Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Þetta getur ekki haldið svona áfram

Við sitjum föst í sama hjólfarinu. Þriðja ríkisstjórn sjálfstæðismanna fellur út af siðferðisskorti, vanhæfni og opinberun á lygum. Ég veit ekki með ykkur en ég er dauðþreyttur á þessu. Dauðþreyttur á að það þurfi að kjósa aftur og aftur og við fáum sama hrokann, sömu hegðunina og sömu lygarnar.

Helst væri ég til í að ræða við ykkur stöðu háskólanáms á Íslandi. Sérstaklega brenn ég fyrir málefnum Listaháskólans, því það særir mig sem fyrrum nemanda djúpt að fólk þurfi að læra innan um heilsuskaðlega myglu, án kyndingar.

En ég get ekki skrifað enn einn pistilinn um úrbæturnar sem þarf þar. Við þurfum stjórnarskrárumbætur af því leynd er plága hér á landi. Ráðherraræði er vandamál eins og hegðun þessarar ríkisstjórnar hefur sýnt. Það þarf að styrkja þingið gagnvart gerræðislegum frekjum og gömlum kerfiskörlum sem ekki hafa samúð með almenningi í landinu, eða þolendum óréttlætis.

15. grein nýju stjórnarskráarinnar myndi hljóða svona: Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum.

Þetta bentu Bergur Þór Ingólfsson og Þröstur Leó á þegar skrifuðu grein saman og kölluðu eftir upplýsingum um ferlið að baki uppreist æru.

En þetta er ekki það eina sem vantar. Við viljum að það sé hægt að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál þegar þingið er vanhæft til að svara kalli almennings. Við viljum að fólk kallað eftir umræðu um mál sem það brennur fyrir á þingi, þá gætu ég og vinir mínir í hollvinafélagi LHÍ safnað undirskriftum og sett það á dagskrá þings.

Mér er annt um að það sé lýðræði í þessu landi sem virkar. Ég held að þú lesandi sért það líka. Það er kominn tími á að samþykkja nýja stjórnarskrá. Eða viljum við að forsetinn fari upp í pontu á næsta þingi og skammi það í þriðja sinn fyrir að koma engu í verk?

Ef fólk meinti það sem það sagði í kosningabaráttunni 2016 þá er þingmeirihluti fyrir því að samþykkja nauðsynlegar umbætur. Svo við getum haldið áfram úr þessu hjólfari. Það er ekki ómögulegt. Þegar Sovétríkin féllu tók við mikil kreppa í Finnlandi, efnahagskreppa og stjórnarkreppa, en síðan var ný stjórnarskrá samþykkt við aldamótin tíu árum síðar þann 1. mars árið 2000.

Þetta er ekki ómögulegt og eina sem þarf er viljinn. Viljum við umbætur? Vill VG umbætur, vill Björt Framtíð umbætur, vill Viðreisn umbætur, vill framsókn umbætur?

Ég spyr ekki óstjórntæka flokkinn.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu