Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Legókubbaleikur forsætisráðherra með Landspítalann

Ég ætla að játa það strax að ég hef ekki haft hingað til voðalega mikla skoðun á því hvar væri best að hafa nýjan Landsspítala né hvernig á að byggja hann. Það hef ég áltið hingað til vera verkefni sérfræðinga og heilbrigðisgeirans að útfæra.

Samt hef ég þó nokkra skoðun á þeirri hugdettu bæjarstjóra Garðabæjar og forsætisráðherra í einhverjum Legókubbaleik að byggja nýjan Landsspítala á Vífilstöðum. Þeirri skoðun má lýsa í einu orði:

Fáránleg.

Stoppið aðeins áður en þið missið ykkur út í klassískt sundurlyndisrifrildi um besta staðarvalið og horfið á stöðuna sem má sjá m.a. á heimasíðu Nýs Landsspítala og úr fréttum.

Það er búið að eyða mörgum árum og peningum í skoðun á staðarvali, hönnun, skipulagsmál og sérfræðingsvinnu hverskonar við að koma nýjum Landsspítala á koppinn. Framkvæmdir eru hafnar við fyrsta áfanga sem er sjúkrahótel sem verður opnað á næsta ári, búið er að skrifa undir ýmsa samninga vegna t.d. eftirlits, verið er að hanna meðferðarkjarna núna og sitthvað fleira.

Á sama tíma eru okkur að berast fréttir af slæmum húsakosti gamla Landsspítalans sem er illa haldinn af myglu, sjúklingar látnir hírast í bílageymslum, tækjabúnaður er úr sér genginn, ríkisstjórnin hundsar eða gerir lítið úr undirskriftasöfnun um betra heilbrigðiskerfi og hefur meiri áhuga á að einkavinavæða heilsu fólks til hagnaðar flokkshollra en ekki heilbrigðis borgaranna nema þeir séu forríkir Sjálfstæðismenn úr Garðabænum.

Ef maður hugsar út í þetta betur þá fær maður sterkt á tilfinninguna að ríkisstjórnin hafi horft á samfélagið í kvikmyndinni Elysium og séð þarna draumaframtíð sína í heilbrigðismálum...og fundist myndin enda illa.

En óháð því þá er það ljóst að þessi hugmynd þeirra félaga í einkavinavæðingarflokkunum myndu valda enn frekari vandræðum fyrir Landsspítalann, ríkið yrði skaðabótaskylt gagnvart verktökum og fleiri aðilum sem hafa boðið í verk, það myndu rofna ákveðin nánd við háskólasamfélagið, þetta myndi valda enn lengri bið eftir nýjum Landsspítala og það þyrfti í raun að fara í alla undirbúningsvinnu að nýju með öllum lögformlegum ferlum. Þess til viðbótar þá þarf væntanlega að meta þörfina á nýjum samgönguframkvæmdum, styrkja almannasamgöngur sem Garðabær hefur haft andúð á og fleira slíkt sem tengist tilfærslu spítalans til Garðabæjar.

Talandi um samgönguframkvæmdir þá myndi þetta líklegast þýða það að ef stjórnarflokkarnir eru samkvæmir sjálfum sér í áróðrinum að færa þyrfti Reykjavíkurflugvöll í Garðabæinn þar sem þeir hafa blákalt haldið því lengi fram að spítalinn þurfi að vera sem nálægast „neyðarbrautinni“. Ef slíkt yrði ekki gert þá gefur það augaleið að flugvalladeilumálið sem slíkt er dautt þegar aðaláróðurinn um sjúkraflugið og nánd þess við sjúkrahúsið skiptir engu máli lengur hvað varðar staðsetningu spítala.

Reyndar yrði ágætt ef yfirstéttarbyggðinni í Garðabæ yrði rutt á brott og nýr flugvöllur staðsettur þar en það er hætt við að það verði tafsamt verk með miklum málaferlum vegna þjóðnýtingar. Það yrði þó margir örugglega til í það  að fá að brjóta niður hús forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Ruðninginn mætti jafnvel bjóða upp á næsta karlakvöldi Stjörnunnar svona í ljósi þess að  þessi Vífilsstaðar-hugmynd bæjarstjórans og forsætisráðherrann hefur væntanlega komið þar fram á síðasta karlakvöldi þar sem þeir fjármálaráðherra voru staddir í góðum hópi verktaka sem keyptu sér aðgengi að þessum heiðursgestum það kvöldið.

Það yrði þó líklegast að sjúkraflugið og þar með innanlandsflugið myndi flytjast til Keflavíkur ef þessi hugdetta þeirra félaga yrði að veruleika enda er líklegast betri leið þaðan til Vífilstaða heldur en frá Reykjavíkurflugvelli og það myndi auk þess binda enda á þetta sígilda deilumál um Reykjavíkurflugvöllinn sem stjórnarflokkarnir hafa verið mjög gjarnir á að nota til sundurlyndis milli borgar og landsbyggðar svo fæstir taki eftir því hvaða myrkraverk fara fram í skjóli ríkisstjórna Sjálfstæðis- og Framsóknaflokks í gegnum tíðina.

Þessi hugmynd er því ávísun á auknar tafir, talsverð fjárútlát og enn meiri vanda heilbrigðiskerfisins sem slíkt jafnvel þó það yrði ákveðið að breyta Vífilstöðum sjálfum strax í nýjan Landsspítalakjarna. Fáfróðir menn geta m.a.s. gert sér grein fyrir því að þú flytur ekkert spítalastarfsemi inn á einhvern stað eins og að þú sért að flytja á milli leiguíbúða því það þarf margt að skipuleggja og framkvæma áður sem tengist aðbúnaði sjúklinga, starfsfólks og tækjakostnaði. Maður sér heldur ekki að stjórnarflokkarnir séu tilbúnir til þess að leggja fé í það í ljósi þess hversu mikið og markvisst þeir hafa svelt Landsspítalann og heilbrigðiskerfið í átt til einkavinavæðingar frá því á síðasta áratug síðustu aldar.

Þetta er eins og ég sagði fáránleg hugmynd en það er ágætt líka að velta fyrir sér hverjar geta ástæðurnar verið fyrir þessari hugmynd.

Nú hefur forsætisráðherra stungið upp á því oftar en einu sinni síðustu mánuði eða svo að byggja eigi nýjan Landsspítala bara einhverstaðar annars staðar en við Hringbraut. Fyrst vildi hann byggja hann á lóð RÚV og svo kom hann fram með það að best væri að byggja spítalann annars staðar því núverandi húsnæði Landsspítalans hentaði svo vel undir hótelbyggð. Manni finnst því líklegt að einhverjir fjárfestar, fjársterkir ferðaþjónustuaðilar og stórir verktakar með tengsl við Framsóknaflokkin séu að þrýsta á að fá húsnæði Landsspítalans undir hótelstarfsemi og m.a. með tilliti nálægðar við Umferðarmiðstöðina og það sem virðist vera ætlun Strætó b.s að miðstöð almannasamgangna á höfuðborgarsvæðinu verði færð þangað til að þjóna ferðamönnum á kostnað þjónustu við íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Garðabær myndi græða mikið til viðbótar á því að fá talsvert stóra ríkisstarfsemi í bæjarfélagið þó maður efist um að þeir verði hlynntir því að fá geðdeild Landspítalans eða aðra fötlunarþjónustu þangað í ljósi þess hversu meinilla bænum er við að veita fötluðum velferðarþjónustu. Þetta yrði líka í hag fjársterkra ferðaþjónustuaðila, verktaka og fjölskyldu Bjarna Ben að þetta svæði við Hringbrautina yrði að hótel- og samgöngumiðstöðvarhverfi enda fylgdi slíkri tengingu mikill gróði. Manni finnst líka líklegt að ef þetta yrði að veruleika að Hjartað í Vatnsmýrinni myndi örugglega hætta að slá með sjúkrafluginu og færi að slá með „tengingu flugvallarins við ferðaþjónustu á landsbyggðinni“ sé miðað við hversu margir í forsvari þar tengjast stjórnarflokkunum og ferðaþjónustu. Þetta er nefnilega hugmynd sem virkar uppruninn úr peningalegum hagsmunum þeirra sem mæta á karlakvöld Stjörnunnar eða aðrar slíkar bakherbergjasamkomur til að víla og díla.

Að lokum þá finnst manni samt vert að benda á það að jafnvel þó við blásum þá hugmynd af að byggja nýjan Landsspítala á Vífilstöðum þá þýðir það ekki að það megi ekki byggja síðar annan spítala þar eða aðra miðstöð heilbrigðiskjarna. Það væri t.d. hægt að byggja nýtt geðsjúkrahús þar eða miðstöð fyrir hjúkrun fatlaðra og endurhæfingu auk þess sem að kannski er þetta svæði líka ágætt sem sjúkrahótel eða aðra slíka starsemi. Það er líka hægt að velta upp ýmsum hugmyndum til viðbótar s.s. að þarna væri hægt að koma upp móttöku og aðstoð á vegum ríkisins við flóttamenn og hælisleitendur áður en þeir færu inn í húsnæði á vegum Garðabæjar sem myndi aðstoða þá við að aðlagast íslensku samfélagi.

En svo er auðvitað líka ein lausn á nýtingu Vífilstaða til viðbótar.

Þeim yrði breytt í hótel og í framhaldi kæmi hótelbyggð þarna í kring auk þess sem þarna yrði samgöngumiðstöð ferðaþjónustuaðila með tilheyrandi rútuumferð til og frá Keflavík. Það myndi dreifa ferðaþjónustunni víðar heldur en að hún sé einskorðuð við miðborg Reykjavíkur og væri með betra aðgengi fyrir rútur heldur en þröngar götur miðborgarinnar. Síðan í framhaldi þá er vert að skoða hvort Garðabær henti ekki sem nýr innanlandsflugvöllur svo hægt sé t.d. að hefjast handa við uppbyggingu þúsunda ódýra, lítilla íbúða fyrir efnaminna fólk í anda verkamannabústaðana í Vatnsmýrinni og jafnvel Garðabænum líka.

Það er nefnilega meiri þörf á að einblína á uppbyggingu slíkra íbúða heldur en að láta plata okkur út í fáránlegum Legókubbaleik forsætisráðherra með Landsspítalann.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni