Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Gyllta hofið

Gyllta hofið

Ég er skemmtilegasta orðið á japönsku, einfaldlega af því það er ekki til, það eru til undirgefin og kurteisisleg ég, framfærin og upphafin ég, ég sem reyna að finna jafnvægi milli viðmælanda, kvenlæg og karllæg ég, en ekkert eitt algilt „ég“ sem gildir í öllum félagslegum aðstæðum. Þess vegna forðast maður oft að nefna sjálfið í samtölum á japönsku og það er í raun svolítið hollt fyrir þetta fyrrnefnda sjálf.

Þessi „sjálf“sköpuðu vandræði er erfitt að þýða yfir á tungumál sem búa einungis yfir einu „ég“ „ich“ „I.“ Það skapar vandamál fyrir þýðanda sem myndi gjarnan vilja miðla því rofi á hefð sem verður þegar höfundur eins og Haruki Murakami kýs að nota „boku“ 僕 í stað formlegs „watashi“ 私 en að því sögðu þá eru fáar bókmenntahefðir með meira uppteknar af sjálfsævisögunni, dagbókinni og játningunni og sú japanska.

Í aldaraðir hafði verið mikil hefð fyrir dagbókaskrifum og skálduðum dagbókaskrifum en þegar Japan komst í kynni við vestrænar bókmenntir tóku skáld þar í landi natúralismanum fagnandi. Í lok nítjándu aldar var urmull af bókum sem gerðu út á að lýsa raunveruleikanum sem best, þetta var ekki beint raunsæi eins og það þekkist í Evrópu, en í byrjun 20. aldar spruttu svokallaðar Ég-skáldsögur á sjónarsviðið 私小説 sem vildu kafa ofan í myrkari hliðar sálarlífsins og mannlífsins.

Höfundar á borð við Osamu Dazai urðu nokkurs konar rokkstjörnur, laglegir menn sem játuðu á sig alls kyns kynferðislegar syndir, óhóflega drykkju og þunglyndislegar hugsanir. Með því að lýsa sjálfum sér sem skítseyðum flugu þeir upp á stjörnuhiminn Ég-skáldsagnahöfundanna. Fyrsta skáldsaga Yukio Mishima, játning grímu, heggur í sama hnérunn. Ofbeldisfullar og blóðugar fantasíur í anda sadómasókisma fylla þá bók. Aðalsöguhetjan er ungur samkynhneigður karlmaður sem berst við marga innri djöfla, en maðurinn sem bókin byggði á, Mishima sjálfur varð landsþekktur 24 ára að aldri.

Yukio Mishima var maður sem hafði gaman af því að ögra. Hann var opinskár fasisti og þjóðernissinni á tímabili þar sem Japan var nýbúið að tapa stríði og var í sjálfsmyndarkrísu. Samt kom hann til greina sem nóbelsverðlaunahafi þrisvar sinnum, en tapaði fyrir minna umdeildari höfundum á borð við Yasunari Kawabata. Ævi hans endaði með stórfenglegum gjörningi eða alvöru tilraun til valdaráns og sjálfsmorði eftir því hvernig maður lítur á það. 1970, tveimur árum eftir að Kawabata hlaut nóbelinn leiddi Mishima herdeild úr sjálfsvarnarliði (eða her) Japans, lýsti yfir hollustu við keisarann, lokaði yfirmann austurvarðstöðvar Tokyoborgar inni og hélt ræðu yfir herstöðinni þar sem hvatti hermenn til að ganga til liðs við sig. Valdaránstilraunin átti enga möguleika á að takast og stuttu eftir það framdi Mishima sjálfsmorð ásamt elskhuga sínum á hefðbundinn ritúalískan máta. Líkast til var þetta einungis afsökun til að réttlæta sjálfsmorðið. Mishima hafði skrifað smásögur og gert bíómyndir sem fjölluðu um löngun hans til að fremja sjálfsmorð með því að stinga sverði í kviðinn eins og alvöru samúræji.

Jæja. Bókin Kinkakuji eða gyllta hofið er einhver stórfenglegasta bók sem ég hef lesið. Þar fjallar Mishima um ofríki fegurðinnar, kúgun fegurðarinnar á ljótleikanum og réttlætir hvernig ungur munkur ákvað að kveikja í einu elsta og fagrasta hofi Kyoto-borgar. Bókin er að hluta til byggð á sannsögulegum atburðum, það er sjokk-faktorinn, eitt fallegasta hof Japans brann og rithöfundur sem elskaði skandala ákvað að stökkva á málið og reita þar með til reiði þjóðernissinnana sem elskuðu hann og um leið vinstrisinnana sem hötuðu hann fyrir.

Samhengið er Guð og væntanlega verður þessi pistill lesinn í samhengi við mig sem íslenskan höfund, sem skrifar á Stundina, keppinaut (eða öllu heldur arftaka, fönixinn sem reis úr öskustó) DV þar sem birtust einhver hrottalegustu skrif um marglyttur og nauðganir sem sést hafa lengi. Ég er ekki að segja að fagurfræðin sé dauð. Ég fæ bara höfuðverk þegar ég heyri frönsku svo það þýðir lítið að tala um „transgression“ og Bataille og Nietzche og Foucault við mig. Ég skil ekki svona franskar krúsídúllur, ég get ekki einu sinni skilið dulinn undirtexta á íslenskum bloggsíðum eins og Druslubókum og Doðröntum. Ég er btw augljóslega ekki Eva Magnúsardóttir, en ég get tekið undir að mér leiðist játningakúltur á forsíðum blaða. Þessi barðist við krabbamein, þessi lenti í einelti, og þar fram eftir götunum. Ég hugsa eiginlega alltaf með mér að ekkert komi mér við, ég hef alveg samúð og frásögnin hefur oft göfug markmið, en ég er því miður enginn mannvinur frekar en Guðbergur Bergsson. En það sem ég á allra erfiðast með að skilja er hvers vegna fólk stekkur í einhverja loftfimleika til að réttlæta ást sína á hinum og þessum höfundum. Sumir henda bókum úr bókaskápnum, ekki er ég týpan í það, mér er eiginlega slétt sama hvað fólk hefur gert af sér og finnst það jaðra við bókabrennu (þótt það sé bara bókabrenna í huganum) að loka á allt sem telst triggerandi. 

Að því sögðu þá þykir mér eitthvað aumt við höfundarverk sem stækkar við það að hæðast að litlum dreng sem kúkaði á sig. Yukio Mishima myndi aldrei líta á það sem verðugt skotmark að upphefja einhver eineltismál í Grindavík til skýjanna. Enda kom hann til greina sem nóbelsverðlaunahafi og aðrir skrifa í DV. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni