Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Eldvörp: Jarðýturnar eru mættar

Eyðileggingin er hafin í Eldvörpum á Reykjanesi, í boði erlenda orkufyrirtækisins HS Orku og bæjaryfirvalda í Grindavík. Jarðýturnar eru mættar á svæðið, þrátt fyrir mikla andstöðu í samfélaginu gegn fyrirhugðum rannsóknarborunum alveg við hina einstöku gígaröð Eldvarpa, sem myndaðist í Reykjaneseldum á 13. öld.

Einmitt þessir tveir aðilar – Grindavíkurbær og HS Orka – stofnuðu jarðvanginn Reykjanes Geopark. Yfirlýstur tilgangur með honum er að hafa „fræðslugildi vegna fjölbreytilegrar náttúru og sjaldgæfra jarðminja“ svo vitnað sé beint í talsmann jarðvangsins. Einnig hafa forsvarsmenn hans talað um „uppbyggingu ferðaþjónustu og fræðslu sem byggir á einstökum jarðminjum“.


Eða var tilgangurinn með stofnun Reykjanes Geopark kannski einhver allt annar?


Það sætir nefnilega furðu að Grindavíkurbær veiti HS Orku leyfi til rannsóknaborana ofan í merkilegustu jarðminjum svæðisins þar sem gígaröðin í Eldvörpum verður „skreytt“ með fimm risastórum borteigum, sem hver um sig verður um 5 þúsund fermetrar. Hver borteigur samsvarar flatarmáli 27 meðalstórra, 190fm einbýlishúsa
Að vera með gígaröð til fræðslu og upplifunar í 15 mínútna fjarlægð frá alþjóðaflugvelli, er einstakt á heimsvísu. Samt eru þeir mættir með jarðýturnar á svæðið. Hvað gengur mönnum eiginlega til?


Í umhverfismatsskýrslu vegna framkvæmdanna kemur fram að tengsl eru á milli jarðhitasvæðanna í Eldvörpum og Svartsengi. Um sama jarðhitageyminn er að ræða. Orkuvinnsla í Eldvörpum verður því aldrei sjálfbær, ekki frekar en vinnslan í Svartsengi eða út á Reykjanesi, en gufuþrýstingur í þessum virkjunum fellur jafnt og þétt vegna of ágengrar vinnslu. Að virkja í Eldvörpum hraðar því aðeins upptökunni. Þetta er eins og að setja tvö sogrör í sama glasið.


Með sama áframhaldi verður búið að þurrka upp þessi jarðhitasvæði innan fárra áratuga. En hinum erlendu eigendum HS Orku er alveg sama. Þeirra markmið er fyrst og fremst að hámarka fjárfestingu sína sem allra fyrst - sem sagt að framleiða og selja sem mest af orku á sem skemmstum tíma. Síðan er það vandamál komandi kynslóða hvar finna skuli orku til framtíðar. Hinir erlendu eigendur HS Orku verða þá búnir að hirða gróðann og farnir eitthvert annað. 

 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni