Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Eldvörp - Í skugga flónskunnar

 Eldvörp - Í skugga flónskunnar

Enn á ný hafa Eldvörp á Reykjanesi verið flokkuð í orkunýtingaflokk í 3ja áfanga rammaáætlunar þrátt fyrir fyrirliggjandi álit Skipulagsstofnunar um „nokkuð umfangsmikið, óafturkræft rask á vel grónum, óröskuðum svæðum, m.a. mosagrónum nútímahraunum sem hafa ákveðna sérstöðu vegna fágætis á heimsvísu“, eins og það er orðað í umsögn stofnunarinnar við umhverfismati vegna fyrirhugaðra rannsóknarborana HS Orku á svæðinu.

Skipulagsstofnun tekur í umsögn sinni undir þau sjónarmið að lítt raskað svæði eins og Eldvörp sé afar mikilvægt til útivistar og ferðamennsku í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Stofnunin segir áhrif fyrirhugaðra framkvæmda „talsvert neikvæð“ vegna rasks á eldhrauni. Eldvörp eru á náttúruminjaskrá.

Eldvörp eru um 10km löng gígaröð skammt vestan við Bláa lónið og Svartsengi.  Gígaröðin myndaðist í Reykjaneseldum á 13. Öld. Segja má að Eldvörp séu eins og smækkuð útgáfa af Lakagígum, frægustu gígaröð landsins.  Gígaröðin öll er afar forvitnileg og raunar er Eldvarpasvæðið allt kynngimagnað þar sem saman fer áhugaverð jarðfræði og forvitnileg saga.

Bæjaryfirvöld í Grindavík hafa nýverið veitt HS Orku leyfi til rannsóknarborana í Eldvörpum, þrátt fyrir umsögn Skipulagsstofnunar um neikvæð umhverfisáhrif af slíkum borunum. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir fimm risastórum borteigum nánast ofan í gígaröðinni en hver og einn þeirra verður á bilinu  4 – 5 þúsund fermetrar að stærð. 

Hér er nýtt, stutt video sem ég var að gera um Eldvörp á Reykjanesi. Síðasta vídeó fékk 11 þúsund áhorf og vakti mikla athygli og umtal. Við megum samt ekki láta málið sofna og gefa HS Orku og Grindavíkurbæ frið til að eyðileggja þessa stórbrotnu náttúruperlu.  Hvet ykkur til að deila þessu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu