Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Gleðitíðindi Vigdísar Hauksdóttir

„Þessi ríkisstjórn hefur haft heilbrigðismálin í algjörum forgangi síðan hún tók við og það hefur sýnt sig í fjárlagagerð hvers árs og svo voru að berast þau ánægjulegu tíðindi að Ísland er í 8. sæti af ríkjum Evrópusambandsins með hvað besta heilbrigðisþjónustu. Það voru gleðileg tíðindi."

Þessi orð lét Vigdís Hauksdóttir falla á alþingi í umræðum um undirskriftalista Kára Stefánssonar sem ætlað er að þrýsta á um bætt heilbrigðiskerfi.

En lítum aðeins nánar á þessi gleðitíðindi Vigdísar.

Árið 2012 vorum við með þriðja besta heilbrigðiskerfi í Evrópu samkvæmt gæðamati erlendra aðila sem Vigdís vitnar til og höfðum vermt toppsætin í einhver ár.

Svo kom kosningaárið 2013 þegar ný ríkisstjórn tók við um mitt árið og vorum enn í þriðja sæti eftir það.

Heilbrigðiskerfið hrundi svo niður í 7. sæti meðal evrópskra ríkja samkvæmt gæðamati sömu aðiila fyrir árið 2014.

Svo þegar kemur að gæðamati ársins 2015 þá færðist íslenskt heilbrigðiskerfi niður um eitt sæti og vermir það áttunda. Til samanburðar þá er albanska heilbrigðiskerfið sem ýmsir framámenn frjálshyggjunar telja fyrirmyndakerfi sem Ísland eigi að stefna að, 33. sætið af þeim 35 evrópsku löndum sem gæðamatið nær til.

Það væri því vel þess virði að spyrja Vigdísi sem og aðra þingmenn ríkisstjórnarflokkana sem tala á svipuðum nótum hvað sé eiginlega gleðilegt við þau tíðindi að heilbrigðiskerfinu hafi hrakað samkvæmt erlendu gæðamati.

Auk þess mætti spyrja Vigdísi einnar spurningar vegna ummæla hennar áður en hún aðrir stjórnarþingmenn reyna að sannfæra okkur um að svart sé hvítt þegar kemur að heilbrigðiskerfinu

Hvenær í fjáranum gengum við eiginlega í Evrópusambandið?

Manni finnst  nefnilega eins og maður hafi misst af  tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum.

Eða allavega einni sem ríkisstjórnarflokkarnir lofuðu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni