Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Feilskot Bjarna á forsetann

Það eru vægast sagt sérstök viðbrögð hjá Bjarna Ben að bregðast ókvæða við gagnrýnisorðum forsetans sem var við matardreifingu í Fjölskylduhjálp. Forsetinn lét í ljós þá skoðun við fréttamann um að íslenskt samfélag hefði brugðist í ljósi þess að öryrkjar og aldraðir þyrftu að standa í biðröðum eftir mat og öðrum nausðynjum fyrir jól.

Maður getur svo sem skilið að Bjarni verði ósáttur við slíka gagnrýni í ljósi þess að slíkar aðstæður eru nú hluti af draumasamfélagi dólgafrjálshyggjunnar sem Bjarni og félagar hans í Sjálfstæðisflokknum aðhyllast en hann hefði betur sleppt því að bregðast við með hótunum um niðurskurð og athugasemdum um svignandi veisluborð.

Fyrir það fyrsta þá hefði verið best fyrir Bjarna að sleppa þessum ógnarstjórnartilburðum í ljósi þess að þetta er einfaldlega það sem flestum með pólitískt nef grunar:

Forsetinn er að fara að bjóða sig fram aftur.

Þessi  heimsókn í Fjölskylduhjálp var greinilega almannatengluð í drasl með fréttamönnum á staðnum og allt eftir bókinni þegar kom að því að höfða til kjósenda hans. Það er því hægt að líta á ummælin í því ljósi að þetta er hluti af undirbúningsherferð sem hefur verið í gangi síðustu mánuði og því betra að fara ekki í hnútakast þar sem það vekur enn meiri athygli á forsetanum.

Að auki er þetta málefni sem manni rámar í það að forsetinn hafi bryddað upp á áður m.a. á síðasta kjörtímabili þannig að hugsanlega er þetta hans hjartans mál. Það hefði því verið auðvelt að taka þessu ekki nærri sér og afgreiða í þögn án þess að taka nærri sér enda verið viðvarandi ástand frá því fyrir Hrun þegar Davíðisminn réð ríkjum. Þá lét reyndar guð þeirra Sjálfstæðismanna í Hádegismóum út úr sér við eitthvað allsnægtarborð hinna ríku að fólk sem leitaði eftir mataraðstoð væri bara lið sem hlypi á eftir öllu fríu og margir klöppuðu honum til samþykkis.

Svo er það nú það að gagnrýni óvinsælla ráðherra og ríkisstjórna auk bræðikasta valdamikils yfirstéttarfólks út í forsetann hefur undantekningarlaust skilað forsetanum vinsældum og fylgi. Slíkt hefur bitið viðkomandi í rassinn og skilað þveröfugum árangri þar sem Íslendingar eru gjarnir á því að fylkja sér á bak við forsetann þegar slíkt gerist og sérstaklega með svona ógnarstjórnunartilburðum að hætti Davíðismans.

Í tilfelli Bjarna verður það svo að auki „lose, lose“-dæmi þar sem þetta hittir hann sjálfan talsvert fyrir líkt og búmerang.

Bjarni Ben er af yfirstéttarættum þar sem veisluborðin hafa ávallt svignað undan kræsingum og hann hefur lítinn áhuga haft á því að kræsingunum sé deilt með þjóðinni. Á þessu kjörtímabili hafa veiðigjöldin verið lækkuð sem hefur skilað auknum arði til forríkra vina í útgerðinni, auðlegðarskattur á hina ríku var aflagður, skuldaleiðréttingin var best fyrir þá ríkustu líkt og skattalækkanir auk þess sem fjölskylda Bjarna hefur gleypt kræsingar úr eigu almennings nánast borgunarlaust.

Ekki bætir það heldur úr skák að Bjarni hefur fengið mörg hundruð þúsunda króna afturvirka eingreiðslu ofan á góð laun sín sem ráðherra og þingmaður ólíkt öldruðum og öryrkjum sem Bjarni sá til þess að fengju aðeins örfáa þúsundkalla frá og með áramótum. Þegar maður líka hugsar til þess að Bjarni hefur nú varla viljað láta sjást til sín tala við almúgann, hvað þá að taka þátt í matardreifingu og góðgerðarstarfsemi þá skilar svona pirringslegur hótunargagnrýni eingöngu því að Bjarni Ben lítur út eins og Skröggur við hliðina á forsetanum enda nánast að maður heyri Bjarna spyrja næst hvort að fangelsin og Hjálpræðisherinn sé nú ekki örugglega ennþá virk.

Þetta er því algjört feilskot Bjarna á forsetann og mun skila honum sjálfum enn minni vinsældum nema kannski innan Sjálfstæðisflokksins.

Nema að Bjarni sé að taka þátt í undirbúningsherferð forsetaframboðs Ólafs Ragnars Grímssonar.

Það yrði allavega skemmtilegur samsærisvinkill á svona „óvissutímum“ fyrir jól.

Maður veit nefnielga aldrei hvað þeir í Valhöll taka upp á.

Sérstaklega í ljósi þess valdamesti maður Sjálfstæðisflokksins og hirð hans eru orðnir harðir stuðningsmenn forsetans.

Ólíkt því sem áður var.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni