Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Donald Trump: Hófsamur miðjumaður?

Donald Trump: Hófsamur miðjumaður?

Donald Trump kom eins og stormsveipur inn í forval repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, þegar hann hélt ræðu þar sem hann sagðist telja meirihluta mexíkanskra innflytjenda í Bandaríkjunum vera nauðgara, morðingja og glæpamenn almennt. Svo bætti hann við að sumir þeirra væru eflaust ágætir. Sem forseti ætlaði hann sér að byggja risavaxinn múrvegg og láta Mexíkó borga fyrir hann.

 

Ekkert við þetta er sérlega hófsamt eða nálægt neinni miðju í Bandaríkjunum. Hugmyndir hans hafa þrátt fyrir það náð að breiða úr sér og núna tala margir frambjóðendur jafnvel fyrir afnámi 14 viðbótarinnar í stjórnarskránni sem myndu fela í sér að margir Bandaríkjamenn myndu missa ríkisborgararétt sinn. 14. viðbótin í stjórnarskránni  tryggir nefnilega þeim sem fæðast í landinu borgararétt, hvort sem foreldrarnir eru Bandaríkjamenn eða ekki. Þessi viðbót var sett í lok borgarastyrjaldar til að tryggja frelsuðum þrælum full og jöfn réttindi, og það má sést á orðalaginu að þessi grein litast mjög af stríðinu. (Með sér klausu um að þeir sem hafi gert uppreisn og brotið þannig stjórnarskrána geti ekki gegnt pólitísku embætti).

Að stroka þessa grein út með annarri viðbót myndi vera risavaxin afturför, en í samhengi við Ísland og íslenska pólitík er þetta sennilega frekar hófsöm tillaga. Þegar Donald Trump var spurður út í afstöðu sína til sýrlenskra flóttamanna játaði hann að honum væri þvert um geð að taka á móti stórum hópi múslima í Bandaríkjunum en að hann sæi ekki alveg hvað annað væri í stöðunni. Sjá vídjó hér. Ekki væri hægt að líta undan krísunni og láta fólkið deyja, svo Bandaríkin yrðu að hleypa flóttamönnum til landsins. Þegar svo bætist ofan á það að Donald Trump sé hlynntur ókeypis heilbrigðisþjónustu ólíkt flestum öðrum repúblikönum mætti jafnvel ímynda sér að Trump sé vinstra megin við Bjarta Framtíð. Sjá hér

Það má vera að Donald Trump sé fasisti sem muni standa við stór orð um að senda alla sýrlenska flóttamenn aftur til síns heima (eins og hann átti síðar eftir að bæta við þegar hann var spurður nánar út í það sem hann sagði um flóttamannakrísuna). En gæti verið að hann sé frjálslyndari en möppudýrin í útlendingastofnun sem taka ekki einu sinni mál sýrlenskra flóttamanna til efnislegrar umfjöllunar? Sjá hér.

Ég hugsa að það mætti vel halda því fram að Donald Trump sé frjálslyndari en sú ríkisstjórn sem nú ríkir á Íslandi þegar kemur að innflytjendamálum. Mögulega frjálslyndari en allar þær sem á undan hafa komið líka. Við skulum alla vega ekki afskrifa þá kenningu alveg strax.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni