Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Borgin og utanríkispólitíkin

Borgin og utanríkispólitíkin

Hér eru smá fréttir - borgir víða um heim eru fyrir löngu farnar að skipta sér af utanríkispólitík og sú þróun færist í aukana.

Mike Bloomberg, fyrrum borgarstjóra New York, rataðist satt orð á munn þegar hann skrifaði þetta fyrir tveimur árum síðan um mátt og megin borga (lauslega snarað):

"Þótt sagan sé yfirleitt ekki kennd á þann veg þá er hægt að halda því fram að borgir hafi spilað miklu stærra hlutverk í heimsmálum og þróun siðmenningar en stórveldin.

Allar götur frá Aþenu og Róm til Parísar og Feneyja, og þaðan til Bagdað og Beijing, hafa hugmyndir og uppfinningar úr borgum sett óumbreytanlegt mark sitt á mannlega tilveru.

Með samþjöppun hugarafls á tiltölulega litlum stöðum, landfræðilega séð, hafa borgirnar verið hreyfiafl þeirra samskipta sem næra og þroska sköpunargáfu og tækniframfarir. Þær hafa verið drifkraftur framfara í sögunni, og nú, þegar þekkingarhagkerfið er búið að hefja sig til flugs, eru þær reiðubúnar að leika aðalhlutverkið í að finna lausnir á helstu verkefnum og vandamálum tuttugustu og fyrstu aldar."

Það er ekki bara fyrrverandi borgarstjóri í New York sem hefur áhuga á þessu. Málþing eru haldin, bandalög borga mynduð, bækur skrifaðar. Þeirra á meðal sú hverrar titill skreytir þessi skrif. Hér talar höfundur hennar, Benjamin Barber, í TED fyrirlestri um aukið vægi borga í heimsmálunum. Í kynningu á fyrirlestrinum segir:

"It often seems like federal-level politicians care more about creating gridlock than solving the world's problems. So who's actually getting bold things done? City mayors. So, political theorist Benjamin Barber suggests: Let's give them more control over global policy. Barber shows how these "urban homeboys" are solving pressing problems on their own turf — and maybe in the world."

Glóbal samræða borga um aukið hlutverk þeirra í innanríkis- og utanríkispólitík og um stóraukna samvinnu þeirra þvert á landamæri er hafin og þessu trendi verður ekki svo glatt snúið við.

Í stað þess að hreykja sér á þeirri hundlágu "frétt" að Reykjavík hafi staðið illa að tillögu um að sniðganga vörur frá Ísrael væri kannski ráð að nota tækifærið og tala saman. Um aukið hlutverk borga, um hvernig við getum haft jákvæð og eflandi áhrif á mannréttindin í borginni, landinu, álfunni, heiminum. 

Þegar ég og aðrir vorum krakkar fannst okkur mörgum hverjum gaman að svona undirskriftum:

Kristín Elfa Guðnadóttir, Langholtsvegi 96, Reykjavík, Íslandi, Evrópu, Jörðinni, Sólkerfinu, Vetrarbrautinni, Alheiminum.

Hættum nú að sóa allri þessari orku í að hneykslast á öllu undir sólinni og reynum að vinna saman í að koma skikki á stóru málin. Innan sem utan borgarinnar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu