Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Áramótauppgjör 2015

Það hefur verið til siðs hjá mér að rifja upp í skrifum upplifunina af árinu áður en maður fer að undirbúa ofát á áramótakalkúninum í góðum félagsskap.

Samt er svo að þegar maður hugsar um þetta ár þá er hugsunin sú að annaðhvort hafi þetta verið eitthvað millibilsár eða það einkennist of mikið af þreytu, doða, áhugaleysi og ákveðinni uppgjöf gagnvart samfélaginu.

Allavega er það svona fyrsta upplifun mín í hugsun.

Maður fór í ákveðin vistaskipti með blogg eftir að Framsóknarflokkurinn með Björn Inga í fararbroddi gúffaði upp í sig DV svo að loksins væru komnir þrír fjölmiðlar sem skildu Framsóknarflokkinn. Hinir tveir eru að sjálfsögðu Morgunblaðið og Bændablaðið.

Þau vistaskipti áttu sér stað á „réttum tíma“ þar sem maður hafði of mikið að gera og maður þjáðist af ritstíflu ofan í þreytublandaða uppgjöf á samfélaginu sem virtist vera stefna í sama farið með græðgi, spillingu og mannfyrirlitningu fyrir-Hrunsárana þegar frjálshyggjan náði yfirhöndinni í samfélaginu.

Enda hefði Hanna Birna ekki snúið aftur á þing, Bjarni Ben ekki getað veitt frændum sínum skattaafslátt og gefið eftir Borgun um leið, Illugi Gunnarsson hefði aldrei farið til Kína sem almannatengill leigusala síns og fleira slíkt í heilbrigðara samfélagi.

Og talandi um almannatengla.

Árið 2015 var ár almannatengla þar sem þeir fengu ríkulega greitt fyrir að búa til flott glærusjóv og sérhanna sannleikann á skjön við staðreyndaábendingar líkt og þeirra er venjan.

Það versta er að landinn þurfti að borga slatta af slíkri sannleikahönnun í kringum skuldaleiðréttingarkeppnina, haftasjóvið og allskonar uppákomur til viðbótar svona ofan í þá uppljóstrun að við borguðum líka fyrir sannleikabrenglun Hönnu Birnu í lekamálinu.

Við þurftum þó ekki að borga almannatenglum fyrir greinaskrif, ritstjórnarpistla, sjónvarpsfréttir og fleira á 365 miðlum í tengslum við Hrunmál. Sakborningarnir í þeim málum sem sitja sumir hverjir á Kvíabryggju í góðum lúxus, sáu vonandi alfarið um það sjálfir milli þess sem fregnir bárust af reiðnámskeiðum, fundarhöldum og matarborðvínahugleiðingum bárust þaðan.

Almannatenglabransinn eru því klárlega viðskipti ársins, ekki kröfuhafasamningarnir.

Þetta var líka árið þar sem við sáum að viðskiptalífið er jafn rotið og úr tengslum við landann og áður. Við sáum t.d. Símann seldan til góðvina af hálfu Arion-banka sem hlutaðist svo til fyrir hönd Ísraels gegn viðskiptabanni á það ríki vegna mannréttindabrota og við sáum VÍS og Granda hækka stjórnarlaun langt um fram sem eðlilegt getur talist á sama tíma og viðskiptalífið sagði að það væri óráð að hækka laun almennra launamanna um nokkrar krónur.

Enda logaði allt í verkföllum sem stjórnarflokkarnir nýttu til þess að gera ástandið í heilbrigðiskerfinu enn verra með allskonar þvermóðsku, hroka og óþarfa hörku.

Æ, þið vitið, þetta var svona ár sem var „tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn“ og Ásdís Höllu þegar kom að því að gera heilsu landsmanna að vöru.

Þetta var líka ár þar sem maður heyrði kunnugleg kvein kvótagreifa um vonsku veiðigjalda meðan þeir greiddu sér út tugmilljarða arð og höfðu það aldrei betra meðan sjómenn fengu engan samning eitt árið enn. Þess til viðbótar þá toppuðu þeir sig með því að vilja aflétta viðskiptabanni á harðstjórnarríki Pútíns sem hefur mannslíf lítið í hávegum líkt og mannréttindi.

Enda var maður orðinn svo hundleiður á þessum kveinstöfum að þegar þeir ætluðu að fá makrílinn gefins til áratuga að maður ákvað að slást í för með góðum hópi fólks sem setti af stað undirskriftasöfnun til að knýja á um að svona hlutir færu í þjóðaratkvæði og um leið þrýsta á að alvöru aðulindaákvæði verði sett í stjórnarskrá. Í kjölfarið örkuðum við í góðu veðri til Bessastaða með yfir 50.000 undirskriftir til að fá sér kaffi og pönnuköku hjá forsetanum sem hafði lítið sést fyrri part ársins.

Ekki veit ég hvort hann bakaði pönnukökurnar sjálfur en ég varð þá viss um að hann ætlar að bjóða sig fram á næsta ári.

Þetta var þó ekki eina borgaralega aðgerðin sem maður man eftir frá þessu ári.

Það voru auðvitað mótmæli á Austurvelli sem hneykslaði borgaralega plebba landsins því þau fóru fram á 17. júní þar sem forsætisráðherra hélt því fram líkt og áróðursmálaráðherra Saddams Husseins, að allt væri í sóma og allir glaðir saman meðan fjöldi fólks barði á trommur og fleira í andófi við sérhannaða sannleiksýn hans í gegnum sýndarveruleikagleraugu.

Við sáum líka fleiri mótmæli á þessu ári sem skiluðu sum hver ekki miklum árangri nema þegar kom að geðvonskuköstum Bjarna Ben í fjölmiðlum þar sem hann hreytti út úr sér hrokafullum andsvörum gagnvart öldruðum, öryrkjum, heilbrigðisstarfsfólki og hverjum þeim sem dirfðist til að trufla valdhrokagenið í honum.

En svo sáum við líka það sem gaf okkur von um að stundum vinnur manneskjan mannfyrirlitninguna þegar þrýstingur á stjórnvöld skilaði okkur nýjum ríkisborgurum sem sendir höfðu verið út úr landi og móttöku á fleiri flóttamönnum heldur en fasistavinir hverskonar kærðu sig um.

Fasistarnir gátu þó tekið gleði sína á ný þegar mannvonskan myrti manneskjur í París og nýttu sér tækifærið til að kynda undir hatur og stjórnlyndi í eigin þágu hér sem og annarsstaðar í hinum vestræna heimi sem hefur misst ákveðna sýn á frelsi, jafnræði og bræðralag.

Við stöndum líka á ákveðnum krossgötum þar sem við getum endurtekið hrylling fortíðar eða við getum reynt að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst enn á ný í anda orðanna sem heyrðust fyrir 70 árum síðan:

„Aldrei aftur.“

En þetta var þó ekki bara ár hörmunga, doða og leiðinda.

Þetta var líka ár sem með ýmiskonar skemmtilegheitum sem ærði fólk mismikið.

Tuðrukarlkynsliðið ærði sína boltanörda með því að komast á EM, Justin Bieber ærði fréttamenn sem gerðu salernisferðir hans að stórfréttum, stjórnmálamenn ærðu landann þegar kom að gríni vegna gúggls og annars glens og fleira í þeim dúr.

Sjálfur ærðist ég þegar koma að því að ferðast aftur til framtíðar svo maður gæti séð Stjörnustríð að nýju.

Maður er nú kvikmyndanörd.

En svo maður snúi sér að því persónulega í kjölfarið þá var þetta árið sem maður flutti vinnustaðinn í mun betri aðstöðu, hafði of mikið að gera í starfi sem utan, gerði ýmislegt skemmtilegt, kynntist nýju fólki, sá gamla vini hverfa af landi brott og rifjaði upp kynnin við fólk sem hefur komið við hjá manni á lífsleiðinni.

Það vann allt saman á móti þessum doða, uppgjöf og þreytu á samfélaginu því samfélög eru búin til af fólki en ekki þurru Excel-skjali Viðskiptaráðs.

Og já, þetta er árið sem ég keypti mér snjallsíma við mikinn hlátur og fögnuð þeirra sem mig þekkja.

Fólk hafði aldrei skilið þrjósku mína í að halda í gamla Nokia-símann sem þoldi högg og örugglega riffilskot líka.

Maður er samt feginn að þetta ár er líðið því vonin segir manni að það næsta verði betra enda ýmislegt framundan sem mun fá mann til að rífa sig upp úr öllum doða.

Ég óska ykkur því öllum gleðilegs árs og megi Mátturinn vera með ykkur.

Ávallt.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni