Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Plan A

Plan A

Kæra ríka fólk

Hverjir eiga að vinna í fyrirtækjunum ykkar ef allir eru fluttir úr landi? Staðan er mjög einföld. Við eigum ekki í okkur og á.

Kæra ríkisstjórn

Hver á að kjósa ykkur ef allir hata ykkur? Fólk á bótum átti ekki fyrir matnum áður en þið hækkuðuð hann, og það á enn síður fyrir honum núna. Við étum ekki föt og sjónvörp. Börnin okkar ekki heldur.

Kæru samlandar í aðeins skárri málum

Kannski leiðist ykkur neikvæðnin í þeim sem minna mega sín. Kannski finnst ykkur að fólk eigi bara að hysja upp um sig brækurnar og fara að gera eitthvað í sínum málum. En enginn veit hvernig er að vera snauður og sneyptur nema hafa reynt það á eigin skinni. Það dregur úr fólki mátt, hægt en örugglega. Það gerir það að verkum að fólk fer að gráta á opinberum stöðum og skammast við einhverja sem hafa ekki gert því neitt. Okkur langar öll að vera jákvæð og uppbyggileg. Virt og væntumþykjuleg. Skemmtileg og skapandi. Snotur og sniðug.

Það gerir það að verkum að fólk fer að gráta á opinberum stöðum og skammast við þá sem hafa ekki gert því neitt.

Einhvern veginn puðrast allt þetta dásamlega og duglega smám saman út í spillingarmengað loftið þegar börnin okkar geta ekki fengið ávexti í nesti. Ekki stundað fimleika. Ekki fengið að éta síðustu viku mánaðarins. Ekki fengið skó og nota slitnu gúmmístígvélin allt sumarið. Og veturinn. Þegar við getum ekki keypt gleraugu, lyf, farið til tannlæknis. Aldrei farið í frí frá eymdinni, skroppið til Kanaríeyja eða Akraness. Þá verður það eitthvað svo skrýtilega skondið á öfugsnúinn máta, svo lýjandi og leiðinlegt, þetta fyrirbæri sem við köllum líf.

Kæru við öll

Áður en við ásökum hvert annað um aumingjaskap – drögum þá djúpt að okkur andann um leið og við hugsum: Megi ég kafna og þessum andardrætti aldrei linna ef ég hunskast ekki til að hugsa málið. Þeir aumu eru sundraðir út af einhverju. Kannski út af orkusugunum örbirgð og óvirðingu? Veikindum og vannæringu?

Hver ætlar að taka upp hanskann fyrir þá?

Ríkisstjórnin?

Ég held ekki.

Við erum stundum svolítið mikið í að flækja málin. En þetta er ekkert flókið. Og við getum breytt þessu. Við þurfum fernt til að byrja með:

  1. Breytta stjórnarhætti. Nýja stjórnarskráin okkar vegur þar þungt. Svo þarf nokkurs konar neyðarstjórn til að fara í gegnum allt skrifræðið og koma á einfaldari og skýrari ferlum í allri vinnu, sem jafnframt eru gagnsærri, og aðgangur fólks að því að hafa áhrif stóraukast þar með. Málskotsréttur þjóðarinnar á heima hér líka, sem og fleira stjórnarháttabetrumbótagotterí.
  2. Aukið samtal. Oft er það svo í kerfum að hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri gerir. Ráðuneyti vinnur gegn ráðuneyti, stofnun gegn stofnun, svið gegn sviði, hreppur gegn hrepp, og almenningur skaðast.
  3. Stóraukna, markvissa og vandaða fræðslu og sífræðslu (spillingin er fljót að grafa um sig á nýjan leik) um það sem á sér stað hjá valdhöfum, samhliða hinu aukna aðgengi að upplýsingum (sjá 1. lið) og fræðslu um hvernig er hægt að nýta sér upplýsingarnar. Þá neyðast valdhafar til þess að sýna auðmýkt og tala við fólk. Í leyndinni þrífst spillingin.
  4. Breytt hagkerfi og stjórnun auðlinda. Ef við höldum uppteknum hætti í misskiptingu auðs og í lífsháttum sem einkennast af sóun mun samfélagið hrynja með einum eða öðrum hætti.

Í stuttu máli sagt – við þurfum virkt og öflugt lýðræði og jafnari skiptingu auðlinda. Eins og ég sagði, þetta er ekkert flókið.

En þeir sem líða mest fyrir valdníðslu og misskiptingu auðlinda þurfa allra hjálp til að koma þessu í framkvæmd. Breytingarnar borga sig enda fyrir alla. Það þýðir ekki stundinni lengur að hugsa bara um gróðann og grillið. Þjóðin hefur það ekki af með þeim hugsunarhætti. Það er fullreynt.

Fimmta atriðið er því hið augljósa: Þetta gerist ekki nema við gerum þetta saman.

Komum ríkisstjórninni frá og hefjum plan A. Aðgerðaráætlunina um nýtt og betra samfélag.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu