Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Af hverju bara 5%?

Brauðmolakenningin er sennilega ein ógeðfelldasta myndlíking sem maðurinn hefur náð að hugsa upp. Þegar frjálshyggjumenn lögðu til að lækka skatta á hina ríku var kenningin sú að ríkidæmi þeirra myndi aukast svo mikið að óhjákvæmilega myndu aðrir njóta góðs af því. Auðvitað eru góðgerðarfélög frábær en fólk á ekki að vera háð góðvild annarra þegar kemur að nauðsynlegustu hlutum. Sú mynd sem hægri menn draga upp af yfirfullu veisluborði þar sem molar hrökkva af inn á milli handa almenningi er ógeðfelld. Einfaldlega af því að þau dýr sem nærast á molum á borð við rottur og dúfur eru meindýr, og fólk sem talar fyrir „trickle-down“ hagfræði einfaldlega sér meirihluta mannkynsins þeim augum. Í besta falli sjá þeir millistéttarfólk sem einhvers konar krúttlegan íkorna eða mögulega hlýðinn hund. Einhvern sem auðvitað fær ekki að sitja við borðið sjálft en má inn á milli sleppa mola niður til.

 

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins lagði formaðurinn til að þjóðin fengi smá mola. 5% af því sem hún á nú þegar. Takk. 5% af bankanum sem hún bjargaði.

Bjarni er svolítið eins og litla fimm ára stúlkan sem sér aumur á heimilishundinum, eða hefur kannski ekki lyst á heilli banka-steik eftir að hafa fylgst frændfólki sínu gleypa í sig Borgun. Svo hann hefur skorið lítinn 5% bita og ætlar að lauma til Babú gamla, sem eygir bitann hungruðum augum undir stofuborðinu.

„Þú mátt gefa honum á eftir, ekki núna, kláraðu matinn þinn,“ segir eflaust mamma flokkseigendafélag og á að sjálfsögðu ekki von á að hundurinn verði með vesen. Hann betlar undir borði og geltir að aðkomufólki, en þetta er góður voffi.

Ríkið hefur bjargað Íslandsbanka með skattpeningum Íslendinga. Og nú eiga Íslendingar að fá 5% af því sem þeir björguðu en vinir Sjálfstæðisflokksins rest.

Ef þetta væru tuttugu kökur þá stæði okkur til boða ein. Þ.e.a.s. ef það yrði staðið við loforðið. En ég hef svo sem heyrt menn lofa þjóðaratkvæðagreiðslum um hitt og þetta, afnám verðtryggingar og einhvers konar skuldaleiðréttingu. Gott ef það á ekki að fara að gera eitthvað í leigumarkaðinum (svo skilst mér líka að fyrst við tökum ekki á móti flóttafólki þá eigi að gera fullt fyrir öryrkja og gamalt fólk. Bíð spenntur). 

Kannski er þetta ekki svo slæmt. Ég meina, í seinustu banka-einkavæðingu fengum við ekkert. 5% eru betra en ekkert augljóslega. Einhverjir brauðmolar hrukku frá Björgólfunum til listamanna og íþróttafélaga og ætli árshátíðarhaldarar hafi ekki grætt ágætlega á hinum bönkunum líka. En í grunninn fengum við voðalega lítið. Við fengum að bjarga bönkunum með því að borga hærri skatta. Og milliríkjadeilu við Holland og Bretland. (Það var hressandi. Söknum við ekki öll að rífast við vini og ættingja um Icesave?)

Sennilega ætti ég að vera jafnþakklátur Bjarna Ben og trúgjarnir voru þegar Björn Ingi ætlaði að reisa vatnsrennibrautagarð. Hér. (Besti flokkurinn stóð ekki við ísbjörn í húsdýragarðinn, en sá brandari bliknar í samanburði við flokk sem lofaði skautasvelli í Perluna, sædýrasafni í Laugadalinn og vatnsrennibrautagarði).

Við skulum bara taka Bjarna á orðinu. En hvers vegna bara 5%? Af hverju ekki 100% af eignarhlut ríkisins Bjarni?

Hvort sem við myndum selja okkar bréf eða halda þeim mundi þessi leið tryggja gegnsæjasta einkavæðingarferli í sögunni. Það væri gaman að vita nákvæmlega hverjum var selt og á hversu mikið, og sjá það meira að segja í heimabankanum sínum frekar en að frétta það á wikileaks síðar. Við áttum öll þátt í að bjarga bönkunum. Við munum borga skuldir bankanna með sköttum restina af ævi okkar. Ég held að það meiki sens að við eigum þá. Og að okkur sé treystandi til að einkavæða þá. Það var alla vega ekki sérstaklega vel heppnað þegar Síminn var einkavæddur fyrr í mánuðinum (af flokksbundnum sjálfstæðismönnum án vafa).

Ég held að það meiki meiri sens en að treysta Bjarna og félögum enn eina ferðina fyrir að einkavæða eitthvað. Alla vega fékk ég voða lítið fyrir Borgun. Landspítalinn ekki neitt heldur (og hann er eiginlega mikilvægari en ég svona í heildina litið).

 

 

Og fyrst við erum að ræða Einkavæðingarættina (ég meina Engeyingaættina) þá legg ég til að komið verði á sporvagnakerfi milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Þetta er eini alþjóðlegi flugvöllurinn í heiminum sem ekki hefur almennilegar almennings-samgöngur. Hví skyldi það vera? 
Jæja. Farinn niður í Perluna að skauta.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni