Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Eigum við næst að eyðileggja Þingvallavatn?

Eigum við næst að eyðileggja Þingvallavatn?

Náttúruperlan Mývatn er stórskemmd. Athafnir mannsins við vatnið hafa stórskaðað lífríki þess. Þá fyrst ætlar fólk að hlaupa upp til handa og fóta til að bjarga því sem bjargað verður – þegar skaðinn er skeður og kúluskíturinn horfinn.

Af hverju á að bregðast við fyrst núna? Var ekki vitað fyrir löngu í hvað stefndi? Jú, reyndar. En eins og fyrri daginn var aldrei hlustað á varnaðarorð. Sama, gamla sagan sem endurtekur sig í sífellu. Menn læra aldrei neitt.

- Aldrei er hlustað -

Nýlega kom út skýrsla Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) sem ber heitið „Late Lessons from Early Warnings II“. Hún er framhald annarrar skýrslu frá árinu 2010. Skýrslan fjallar um rannsókn á umhverfisáhrifum þar sem varað hafði verið við skaðlegum áhrifum á heilsu og umhverfi.  Í 84 af 88 tilfellum sem rannsökuð voru, reyndust gagnrýnendur hafa haft rétt fyrir sér – takið eftir því – þeir höfðu rétt fyrir sér! Varnaðarorð þeirra höfðu verið talin ástæðulaus og vísbendingar um hættu hunsaðar – alveg þangað til skaðinn var skeður.

Kunnuglegt, ekki satt?

Aldrei er hlustað en í staðinn eru gagnrýnendur hunsaðir eða reynt að gera þá tortryggilega. Ef um sérfræðinga eða fræðimenn er að ræða er reynt að grafa undan fagmennsku þeirra.

- Þingvallavatn – here we go again! -

Líklega á þessi saga eftir að endurtaka sig við Þingvallavatn. Þar hafa frárennslismál verið í gríðarlegum ólestri um árabil.  Í maí 2014 var greint frá því að ekkert þeirra hátt í 700 sumarhúsa sem standa á verndarsvæði Þingvallavatns uppfyllti þær kröfur sem þar eru í gildi um fráveitumál. Frestur til að koma upp rotþróm sem uppfylla skilyrði hafði verið framlengdur í tvígang án umbóta á svæðinu og ekki var að sjá að þær væru í sjónmáli.

Einn af þeim sem lýst hafa áhyggjum sínum af þessu er Hilmar J. Malmquist, doktor  í vatnavistfræði, sem rannsakað hefur lífríki Þingvallavatns um árabil. Hann hefur bent á að tærleiki og blámi Þingvallavatns muni rýrna að óbreyttu. Hann skrifaði grein um þessar áhyggjur sínar í júlí á síðasta ári þar sem hann segir að bregðast verði strax við ef ekki á illa að fara.

Viðbrögð þjóðgarðsvarðar voru þau að hrauna yfir Hilmar með hrokafullum skætingi. Vildi hann meina að orð hans væru „þvættingur“ og að Hilmar hefði „ekkert fyrir sér og engar upplýsingar til að styðja sitt mál.“ Þá fullyrti þjóðgarðsvörður að Hilmar byggði grein sína  á upplýsingum sem væru „margra ára gamlar og ekkert til í þeim.“ Jafnframt kallar hann tillögur Hilmars „aulabrandara".

Vegna þessa sendi ég þjóðgarðsverði fyrirspurn í tölvupósti  þann 30.07. 2015 þar sem ég segi m.a. þetta:

„Í tilefni af þeim ótrúlega, hrokafulla skætingi sem þú hreytir í Hilmar J. Malmqvist í Fréttablaðinu í dag, rifjaðist upp fyrir mér að ekki er lengra síðan en í maí 2014 að birtar voru fréttir þess efnis að ekkert þeirra hátt í 700 sumarhúsa sem standa á verndarsvæði Þingvallavatns uppfyllti þær kröfur sem þar eru í gildi um fráveitumál.
Sjá tengil: http://www.visir.is/fraveita-allra-sumarhusa-vid-thingvallavatn-abotavant/article/2014140519297
Þarna kemur fram að úrlausn vandans sé ekki í sjónmáli og frestur til að koma upp rotþróm sem uppfylla skilyrði hafi verið framlengdur í tvígang án umbóta á svæðinu. Hvað hefur breyst svona snögglega á þessu rúma ári?  Svar óskast.“

Svar hefur ekki enn borist.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu