Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Um einelti

Um einelti

Afdráttarlaus samfélagsleg höfnun á því að einelti sé óleysanlegt er það eina sem getur fleytt okkur fram á veginn í baráttunni. Þessu þarf að fylgja að gengið sé til verka, af okkur öllum, á hispurslausan og alls ekki á dæmandi hátt, verkefnið er að uppræta eineltið en ekki að hengja gerendur án dóms og laga.

Þegar barn er þolandi, og gerendur eru samnemendur, á að senda gerendur heim ef ekki tekst að uppræta eineltið á farsælan hátt í fyrstu tilraun.

Þetta á að gera með stuðningi til að hjálpa þeim út úr gerendaatferli. Og fullkomlega án smánar. Það er mjög mikilvægt ef við viljum byggja friðsamlegt samfélag sem skaðar ekki börn. Foreldrar skammast sín oft fyrir að börn þeirri leggi aðra í einelti og við þurfum að hjálpa þeim að takast á við þær tilfinningar um leið og við kennum barninu þeirra að láta þetta ógert.

Þolandinn á ekki að flæmast úr skóla heldur fá upphefð sem hetja eftir að hafa þurft að ganga í gegnum ógnina. Þannig er auðveldara að græða sárin. 

Í sumum tilfellum er þetta ekki kleift, svo sem þegar fötlun barns sem er gerandi eða veikindi þess valda því að það skilur ekki eða ræður ekki við ofbeldishegðun, en það er í miklum minnihluta tilfella, og lausnir eru þá nokkuð aðrar. Stundum er um langvarandi erfiðleika heima fyrir að ræða, jafnvel heimilisofbeldi, sem rekja má gerendahegðunina til, og þá þurfum sem samfélag ekki síður að hjálpa til þar og styðja heimilið. Enn og aftur, meirihluti eineltis á sér ekki þessar orsakir.

Hvert barn er á forsjá okkar allra, annars erum við ekki túskildingsvirði sem samfélag.

Þetta verkefni okkar, að koma í veg fyrir einelti og leysa það farsællega ef það kemur upp,  hefst á afdráttarlausri samfélagslegri höfnun á að einelti sé ásættanlegt.

Það er nefnilega eitt sem lítið er rætt um í sambandi við þennan skelfilega vágest og þvælist svolítið fyrir okkur. Það er að kennarar geta stundum gert lítið í að uppræta það (og þjást þegar þeim tekst það ekki). Ástæðan er að hjálpina vantar frá öðrum hlutum samfélagsins og aðkoma foreldra gerenda er til dæmis oft rýr. Þá fer mestur hluti eineltis fram fyrir utan skólastofuna og í leyni fyrir kennurum.

Það sem við þurfum öll að gera, sem samfélag, er að taka á einelti með afgerandi hætti. Þótt margir gerendur séu i vanda heima - og stundum eru börn bæði gerendur og þolendur - þá eru sár þolenda út af einelti svo djúp að þau þarf að græða undireins, burtséð frá öllum ytri aðstæðum.

Þau þurfa að fá að heyra, ekki síst frá skólafélögunum, að nei, þau séu ekki ljót og leiðinleg, og jú, margir vilji vera með þeim.

Auk þess þurfa sumir eineltisþolendur viðbótarstuðning svo sem í praktískri og klæðskerasniðinni félagsþjálfun fyrir þau sjálf - það getur stundum verið jafn einfalt og að kenna barni að bora ekki í nefið fyrir framan aðra. En það má aldrei draga athyglina frá eineltinu eða varpa orsök þess yfir á þau sjálf. Vegna þess að þau eru það ekki. Og vegna þess að það er ljótt.

Við höfum samþykkt að það sé eðlilegt að barn sé vinalaust. "Það er ekki hægt að skipa krökkum að finnast einhver skemmtilegur".

Þessi kreddusetning gengur eins og rauður þráður í gegnum eineltisumræðuna.

Við trúum þessu eins og helgisetningu. Nei, það er ekki hægt að skipa - en það er ekki bara hægt, heldur okkur öllum ljúft og skylt, að skapa samfélag þar sem fordómar ráða ekki ferðinni. Þar sem fólk elskar fjölbreytni og sér fegurð og eitthvað áhugavert i hverjum og einum.

Það erum við, fullorðna fólkið, sem sköpum þetta samfélag.

Það þarf kýrskýr, ofursterk og afdráttarlaus skilaboð í samfélaginu öllu. Í uppeldi á heimilum og kennslu í skólum þurfa skilaboðin að vera samhljóma, að einelti sé ofbeldi sem aldrei verði liðið.

Við verðum sem samfélag að vera samtaka í þessu, ella linnir því ekki.

Það hefur ekkert upp á sig að beina fingri að kennurum. Við búum í meðvirku samfélagi þegar einelti er annars vegar og þurfum að hafna því að það sé í lagi. Kenna börnunum okkar farsælar leiðir til að verða ekki og aldrei gerendur, hvað sem tauti og rauli. Hætta þessu mjálmi.

Fyrir tæpum þrjátíu árum sameinuðumst við stofnendur tímaritsins Uppeldi og stjórn Foreldrasamtakanna um að senda eftirfarandi skilaboð landshorna á milli: Einelti er ofbeldi. Það á aldrei að líðast. Þótt undirtektir hafi verið frekar dræmar á þessum tíma, enda algengt viðhorf að einelti væri stríðni og að mestu saklaus, þá er runnin upp önnur tíð.

Við getum, og við ætlum. Er það ekki?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni