Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Skilningsleysi stjórnarformanns VÍS

Stjórnarformaður VÍS kvartaði mikið undan umræðunni um arðgreiðslur fyrirtækisins á aðalfundi fyrirtækisins.

Henni þótti fólk annað hvort fara með rangt mál eða tala af vanþekkingu um arðgreiðslur sem hún sagði að hefði getað orðið mun meiri en þessir fimm milljarðar sem stjórnin lagði til í upphafi að yrðu greiddir út sem ar´ður.

Ekki virtist hún sýna nokkurn skilning á því sjálf hvað það var sem reitti fólk til reiði né sjá nokkurn meinbuga annan á verkum VÍS.

Það voru nefnilega ekki fregnir af arðgreiðslum sem reitti fólk til reiði heldur framferði VÍS.

Það var fyrir það fyrsta að fregnir af miklum hagnaði og himinhárri arðgreiðslu kom i kjölfarið á því að VÍS hafði hækkað iðgjöldin vegna „bágrar stöðu“ félagsins.

Í annan stað þá var arðgreiðslan nær tvöfaldur hagnaður sem minnti fólk strax á það þegar Sjóvá var tæmt að innan með svipuðum hætti.

Svo í þann þriðja stað þá bætti það ekki úr skák að þegar málið var komið af stað fréttist að VÍS hefði tekið 2 milljarða króna lán á háum vöxtum til 30 ára sem notuð yrði í arðgreiðsluna.

Þetta er því ekki rangindum, vanþekkingu eða umræðu annarra að kenna heldur frekar því sem fólk sér sem siðleysi, ósvífni og græðgi þeirra sem ráða ríkjum innan vébanda VÍS.

Á þessu þurfa stjórn, stjórnendur og fjárfestar VÍS og annarra fyrirtækja að átta sig á og þeim mikivæga hlut sem stjórnarformaður VÍS náði allavega að sýna smá skilning á.

Við erum ekki að fara að gera þau mistök að treysta siðblindu, íslensku viðskiptalífi aftur.

Slíkt væri nefnilega jafn vitlaust og að stinga hausnum upp í kjaft svangs krókódíls í þeirri von að hann loki ekki skoltinum.

Íslenskt viðskiptalíf hefur nefnilega lítið sýnt hegðun sem bendir til siðbótar, iðrunar eða lærdóms af Hruninu heldur þvert á móti gefið það frekar til kynna að innan þess sé litið á það eingöngu sem tímabundna truflun fyrir sig og Sjálfstæðisflokkinn sinn þegar kemur að siðleysi og sóðaskap.

Ekki bætir heldur úr skák að ekki virðist vera nokkur vottur af ábyrgðartilfinningu meðal stjórna og stjórnenda viðskiptalífsins þegar kemur að eigin gjörðum.

Það ber þetta skilningsleysi stjórnarformanns og stjórnar VÍS vott um.

Líkt og afsögn bankaráðs Landsbankans vegna kolvitlausra ástæðna út frá Borgunarmálinu.

Í báðum tilfellum líta hvorugir aðilar í eigin barm heldur afneita allri sinni ábyrgð.

Líkt og þeir sem voru kallaðir fyrir Rannsóknanefnd Alþingis vegna bankahrunsins.

Ábyrgð er nefnilega bara orð til að réttlæta ofurlaun.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu