut

„Ég hlýt að líta svo á og það skal þá standa að Davíð Oddsson sé slík gunga og drusla að hann þori ekki að koma hér og eiga orðastað við mig.“

Það er alltaf svolítið gaman að renna yfir það sem stjórnmálamenn hafa sagt áður og bera saman við það sem þeir segja í dag.  Þegar Steingrímur J. Sigfússon lét þessi orð falla var hann ekki forseti þings heldur formaður stjórnarandstöðuflokks. Til umræðu á þinginu var umdeilt fjölmiðlafrumvarp, mönnum var heitt í hamsi og það skiljanlega. Enda leit út fyrir að forsætisráðherra ætlaði sér að kæfa gagnrýnin fjölmiðil með sérhönnuðu fjölmiðlafrumvarpi.

Síðar átti sami forsætisráðherra eftir að verða ritstjóri aðal samkeppnisaðila fréttablaðsins en það er nú önnur saga. Bæði Davíð og Steingrímur eru breyttir menn í dag, og nú starfa flokkar þeirra saman. Framtíðin er framandi land, og framtíðar sjálf okkar eru ókunnugar manneskjur. Í dag snuprar forseti þingsins, formenn stjórnarandstöðuflokka fyrir að óska eftir forsætisráðherrum í umræður.

Það áttu ekki margir von á þeirri fléttu.

Að vísu var það stjórnar-Steingrímur sem í febrúar síðastliðnum sagði við Kjarnann að „Próf­­kjör í flokki er svo langt í burtu frá þing­­manns­­starf­inu að það að mínu mati ætti ekki að vera full­gilt ferða­til­efni. Ekki nema að þú ættir önnur erindi með. Eigum við bara að hafa það skýrt að þátt­­taka í próf­­kjörum er ekki til­­efni til að senda inn eigin reikn­ing?“

En kannski var það stjórnarandstöðu-Steingrímur sem einhvern veginn náði í gegnum stjórnar-Steingrím, því núna hefur forsætisnefnd sem hann leiðir komist að þeirri niðurstöðu að það sé alveg í lagi að þingmenn rukki almenning fyrir prófkjörskostnað. Og að ókurteisir þingmenn sem spyrji spurninga ættu kannski bara að fara að hugsa sinn gang. Kannski að þeir verði kallaðir fyrir siðanefnd.

Hvað varð um hinn ötula baráttumann fjölmiðlafrelsis sem kallaði menn gungur og druslur þegar fjölmiðlafrelsið var í húfi. Hann hefur ekki sést síðan lögbann var sett á Stundina, og fátt sagt, og ekkert gert í því þó svo að alþjóðleg blaðamannasamtök og ÖSE lýsi yfir áhyggjum vegna þessa lögbanns.

Ég verð að játa að ég er einn af þeim sem var hissa á samstarfi sjálfstæðisflokks og vinstri grænna. Ekki að mér finnist flokkarnir svo ólíkir, að mestu leyti er samstarf þessara flokka í góðu jafnvægi og í miklum samhljóm. Kjósendur þeirra eru íhaldsamt fólk með svipaða hagsmuni. Á tyllidögum til að skerpa á mismuninum eru dregin fram femínísk mál, þá getur Kolbeinn Proppé skammað Brynjar Níelsson fyrir fornfáleg viðhorf og Brynjar kannski sagt brandara sem kjósendur VG geta sopið hveljur yfir. En það er svo þægilegt að málin eru aldrei það alvarleg að þau varði skilnað. Konurnar sem kjósa VG og karlarnir sem kjósa sjálfstæðisflokkinn eru kannski með ólík viðhorf í jafnréttismálum en svipuð viðhorf þegar þau skipuleggja framtíð heimilisins, skattastefnu, velferðarmál og þvíumlíkt.

Tökum sem dæmi veiðigjöldin. Enginn þingmaður hefur verið jafn glæsilegur málsvari þess og baráttukonan Lilja Rafney sem hetjulega berst fyrir lækkun þeirra. Hún stóð sig frábærlega í Silfrinu um daginn.

Að vísu hlýtur útgerðin að klóra sér svolítið á kollinum. Eftir að hafa sökkt fjármunum í að styrkja hvern sjálfstæðiskarlinn á fætur öðrum í prófkjörum aðal-íhaldsflokksins þá sitja þeir á hliðarlínunni meðan ljónið frá Vestfjörðum berst fyrir skattalækkunum, alveg ókeypis.

Til að gæta sanngirni ættu útgerðirnar að splæsa í heilsíðuauglýsingu í flokksblaði VG og Sjálfstæðismanna, rétt við hlið Staksteina og Moggaskrípó kannski, og skrifa fáein þakkarorð.

En þau ættu samt að þakka forsætisráðherranum sérstaklega líka fyrir skattalækkunina sem er framundan. Því þó svo Staksteina-höfundur hafi á sínum tíma kallað Katrínu gluggaskraut og opinberað þar fornfáleg viðhorf sín til kvenna (skammaði Kolbeinn Proppé hann ekki örugglega?), þá væri ekkert af þessu hægt án hennar. Katrín ræður lögum og lofum í hreyfingunni.

Þess vegna skiptir höfuðmáli að hún hafi skipt um skoðun. Eða að hún hafi haft þessa skoðun þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Fyrir kosningar vildi Katrín hækka veiðigjöld og skammaðist út í ríkisstjórn fyrir áform um lækkanir. Forgangsröðunin var kolröng. En núna virðist hún ekki vilja mæta í þingsal og útskýra hvernig hún skipti um skoðun. Það getur oft verið erfitt að játa að maður hafi haft rangt fyrir sér, en þá er ágætt að útskýra hvernig maður áttaði sig á mistökum sínum svo að við hin sem viljum hækka veiðigjöld á stærstu útgerðarfyrirtækin, höfum rangt fyrir okkur. Hvernig stendur á því að fyrirtæki sem skila 20 milljarða arði hafa ekki efni á 3 milljarða gjöldum? Forsætisráðherrann Katrín veit eitthvað meira sem stjórnarandstöðuþingmaðurinn Katrín vissi ekki. Og við hin erum bara forvitin að heyra hvað það er.

Kannski hefur stjórnarandstöðu-Katrín rétt fyrir sér. Kannski er forgangsröðun þings og ríkisstjórnar stjórnar-Katrínu kolröng. Kannski ætti þingið frekar að vera að ræða hvernig mætti sjá til þess að gamlar konur inn á sjúkrahúsum séu ekki látnar gista inn á klósettum? Og kannski hefur stjórnarandstöðu-Steingrímur líka rétt fyrir sér. Það eru gungur og druslur sem ekki þora að mæta í þingsal og skýra afstöðu sína.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu