Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Að sjá ekki skólann fyrir sjómanninum

Að sjá ekki skólann fyrir sjómanninum

Núna um daginn átti sér stað sjómannshvarf. Það var að vísu ekki skipskaði heldur var málað yfir greyið manninn og vakti þetta skyndilega brotthvarf mikla umræðu, sem á endanum hverfðist um gamlan karl í blokk skammt frá. Í sjálfu sér var ekki mikill missir af verkinu, þótt það væri synd ef veggur sjávarútvegsráðuneytisins héldist áfram hvítur. En ef niðurstaðan er sú að við fáum ný myndverk með reglulegu millibili þá var nú ágætt að einhver kvartaði yfir sjómanninum. Mikið vildi ég samt óska að nágrannarnir í Skuggahverfinu hefðu kvartað yfir hinu húsinu við Sölvhólsgötu og kofaskriflunum í kring.

Kofarnir í kringum Sölvhólsgötu 13 áttu að vera til bráðabirgða þegar þeir birtust þarna 2006 og ég veit ekki hvort að grenndarkynning hafi farið fram. Það var hins vegar ekki hægt að kenna tónsmíðar, danslist, leikstjórn eða leiklist á Íslandi án þeirra. Húsið sjálft var nefnilega að rotna að innan, engin kynding á efri hæðum, hljóðeinangrun skorti (sem er bagalegt í tónlistar&leiklistarskóla) og svo mætti lengi áfram telja. Við erum reyndar nokkur sem höfum talið það upp margoft.

Nú er starfsemin að færast úr húsinu. Myglan veldur að öllum líkindum þeim sem stunda nám og kenna þar heilsutjóni (fyrir utan að aðstaðan er slæm) og tónlistarkennslan er komin annað, núna algjörlega einangruð frá öðrum deildum skólans. Hönnun, leiklist, tónlist og myndlist eru öll á sitthvorum staðnum, þvert á það sem stjórnvöld ætluðu sér þegar þau sameinuðu mismunandi skóla. Þá átti að fást sparnaður með því að reka eitt bókasafn, eitt mötuneyti, hafa eina skólastjórn og eitt hús. Við myndum spara 100 milljónir árlega ef þetta loforð hefði verið uppfyllt strax 1997, en þess í stað er skólinn að sligast undan kostnaði við húsaleigu, sem þrátt fyrir það nýtist skólanum illa.

Enginn vildi kannast við hver bar ábyrgð á hvarfi sjómannsins. Hvorki ráðuneytið né borgin, pólitíkus eða starfsmaður með símtól og skrifstofu. Augljóslega tók einhver ákvörðun og einhver málaði yfir og í hinu stóra samhengi er það ekki sérstaklega mikilvægt. Í raun bara atvinnuskapandi. En það vill heldur enginn bera ábyrgð á því hversu illa er komið fyrir listaháskólanum. Ekki menntamálaráðuneytið sem lofaði skólunum sem sameinuðust 1997 splunkunýju húsnæði, ekki þingið sem fer með fjárlagavaldið eða borgarstjórn sem þó segist gjarnan vilja hafa skólann í höfuðborginni. Eina sem nemar og kennarar hafa beðið um eru skýr svör og einhver langtímaáætlun, en það hefur því miður ekki bólað á því, þótt þingsályktunartillaga um þetta efni hafi verið flutt á síðasta þingi.

Starfsemi listaháskólans skilar okkur mörgu fögru. Nemendur við þann skóla munu eflaust gera mörg falleg verk sem munu prýða annars gráa eða hvíta veggi, og aðrir nemar munu gera leiksýningar og kvikmyndir sem við getum verið stolt af. (Og hafa gert, nánast allt þjóðþekkt leiklistarfólk hefur lært þarna).

En það er ekki fallegt að láta listaháskólann hírast í myglandi húsnæði. Það er jafnvel ljótara og hallærislegara en ódýrasta veggjakrot bæjarins. Eins mikið og hugur minn er hjá OR og nýju höfuðstöðvunum sem nú þegar eru byrjaðar að mygla þá held ég að þær verði að fara aftur í röðina. Listaháskólinn hefur beðið í 20 ár og það er komið að honum núna. Ef það finnast nokkrir milljarðar aflögu til að redda klúðrinu hjá OR þá hlýtur að vera hægt að verðlauna þolinmæði íslenskra listnema, kennara, listamanna og listunnenda í leiðinni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu