Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Er spagettískrímslið sökudólgurinn?

Er spagettískrímslið sökudólgurinn?

Sárgrætilegt.

Við gætum haft það fínt. Öll.

Við gætum líka verið með sterkasta lýðræði í heimi og mestu virka þátttöku almennings í stjórnmálum. Við gætum verið hreinasta land í heimi, landið sem gengur á undan með góðu fordæmi. Við gætum verið í fararbroddi í sjálfbærni, mannréttindum, menntun, heilbrigði, velferð – nánast hverju sem er.

Í staðinn hafa þessir hlutir gerst:

• Eftirlit með vinnandi fólki hefur stóraukist. Mínútustjórnun – það var meira að segja gefin út bók með þessu nafni – er staðreynd og álag í vinnu hefur stóraukist á miklum fjölda vinnustaða. Afköstin þurfa jú að vera svo mikil. Starfsgleði og frumkvæði eru það sem líður fyrir allt eftirlitið. Heilbrigði sömuleiðis. Kvíði, þunglyndi, stoðkerfissjúkdómar, allt þetta vex og dafnar ár frá ári í heimi mínútustjórnunar og eftirlitskerfa sem mótuð voru og hrint í framkvæmd á síðustu áratugum síðustu aldar. Og nú þurfum við nýja stétt mannauðsstjóra til að draga tennurnar úr ófreskjunni sem við höfum skapað. Auðvitað eigum við að vinna vinnuna okkar vel. En hvað er "vel"? Ekki mínútustjórnun. Hún herpir sálina í fólki og rænir það líka smám saman ábyrgðinni á vinnunni. Við förum að yppta öxlum.

• Fátækt þykir sjálfsögð. Fyrir fjörutíu árum dugði ein fyrirvinna til að sjá fyrir fjölskyldu. Fátækt þótti ekki sjálfsögð. Talið var að okkur hefði tekist að uppræta hana eftir að við komumst til álna í stríðinu. Núorðið eru miklu fleiri fjölskyldur bara með eina fyrirvinnu en þá. En launin duga alls ekki. Ekki nema viðkomandi hafi fengið gefins íbúð. Eða fái peningahjálp hjá fjársterkum ættingjum þegar maturinn klárast. Fátækt er orðin samþykkt á nýjan leik. Það vita allir að fullt af fólki getur ekki borgað reikningana sína og á ekki fyrir mat út mánuðinn. Við erum farin að yppta öxlum. Það er til marks um tilfinningu okkar fyrir hjálparleysi.

Við gleymum því oft að allt þetta eru mannanna verk. Þetta eru ekki náttúrulögmál. Þetta er ekki guðs verk, eða djöfulsins, eða spagettískrímslisins, eða eðlufólksins. Þetta eru okkar verk.

Það erum við sem bjuggum til þessi ósköp.

Og auðvitað erum það við sem breytum þeim.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu