Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Það sem betur hljómar

Verktaki nokkur í ónefndu bæjarfélagi á landsbyggðinni hafði ástríðu fyrir því að safna gömlum bílflökum. Hann hafði í mörg ár verið nokkuð duglegur við að sinna þessu áhugamáli sem sást á öllum þeim fjölda bílhræja sem  safnast höfðu upp allt í kringum iðnaðarhúsnæði verktakans. Bæjaryfirvöldum og flestum bæjarbúum var ekki skemmt þar sem haugurinn þótti alls ekki nein prýði í þessu annars fallega bæjarfélagi sem gerir talsvert út á ferðaþjónustu enda í alfaraleið í þessum landshluta.

Bæjaryfirvöld sóttu lengi fast að verktakanum að fjarlægja bílhræin og taka til í kringum sig. Það gekk frekar illa og fékk safnarinn frest á frest ofan til að gera eitthvað í sínum málum. Svo kom loks að því að hann gerði eitthvað en ég man ekki hvort það var vegna þess að fjarlægja átti öll hræin á hans kostnað eða beita hann dagsektum.

En allavega – gaurinn var sniðugur og sá við bæjaryfirvöldum. Hann tók sig til og raðaði öllum bílhræjunum upp í kringum húsið, stundum hverju ofan á annað til að nýta plássið betur. Síðan gaf hann þessu virðulegt nafn og gott ef hann lét ekki hanna lógó líka. Ruslahaugurinn var sumsé orðinn að safni sem hafði sögu- og menningarlegt gildi. Eftir því sem ég best veit hættu bæjaryfirvöld að pönkast í safnaranum og gott ef viðhorf bæjarbúa varð ekki jákvæðara líka.

Umhverfissóðarnir hjá HS Orku reyna nú að leika svipaðan leik með því sem fyrirtækið kallar „auðlindagarð“ á Reykjanesi. Það rústar náttúruperlum með ósjálfbærum virkjunum, forðast að tala um umhverfisáhrif og heldur leyndum upplýsingum um geislavirkan úrgang. Til að forðast neikvæða umræðu og fegra ímyndina er ósómanum gefið fansí nafn – nú er þetta ekki lengur virkjanasvæði heldur „auðlindagarður“. Assskoti flott nafn sem hljómar næstum eins og  „þjóðgarður“.

HS Orka er um þessar mundir í viðræðum við bæjaryfirvöld í Hafnarfirði því fyrirtækið vill komast inn í Reykjanesfólkvang með virkjanir í Krýsuvík.  Talsmenn HS Orku forðast auðvitað að tala á þeim nótum. Þeir hyggjast semsagt stofna „auðlindagarð“ í hjarta Reykjanesfólkvangs. Það hljómar nefnilega miklu betur.

Öllu má nú nafn gefa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu