Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

"Allir vissu þetta"...eða ekki.

Síðasta föstudag þann 6. október þá varð Hrunið 9 ára. Stundin hélt upp á það með því að birta áhugaverða umfjöllun um eitt púslið enn um hvað átti sér stað fyrir Hrun með umfjöllun um brask og brall Bjarna Ben. Fréttablaðið ákvað aftur á móti í tilefni dagsins að bakka aftur til 2007-hugsunar og skrifa harmþrunginn ritstjórnarpistil um það mætti ekki skattleggja bankabónusa.

Þó maður sjálfur hafi ekki gert neitt til að „fagna“ þessu afmæli þá er þó eftirleikur afmælisdagsins búinn að vera þannig að maður finnur með sér hvöt til að slá á lyklaborð. Viðbrögðin úr horni Hrunvalda Sjálfstæðisflokksins við stórumfjöllun Stundarinnar um hinn níunda sjóð Bjarna Ben o.fl. hans viðskipti og vitneskju um hvað var í gangi hafa verið á nokkurn veginn sama veg og á árum áður fyrir, um og eftir Hrun. Umfjöllunin er kölluð gamlar fréttir, allt áður komið fram, talað um að ekkert nýtt sé og fleira sem er í anda gaslýsingar þeirrar sem Kjarninn lýsti í stórgóðri grein um varnarviðbrögð sem ætlað er að koma í veg fyrir að fólk kynni sér málin. Ítrekað er svo ráðist gegn blaðamönnum og fjölmiðlum sem fjalla um þetta, þeir sagðir haldnir annarlegum hvötum og þetta sé gert til þess að hafa áhrif á kosningar. Svo rammt kveður að gaslýsingarviðbrögðum að blaðamaður The Guardian sem vann greinarnar með íslenskum aðilum taldi þörf á því að benda á að enn eina ferðina færi Bjarni Benediktsson með rangt mál, nokkuð sem við Íslendingar erum orðin svo vön af hans hálfu að við kippum okkur varla upp við það lengur.

Þessum gaslýsingarviðbrögðum frá Sjálfstæðismönnum hefur svo sem verið svarað af ýmsum aðilum en mig langar samt að taka eitt atriði út fyrir sviga þar sem það er nálgast það stig að vera nokkurskonar endurskrif sögunnar.

Það er atriðið sem fullyrt er um aðdraganda Hrunsins:

„Allir vissu þetta!“

Þessi yfirlætislega fullyrðing sem gefur í skyn að fólk hafi í raun verið bara vitlaus a la "flatskjákenningin" hans Björgólfs pirrar mann, rífur upp Hrun-sárin og vekur með manni reiði þegar maður hugsar aftur til ársins 2008 og alls þess sem gekk á fram að Hruni og framyfir Hrun.

Þegar Bjarni Ben og fjölskylda hans hafði tekið Vafning á bankakerfið og byrjað að selja hlutabréfin þá var rétt svo einhver smáskjálfti í gangi að manni fannst. Svo kom Geir H. Haarde og sagði í viðtali í mars 2008 að allt væri í toppstandi og allt stjórnkerfið lét þannig sem að það versta væri búið. Maður trúði Geir þá þó maður væri pólítískt ósammála honum því Geir hafði ímynd hins traustverðuga manns þó síðar meir ætti sú ímynd eftir að fjúka á brott þegar landanum varð ljóst hversu mikið hann hafði klúðrað og logið. Síðan leið sumarið, allt var í gúddi bara, Menningarnótt var eins og venjulega í boði banka og við samfélagsáhugamennirnir í vinahópnum dútluðum okkur við heimildarmyndagerðartilraun. Ég hafði þó bölsótast opinberlega í Morgunblaðinu í júlí/ágúst 2008 yfir því að Exista hafði stolið hlutabréfum sem ég átti í Símanum með siðlausri barbabrellu þar sem ég sat eftir með draslhlutabréf í Exista og Símalaus. Exista brást við eins og skot með svargrein þar sem allt var sagt vera í besta lagi, þetta væru eðlileg viðskipti og gott ef það var ekki gefið í skyn að ég væri eitthvað skrítinn eða klikk.

Ég er svo sem bæði skrítinn og klikk en ég er ekki það mikið fífl að fatta ekki að verið sé að svindla á mér enda kom síðar meir í ljós að Exista hafði verið tæknilega gjaldþrota frá áramótum 2008 en því haldið leyndu.

En nóg um það.

Stemmingin í þjóðfélaginu var þannig að fyrir flestum utan kannski Þorvald Gylfa og einhverja erlenda kalla sem þurftu t.d.  á endurmenntun að halda samkvæmt Þorgerði Katrín, þá leit þetta svo sem allt í lagi út. Fjölmiðlar létu sem að allt væri í orden enda í eigu auðjöfra, smáorðrómur var á kreiki um að Landsbankinn þyrfti kannski að fækka fólki, Fjármálaeftirlitið var sagt mjög virkt, bankamenn mættu til Binga til að segja okkur hvað við stæðum vel, fjármálaráðgjafar bankanna sannfærðu fólk um að halda áfram að setja fé sitt í hlutabréf og það var hamrað á öllum vígstöðvum um góðæri og veislur. Okkur nöldurseggjunum fannst samt verið að deila gnægtunum frekar ójafnt og höfðum áhyggjur af því að annað REI-mál kæmi upp enda útrásarvíkingarnir farnir að ásælast orkuauðlindir. Grunnstoðir voru komnar í skotlínu græðginnar sem „eitthvað sem ríkið á ekki að vera að vasast í “ eins og dólgafrjálshyggjumenn orða það.

Svo kom að þessu með Glitni þegar Dabbi tók einræðisákvörðun og þjóðnýtti hann. Það varð mál málanna og menn klóruðu sér í hausnum hvað væri í gangi. Sjálfur upplifði ég það á vinnustaðnum mínum sem var þá tryggingafélög að menn ræddu þetta mikið hvað væri í gangi en samt varð maður ekkert var við einhverja stemmingu um að allt væri að fara til fjandans. Áróðurinn og róunin hélt áfram þá vikuna meðan Bjarni Ben og aðrir voru byrjaðir að losa um sitt á bak við kókaínmettaða bankaleyndina sem allt glæpsamlegt hylur. Föstudaginn 3. október fór maður svo á gaggó-reunion og þar sem einhver höfðu orðið var við að ég fylgdist með og bloggaði um samfélagsmál var ég spurður um hvað mér finndist um þetta og hvað ég héldi að væri í gangi.

„Ég veit það ekki“, svaraði ég enda var ég alveg jafnmikil spurn um hvað var í gangi og hvort þettahefði einhverjar afleiðngar.

Ég var nefnilega eins og svo margir aðrir ekki þessir „allir sem vissu þetta“.

Þetta varð svo timburmannahelgi þar sem maður sá í fréttum eitthvað um mikil fundarhöld í ráðherrabústöðum og svo þegar Davíð, Geir og Árni Matt sáust saman í bíl þá held ég að flestir hafi gert sér grein fyrir því að eitthvað alvarlegt var á seyði. Samt kom Geir fram á sunnudagskvöldinu og sagði við okkur öll að það væri nú allt í orden og við gætum nú alveg sofnað í góðu.

Ég held að flest okkar hafi gert það nema kannski helst þeir sem voru að funda með banksterum, útrásarvíkingum og öðru illþýði í myrkviðum Mordors fjármálageirans.

Svo kom mánudagurinn 6. október og fréttir héldu áfram. Þá voru flestir komnir á „refresh-takkann“ um hvað væri í gangi því það var greinlega eitthvað stórt að gerast. Maður sá Steingrím J. koma náfölan út af fundi með Geir og Guðna Ágústs greinilega brugðið með tilheyrandi tilkynningu um að það yrði bein útsending kl. 4.

Þá vissu loksins allir að það var eitthvað stórt í gangi og þá hafði fjölskylda Bjarna, hann sjálfur og margir góðir Sjálfstæðismenn losað um sina peninga, selt hlutabréf og annað slíkt án þess að „allir vissu það“.

Guð blessaði Ísland þeirra sem vissu allt.

Við hin sem tilheyrðum 99% þjóðarinnar sátum uppi með sárt ennið, eignamissi, atvinnumissi og sár sem hafa lítið gróið síðan.

Við vorum nefnilega ekki „allir sem vissu þetta“.

Þeir sem vissu allt höfðu aftur á móti svikið okkur, logið að okkur og féflett okkur.

Og dirfast nú til að kalla nýjar upplýsingar „gamlar fréttir, ekkert nýtt“ og þá sem upplýsa okkur „haldna annarlega hvötum“.

Það er af slíkum ástæðum sem maður getur ekki ekki gleymt því hvað Sjálfstæðisflokkurinn með öllum sínum formönnum og aðrir Hrunverjar með vitneskju um „það sem allir vissu“ gerðu okkur.

Maður mun heldur ekki geta fyirgefið það nokkurn tímann né á að gera það.

Sérstaklega þegar ítrekað er reynt að endurskrifa söguna og halda iðrunarlaust áfram að ljúga að okkur í trássi við gögn, staðreyndir og vitnisburði um hvað þeir sem raunverulega allt vissu höfðust að.

Þeirra sem raunverulega allt vissu, þeirra eru svikin og skömmin.

Ekki fjölmiðla sem færa okkur fréttir af slíku athæfi.

Hvað þá okkur almenningi sem sátum uppi með Hrun-reikninginn.

Ólíkt Bjarna og fjölskyldu hans.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu