Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Fjármögnun bætts heilbrigðiskerfis

Viðbrögð Sjálfstæðisþingmanna við undirskriftalista Kára Stefánssonar um að veitt verði meira fé í heilbrigðiskerfið hafa verið á einn veg.

Söfnuninni hefur verið mætt með andspyrnu enda er þetta markmið undirskriftasöfnuninnar andstætt markmiði Sjálfstæðisflokksins um eyðileggingu heilbrigðiskerfisins í átt til einkavinavæðingar.

Sú andspyrna hefur birst í hræðsluáróðri um að þetta þýddi skattahækkanir og ámáttlegri smjörklípu um að þeir sem standi að þessu verði nú að sýna fram á hvernig þeir ætlist til að þetta verði fjármagnað.

Slíkt er eingöngu útfærsluatriði sem er farið í vinnu við í framhaldi af settu markmiði en ekki aðalatriðð sem er bætt heilbrigðiskerfi.

En gott og vel, segjum sem svo að við færum að huga að þessu útfærsluatriði áður en við værum búin að setja okkur meginmarkmið.

Þá er það fyrir fyrsta að það eru ansi margir meðal almennings sem væru tilbúnir til þess að borga hærri skatta í þeirri vitneskju að það skilaði þjóðinni betra heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi. Vissulega verða alltaf einhverjir sem meta peninga meir en mannslíf en þeim fer fækkandi sbr. fylgi Sjálfstæðisflokksins og fjölgun fjármálaglæpafanga á Kvíabryggju.

En samt er alveg vel gerlegt að fjármagna þetta án þess að þurfa að hækka skatta á venjulegt launafólk.

Það er hægt að hækka veiðigjöld á útgerðina upp í hóflegt gjald sem gæti skilað kannski 7-20 milljörðum í ríkissjóð. Útgerðin hefur sýnt methagnað þrátt fyrir tal um að allt fari til fjandans vegna hóflegra veiðigjalda. Að sama skapi er einnig hægt að velta þeirri spurningu upp í tengslum við þetta hvort kerfisbreytingar á úthlutun afla í núverandi kerfi yfir í t.d. uppboðsleiðina myndu ekki einnig skila talsverðum frambúðarávinningi fyrir ríkissjóð.

Við getum líka tekið upp auðlegðarskattinn aftur sem skilaði um 11 milljörðum í ríkissjóð þegar fjármálaráðherra lét hann leggjast af. Sá skattur sækir nefnilega mest í vasa hinna ríku og m.a. markast af hlutabréfaeign þeirra sem þeir borga alltof lágan fjármagnstekjuskatt af í dag.

 Við gætum orðið ásátt um það að Landsbankinn verði áfram í ríkiseigu enda er arðurinn af honum það mikill að það væri óðs manns æði að selja hann. Við höfum hreinlega ekki efni á því að missa það fé í skattaskjól og skúffufyrirtækjavafninga sem ætlaðir eru til að stinga fénu undan skatti.

Talandi um skattaundanskot þá liggur það í augum uppi að það þarf að skera upp herör gegn skattsvikum, kennitöluflakki, skattaundanskotafléttum, skattaskjólum og öðrum óheiðarleika sem íslenskt viðskiptalíf stundar sem dyggð. Skattsvikin ein og sér hér á landi eru áætluð að séu minnst yfir 80 milljarðar á ári og þar af þykir ferðaþjónustan stórtæk. Þó það væri bara helmingur þess fjárs sem myndi nást og skila sér beint inn í heilbrigðiskerfið þá yrði það stór áfangi í átt að settu markmiði.

Við höfum líka séð t.d. hvernig stóriðjan stingur undan skatti með fléttum þar sem greitt er „lán með háum vöxtum“ til móðurfélagsins. Ef það fé myndi skila sér með eðlilegum hætti til samfélagsins sem þar er látið hverfa þá væri það líka ágætur áfangi í fjármögnun meginmarkmiðsins sem er að tryggja sem best heilbrigðiskerfi hér á landi. Auk þess myndi það hjálpa talsvert ef farið yrði gagngert í það að hætta með ýmsar skattaívilnanir til stóriðju, ferðaþjónustu og annara greina innan íslensks viðskiptalífs sem eru stórtæk í því að hafa af samfélaginu fé.

Þegar maður hugleiðir það betur þá er varla hægt annað en að segja að það þyrfti ekki að hækka skatta til að fjármagna heilbrigðiskerfið ef skattsvikin og skattaundanskotin myndu skila sér að öllu leyti inn í samfélagið.  Við myndum m.a.s. eiga afgang sem gæti farið í það að bæta annað í velferðarkerfinu, menntakerfinu, samgöngur og jafnvel byggt niðurgreiddar íbúðir til að mæta húsnæðisvanda landsmanna. Ef allar þessar lausnir á fjármögnun yrðu svo framkvæmdar þá yrðum við bara komin í ansi góð mál og kannski búinn að borga skuldirnar sem Sjálfstæðisflokkurinn færði okkur með Hruninu sínu.

Það sem þó þarf til þess að við getum farið að huga að leiðum til fjármögnunar er viljinn til að setja stjórnvöldum meginmarkmið um aukið fjármagn í heilbrigðiskerfið og láta þau standa við það.

Þá getum við fyrst farið að huga að því að rökræða útfærsluatriðin sem slík og hver sé besta leiðin til að tryggja að markmiðið haldist.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni