Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hvar er eiginkona þín?

Hvar er eiginkona þín?

Eftir að hafa ferðast hingað og þangað í nokkra áratugi og haft óendanlegan áhuga á framandi menningu og öðruvísi fólki þá er ég eiginlega við það að fá skammtinn minn af karlrembu og kynbundnu ofbeldi í heiminum.

Sem betur fer er ég komin á kynlausan aldur í augum karla í hinum ýmsu löndum og þar með ósýnileg en ég ferðast líka með yngri konum sem eru stöðugt í sjónlínunni. Allar þurfum við svo að þola alls konar takmarkanir. Það má ekki þetta og má ekki hitt. Stór hluti heimsins er þannig að þar er nánast ómögulegt að ferðast nema með karlkyns samferðamanni. „Hvar er eiginmaður þinn“ erum við spurðar og á móti langar mann oft að spyrja „hvar er eiginkona þín?“ Því konur eru víða lítt aðgengilegar til að spjalla við og stundum verður maður leiður á að spjalla bara við karla.

Sjálfri var mér nauðgað átján ára á millilandaskipi og allt í kringum mig eru konur og stelpur sem hefur verið nauðgað, heima og heiman.

En þrátt fyrir svartnættið leynist alltaf von einhvers staðar. Ein slík vonarglæta er Ísland, jafnaumt og það virðist stundum vera.

Burtséð frá meðvirkni með nauðgurum erum við nefnilega í mjög góðri stöðu hérlendis til að verða helsta barátturíki heims fyrir jafnrétti og gegn kynbundnu ofbeldi. Umræðan hefur verið opnuð, við erum þegar komin vel áleiðis og með samvinnu kvenna og karla mun okkur takast að opna öll pandóruboxin, allt sem konur þurfa að þola og líka það sem karlar þurfa að þola.

Þetta gerum við með samvinnu. Við erum nógu fá til að vita hvert af öðru og geta tekið höndum saman. Við erum nógu mörg til að hafa áhrif. Við höfum stóran og góðan hóp af fólki sem er fært á breiðum vettvangi; til skrifa, í viðburðastjórnun, í alþjóðlegum samskiptum, í umhyggjuríkum samskiptum, í greiningu á ástandi, kennslu og svo framvegis – fólki sem getur hleypt Íslandi fyrir alvöru af stokkunum sem sterkasta talsríki fyrir jafnrétti og gegn kynbundnu ofbeldi í samfélagi þjóðanna.

Við getum orðið líkanið sem önnur lönd máta sig inn í.

Amma mín gekk um með piparstauk í handtöskunni og ráðlagði mér slíkt hið sama. Ógnin af nauðgunum er ekki ný. En gerum hana útlæga. Upprætum hana.

Hendum piparnum og þurrkum söltu tárin. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu