Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Gerum hafpulsuna varanlegt minnismerki!

Gerum hafpulsuna varanlegt minnismerki!

Litla hafpulsan sem birtist á Reykjavíkurtjörn í tilefni Cycle listahátíðinni er ein skemmtilegasta stytta og listgjörningur í borginni í lengri tíð. Styttan er snjöll, einföld, húmorísk og falleg. Besti parturinn af verkinu eru þó menningarlegu vísanirnar. Styttan vísar í litlu hafmeyjuna sem er ein íkonískasta stytta á Norðurlöndunum og ein frægasta táknmynd Kaupmannahafnar (sem er gamla höfuðborg Íslands). Pulsan (eða pylsan) hefur verið á óbeinan máta þjóðarréttur Íslendinga, kannski ekki innlend hefð, en einn elsti veitingastaður landsins og frægasti er pulsustaðurinn Bæjarins Bestu og því varla dæmigerðari réttur fyrir Reykvíkinga og gesti borgarinnar en ein pulsa með öllu. Pulsan er þó dönsk arfleifð líkt og stjórnkerfi okkar, bakarísmenning og byggingarlist miðborgarinnar. Það er því fátt betur við hæfi en að Reykjavík hafi styttu í tjörninni sem vísi til hafmeyjunnar og spegli hana. Hafpulsan er í raun karlkyns útgáfan af þeirri styttu, því óneitanlega kallar þetta fallíska tákn fram hugrenningartengsl við kynfæri karlmanna.

Vonandi hefur borgarstjórnin pólitískt hugrekki til að gera bronsafsteypu af þessu verki og koma því fyrir á viðeigandi stað í tjörninni. Það mætti jafnvel vera eilítið stærri útgáfa (eða hvað, er það kannski minnimáttarkennd í mér?).

Önnur stytta sem væri kærkomin viðbót í borgarlandslagið að mínu mati er verk Evu Ísleifsdóttur sem sjá má á horni Kringlumýrarbrautar og Suðurlandsbrautar. Það verk kallast ágætlega á það hugarástand sem getur myndast í umferðarteppu og þá þrá að helst geta fundið sér neyðarútgang sem fyrst. Bæði hafpulsan og neyðarútgangurinn eiga það sameiginlegt að vera dásamlega húmorísk verk sem endalaust er hægt að ræða.

Vonandi kaupir borgin bæði verk Steinunnar Gunnlaugsdóttur og Evu Ísleifsdóttur. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu