Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Skref í rétta átt...eða hvað?

Þær fréttir sem hafa borist í dag af lækkun svívirðilegra arðgreiðslna Sjóvá og VÍS má kannski kalla skref í rétta átt.

Skref svo sem en tilneytt sem slíkt og virkar meir á mann sem „damage control“ almannatengils heldur en heiðarleg tilraun siðbótar.

Enda hefur maður það mun meir á tilfinningunni að um sé að ræða frekar viðbrögð við því að hlutabréfin í tryggingafyrirtækjunum lækkuðu í kauphöllinni í dag heldur en að stjórnir hafi raunverulega tekið mark á gagnrýni og óánægju viðskiptavina sem eru fastir á fákeppnismarkaði.

Það sem styður slíka skoðun er að síðustu daga hafa stjórnir Sjóvá og VÍS gefið út þær yfirlýsingar að þetta hafi verið fullkomlega eðlilegar arðgreiðslur og þær muni standa við þá ákvörðun. Einnig hefur birst viðtal við hluthafa í VÍS sem sá ekkert að því að greiða arð langtumfram hagnað út úr fyrirtækjunum og að arðurinn væri málið en ekki fyrirtækið eða orðspor þess.

Það er því skyndilega í dag sem er skipt um skoðun um miðbik dagsins og sendar út yfirlýsingar sem bera lítinn vott um skilning á því hvað sé gagnrýnisvert og af hverju fólk er óánægt og reitt út í tryggingafélögin.

Bæði VÍS og Sjóvá sendu út bréf til viðskiptavina sinna þar sem þau tilkynntu um hækkun iðgjalda vegna bágrar stöðu og svo þegar ársuppgjörið kemur þá talar forstjóri VÍS um ágætis afkomu af iðgjöldum auk þess sem það kemur fram að hagnaður sé allt frá hundruðum milljóna upp í milljarða. Slíkt ber ekki vott um bága stöðu né er hægt að ætlast til að fólk taki við því sem sannleik að fjárfestingarstarfsemi tryggingafélaganna sé nú ekki ætlað að standa undir áföllum vegna tjóna. Fólki finnst logið að sér og verið sé að hlunnfara það að venjubundnum hætti íslensks fjármála- og viðskiptalífs.

Næst eru það svo arðgreiðslurnar sem hafa valdið reiði og gagnrýni. Stjórnir Sjóvá og VÍS höfðu ákveðið að greiða út arð sem var langt umfram hagnað ársins og þar með yrði hreinsað fjármagn innan úr félaginu sem minnir mann á því hvernig var farið með Sjóvá fyrir Hrun. Ekki bætti það heldur úr skák að fréttir bárust af því að VÍS hafði fengið tvo milljarða að láni með 5,25% vöxtum sem ætlað var að fjármagna arðgreiðsluna. Fólki finnst græðgin yfirgengileg í þessari ákvörðun og í raun er það líka furðulegt að samkvæmt ákvörðun dagsins skuli allur hagnaður greiddur út í arð í stað þess að láta hluta hans vera inn í fyrirtækinu svo hægt sé að tryggja sig fyrir tjóni og bæta bæði kjör viðskiptavina og starfsfólks. Þó stjórn TM sé skárri að þessu leyti með því að leggja til að 50% af hagnaði verði greiddur út í arð þá greiddi fyrirtækið víst út um tvöfaldan hagnað sinn sem arðgreiðslu fyrir árið 2014 sem fær mann til að klóra sér frekar í kollinum um hvað sé í gangi.

Eitt spilar að auki til viðbótar lítillega inn í gagnrýni og reiði fólks og það eru viðbrögð stjórnanna. Stjórnirnar hafa ekki verið til tals um þetta né reynt að útskýra mál sitt nema með yfirlýsingu um að þetta sé hið besta mál eða eins og í dag að hún breytir ákvörðun sinni varðandi arðgreiðslur en ekki iðgjöld. Það skín einhvernveginn af þeim skortur á auðmýkt og skilningi gagnvart því að íslenskum almenningi finnst að hér eigi ekki að koma annað 2007 og ekki bætir úr skák að logið er til um að aldrei hafi verið greiddur út arður til hlutfahafa síðustu árin sem vörn fyrir arðgreiðslum langtumfram hagnað. Slíkt er helbert kjaftæði líkt og sést í smá samantekt á Nútímanum.

Samhliða þessu þá rifjast líka upp um leið fyrir manni að stjórn VÍS fékk brjálæðislega launahækkun þegar verið var að semja um launakjör á almenna markaðnum, dró hana til baka og nokkrum mánuðum síðar var kauphækkunin virkjuð þar sem búið var að semja við velflest stéttarfélög landsins.

Það segir manni ýmislegt um hugsunarháttinn þar.

Svo er það nú að gagnrýni og óánægja viðskiptavina, fjölmiðla, þingmanna og ráðherra virðist ekkert hafa bitið á ákvarðanir stjórna Sjóvá og VÍS fyrr en í dag.

Daginn sem hlutabréfin í Kauphöllinni lækkuðu í verði um einhver prósent.

Það segir að ýmsu leyti allt sem þarf til viðbótar um hugsunarháttinn að þetta gerist ekki fyrr en þá.

En jafnvel þó að hlutabréfalækkunin sé kannski ekki aðalástæðan fyrir sinnaskiptum stjórnanna þá hafa þessar ákvarðanir og þrjóska stjórnanna skilað því að skaðinn er skeður fyrir fyrirtækin hvað varðar orðspor og hugsanlega fjárhagslegs tjón þeirra til einhvers tíma vegna brotthvarfs reiðra viðskiptavina. Miðað við það ættu stjórnirnar að víkja í heild sinni á næsta aðalfundi ef allt væri eðilegt og ákvörðun tekin um lækkun iðgjalda en líklegast verður ekki svo.

Þetta er nú hið íslenska viðskiptalíf þar sem enginn tekur ábyrgð á siðlausu viðskiptaathæfi nema fórnarlömbin.

En svo er nú annað.

Nú er maður kannski að vanmeta áhrif neytenda og almennings á þessa ákvörðun stjórna VÍS og Sjóvá og þetta sé í raun smásigur fyrir íslenskan almenning í stríðinu við endurreisn 2007-græðginnar sem á sér stað þessa daganna.

Vandamálið við slíkan smásigur er að hann bítur kannski í smástund eða þar til stjórn, stjórnendur og fjárfestar í íslensku viðskiptalífi telja að stormurinn sé farinn yfir svo þeir geti látið sem að þetta hafi verið timabundin truflun á græðginni. Það dugar því ekki bara að almenningur og neytendur séu þeir sem eru að standa í aðgerðum heldur verður svokallað „háttvirt alþingi“ að sýna það í verki og með aðgerðum að það ætli sér að taka á fjármálageiranum og siðleysinu í íslensku viðskiptalífi með engum silkihönskum.

Borgunarmálið, sala Arion-banka á Símanum til vildarvina sinna og nú þetta sanna það að alþingi hefur ekkert gert í því að taka á viðskiptalífinu heldur þvert á móti er gasprað hávært á þingi um stund þar til nýtt hneykslismál í þætti Gísla Marteins yfirtekur sviðsljósið. Ef það væri raunverulegur vilji til þess innan þings að gera eitthvað í málunum þá þarf að styrkja FME, Samkeppniseftirlitið, skattinn og aðra rannsóknar/eftirlitsaðila til þess að geta tekið á málunum af hörku svo að það sjáist fara að glytta í siðferði innan íslensks fjármála- og viðskiptalífs.

Það þarf líka að breyta lögum og þrengja að fyrirtækjum á þann hátt að t.d. ekki sé hægt að greiða út meir en ákveðna prósentu af hagnaði og annað í þeim dúr. Það mun þó duga skammt því væntanlega þarf að lögleiða það sem flestir myndu kalla heiðarleika inn í íslenskt viðskiptalíf hvort sem það er að taka á kennitöluflakki sem alþingi forðast að taka á eða tryggja hag neytenda langtumfram hagsmuni fyrirtækja sem sjá ekkert að því að brjóta á fólki.

Það er samt nauðsynlegt sem fyrsta skref að alþingi tileinki sér einn hugsunarhátt strax eða eins og þeir segja á engilsaxnesku:

„If you talk the talk, then walk the walk. Otherwise...“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni