Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Plís, taktu bjálkann úr flísinni á mér. Eða eitthvað.

Plís, taktu bjálkann úr flísinni á mér. Eða eitthvað.

Því miður er líklega óhætt að segja að rasismi sé í uppsveiflu hérlendis. Ég man eftir þrjátíu ára gamalli umræðu um að við þyrftum að fara að búa okkur undir rasisma ef við ætluðum ekki að lenda í sömu gryfjunni og nágrannaþjóðir þar sem allt logaði í illdeilum – já, strax þá. Sumir reyndu að gera eitthvað í þessu, koma samræðunni á kortið, jafnvel aðgerðum, en áhugann skorti hjá fjöldanum. Þetta var ekki orðið knýjandi. Ekki spennandi. Rasisminn var auðvitað undirliggjandi og hafði gosið allhressilega upp nokkrum sinnum svo sem í gyðingahatri heimstyrjaldarinnar síðari. En - það voru svo fáir innflytjendur hérna.

Nú er þetta allt að gerast. Rasismi fer vaxandi og margir eru ekki lengur hræddir við að tala opinberlega gegn útlendingum, sérstaklega múslimum. Smám saman er rasisminn að verða viðurkenndur sem hluti af þjóðlífinu. Þetta óttast skiljanlega andrasistar meira en flest annað. Samræðan er lítil sem engin en stríðsyfirlýsingar ráðandi.

Afleiðingar þess að tala ekki saman

Samfélagi öfgakristinna vex fiskur um hrygg með tilheyrandi útlendingahatri og þeir sem kallaðir eru „góða fólkið“ hæðast að þeim og hata þá á móti.

Öðrum finnst hinir vera vitleysingar með augnblöðkur sem flytja þá beinustu leið að feigðarósnum. Og hinum finnst aðrir vera útlendingahatarar og rasistar. Í sumum tilvikum hafa báðir rétt fyrir sér. Innan um er að finna einn og einn sem fella má undir þessar skilgreiningar. En meirihlutann? Nei.

Það skortir samræðu. Því miður er það svo, eins og oft gerist þegar gjá myndast og afstaða harðnar, að suma hluti má tala um ef maður tilheyrir hópi A og aðra ef maður tilheyrir hópi B.

Þetta er sjaldnast líklegt til lausna og þessa dagana beinlínis hættulegt ef okkur er alvara með að nálgast friðsamlegar lausnir og forða aðfluttum frá áreiti og þaðan af verra.

Afleiðingar þess að tala ekki saman geta orðið hrikalegar.

Hvað er hægt að gera? Margt, og hér er eitt.

Margt er hægt að gera til að búa í haginn fyrir samfélag sem getur rúmað okkur öll, innfædda sem aðflutta, og án stórra átaka. Mig langar að verja afganginum af þessum skrifum í að ræða einungis einn af þessum mörgu þáttum.

Það er nokkuð sem að mínu mati verður til góðs. Og sem mun leggja sitt af mörkum til þroskunar friðsamlegs og góðs fjölmenningarsamfélags.

Þetta atriði er áherslan á jafnrétti kynjanna. Mér finnst að það eina sem eigum að krefjast af fólki sem vill flytjast til landsins (svo fremi sem Interpol er ekki á eftir þeim) sé þetta:

  • Að aðhyllast hugmyndir samfélagsins, reglur þess og lög um kynjajafnrétti.

Þetta eina atriði kemur ekki í veg fyrir rasisma. En það mun draga úr honum ansi margar tennur.

Hingað flytja konur, ýmist sjálfviljugar eða ekki, sem þekkja ekki hérlend réttindi sín með tilliti til kynjajafnréttis. Og hingað flytja karlar sem hafa enga reynslu af slíkri tilvist.

Sú skuldbinding sem við eigum að fara fram á er að samþykkja að læra um og ástunda kynjajafnrétti. Þetta er gríðarlega mikilvægt. Jafnmikilvægt og að ala börnin okkar upp á þann hátt og leggja áherslu á það í menntun.

Góða fólkið er við öll

Flest fólk er gott, burtséð frá trú, uppruna, aldri og [setjið inn aðgreiningarflokka að eigin vali]. En kerfisbundið kynjamisrétti lifir samt góðu (vondu) lífi víðast í heiminum. Við eigum að tala um það og sammælast um aðgerðir gegn því. Sú umræða kemur á engan hátt í veg fyrir að við virðum menningu annarra og tökum vel á móti fólki. Við viljum bara ekki ójafnrétti kynjanna. Blóð, sviti og tár hafa runnið í stríðum straumum til að koma því kynjajafnréttissamfélagi á laggirnar sem við þó höfum. Misrétti kynjanna er á heimsvísu og kerfisbundið í stórum hluta heimsins. Gott fólk sem alið er upp við kynbundinn ójöfnuð tileinkar sér þau kerfislægu viðhorf og atferli sem því tengist.

Skiljanlega. Það segir ekkert um fjölbreytta og að öðru leyti stórfenglega menningu þess. Kynjamisréttið er bara gróið inn í menninguna og ekki síður hluti af henni en trúarbrögð, vísindi, listmenning eða menntun. Menningin sem leiddi til þessa veruleika og er leidd af honum er auðvitað flókin. Í hverju einasta samfélagi og smásamfélagi myndbirtist ójafnrétti á ólíkan hátt. Í samfélögum þar sem ójafnréttið er kerfisbundið, tengt trú og jafnvel landslögum er þó athafnasvigrúm kvenna iðulega sáralítið. Þetta sjáum við í mörgum heittrúuðum eingyðistrúarhópum (og víðar), ekki bara hjá múslimum. Konum er gjarnan sýnd velvild og þær virtar svo lengi sem þær halda sig innan tiltekins sviðs mannlegra athafna (heimilisstörf, umönnun barna). En guð og spámenn hans forði þeim frá því að ætla upp á dekk.

Landamæri - eða ekki

Ég er svo róttæk að telja að við höfum tæpast rétt til að slá eign okkar á land og að landamæri séu tímaskekkja í mannkynssögunni. Auðvitað langar okkur samt að setja slíkar skorður og gerum það óhikað. Það er ekki þar með sagt að það sé siðlegt.

En á meðan staðan er þessi – að við eigum land og landamæri – þá getum við notað þann veruleika til góðs með því að opna faðminn og taka vel á móti fólki, um leið og við krefjumst þess af því að það skilji og temji sér kynjajafnrétti. Um leið setjum við okkur sjálfum vonandi þau landamæri að leitast við að koma vel fram við hvort annað. Og tala saman.

Það er dýrmæt gjöf að eignast fjölmenningarlegt samfélag. Og það er dýrmætt að standa vörð um það jafnrétti kynja sem hér hefur áunnist.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni