Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Takmarkalaus ósvífni United Silicon

Takmarkalaus ósvífni United Silicon

United Silicon vill að íbúar Reykjanesbæjar verði áfram tilraunadýr, reynir að hrifsa til sín forræði málsins og stillir Umhverfisstofnun upp við vegg. Ósvífni forráðamanna þessa fyrirtækis á sér engin takmörk.

United Silicon, fyrirtæki sem er alls ekki treystandi, reynir nú að koma í veg fyrir verkfræðilega úttekt UST með því að ráða norska aðila til að rannsaka og mæla. Daginn eftir að þeir komu til landsins höfðu þeir komist að því hvað væri vandamálið og ætlar fyrirtækið að vinna út frá þeim niðurstöðum. Þannig ætlar United Silicon að koma í veg fyrir að UST ráði til verksins sérfræðinga, sem stofnunin treystir best. Jafnframt reynir fyrirtækið með þessu að hrifsa til sín forræði málsins úr höndum UST.

Þá ætlast fyrirtækið til þess að bæjarbúar verði áfram tilraunadýr en í tilkynningu frá United Silicon segir m.a. „Óhjákvæmilegt er að við þær rannsóknir muni berast einhver lykt frá verksmiðjunni, en félagið mun í samráði við UST og með góðum fyrirvara tilkynna opinberlega um hvenær helst muni lyktar að vænta.“

Að lokum reynir fyrirtækið að stilla UST upp við vegg með þessum orðum:
„Félagið leggur áherslu á að mun erfiðara er að vinna að mengunarvörnum þegar rekstur ljósbogaofnsins liggur niðri og fer því fram á að UST stöðvi ekki rekstur ljósbogaofnsins að aflokinni endurræsingu nema fyrir liggi rökstudd og vísindaleg niðurstaða um að af rekstrinum stafi hætta,“

Rétt er að halda því til haga að starfsleyfi fyrirtækisins var gefið út á falsað umhverfismat.

Krafa bæjarbúa hefur verið nokkuð skýr: Verksmiðjunni skal loka fyrir fullt og allt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu