Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Þöggunin sem mistókst

Sigríður Andersen lét út úr sér mjög áhugaverðan hlut á Stöð 2 á áðan. Hún sagði að hún hefði upplýst Bjarna Ben í júlí um að pabbi hans hefði skrifað meðmælabréf með barnaníðingnum Hjalta og sagði nú að sjálfsögðu að Bjarni hefði nú verið brugðið og allt það.

Í samhengi hlutanna og ef mig minnir rétt þá fór Brynjar Níelsson í enn harðsoðnari gír seinni part júlí við að hamast gegn fórnarlömbum Downeys og fjölskyldum þeirra sem voru að biðla um upplýsingar. Áður hafði hann bara talað yfirlætislega um að fólk ætti bara að fyrirgefa og verið með stæla sem fóru svo í yfirgír þegar þingmenn fóru að spyrjast fyrir um þetta mál.

Það er svo komið fram í ágúst þegar fundurinn frægi í stjórnskipunar- og þöggunarnefnd alþingis er haldinn, Bjarni er á þeim tíma með vitneskju um að pabbi hans tengist málinu sem setur skyndileg reiðiviðbrögð hans eftir langa þögn í nýtt ljós. Dómsmálaráðuneytið afhendir gögnin með þeim orðum að þetta séu trúnaðargögn sem enginn megi sjá og Brynjar flokkar það niður hvað nefndarfólk má sjá. Fjórir Sjálfstæðismenn(ég tel Pawel til slíkra) ganga út í samráði á þessum ágústfundi og svo stuttu síðar reynir formaður allsherjar- og menntamálanefndar sem er ritari Sjálfstæðisflokksins að koma í veg fyrir það að dómsmálaráðherra sé spurð um málið en þegar það gengur ekki þá neitar bara dómsmálaráðherra að svara spurningum.

Málið var orðið flokkspólitískt skyndilega með þessum athöfnum.

Ég hef sjálfur verið á þá skoðun síðan að þessi fundur fór fram að þetta væri eitthvað stærra heldur en bara kunnuglegir taktar frá landsliði klappara fyrir kynferðisbrotamönnum sem þó nokkrir lögmenn tilheyra. Það þarf eitthvað meir til þess að þingmenn á uppleið(Brynjar er undanskilin) séu skyndilega tilbúnir til að fara fram með svona svæsnum hætti í þöggun á máli tengdu kynferðisbrotum og tilbúnir til að sverta eigið mannorð með slíku athæfi sem hægt er að lesa út úr sem stæka fyrirlitningu gagnvart fórnarlömbum og fjölkslydum þeirra.

Það þarf eitthvað og einhvern/einhverja til sem geta haft verulega áhrif á frama þeirra og framtíðartækifæri á vinnumarkaði.

Fjölskylda Bjarna Ben er það.

Bjarni er formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, pabbi hans er búinn að vera mikill áhrifamaður í atvinnulífinu og innan Sjálfstæðisflokksins þar sem hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstöðum fyrir flokkinn. Fleiri úr frændgarði Bjarna og Benedikt föður hans hafa gegnt svo ráðherrastöðum, nefndarstörfum, verið mjög áhrifamkilir í viðskiptalífinu og það er eiginlega óumdeilangt að fjölskyldan sem slík hefur mikil áhrif innan Sjálfstæðisflokksins. Þetta fólk er allt svo umkringt hirð sérfróðra lögmanna, ráðgjafa hverskonar  og almannatengla sem sjá um að ljúga upp einhverjum svörum þegar fjölskyldunni hefur tekist að flækja sig enn eina ferðina inn í einhverja vafasama Vafninga.

Maður getur því vart annað en dregið þá ályktun að þegar það varð ljóst að faðir forsætisráðherra hafi tengst málinu þá hafi verið leitað til lögmanna, ráðgjafa og almannatengla sem eru handgengir fjölskyldunni og Sjálfstæðisflokknum og athugað með hvort það væri ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Þar hafi þeim verið tjáð að það væri raunveruleg hætta á ferð um að þessar upplýsingar yrðu opinberar ef ekki tæki að þæfa og þagga niður málið með öllum ráðum og brögðum. Þeim skilaboðum hafi verið svo komið á framfæri við þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hugsanlega einhverja  kommisara flokksins innan stjórnkerfisins að hollast væri fyrir alla ef upplýsingar um málefni Róbert Downeys og uppreista æru fleiri aðila kæmu aldrei fyrir almannasjónir.

Það þýðir ekki endilega að þau sem gengu út af fundi stjórnskipunar- og þöggunarnefndar eða reyndu að koma í veg fyrir að málið yrði rætt í nefndum þingsis hafi haft þá vitneskju að enn eitt hneykslismálið tengt Bjarna Ben væri í uppsiglingu heldur hafi þau skynjað að þeirra frami og framtíð innan Sjálfstæðisflokksins ylli á þessu. Persónulega er ég þó á þeirri skoðun að líklegast hafi Brynjar Níelsson haft fulla vitneskju um meðmælin hvort sem það var frá Bjarna, Sigríði og/eða frá barnaníðingnum Hjalta sjálfum sem hann sagði í Kastljósi að hann hefði varið. Það útskýrir fyrirlitlega yfirgírinn sem hann fór í gagnvart kröfum fórnarlamba og fjölskyldna þeirra um svör.

Þessu fólki mistókst þó öllu að þagga þetta niður þegar loksins stjórnsýslan virkaði sem skyldi þó manni gruni að það verði leitað hefnda gagnvart nefndarmönnum kærunefndar upplýsingalaga af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Það yrði ekki í fyrsta sinn né það síðasta sem slíkt yrði reynt enda saga Sjálfstæðisflokksins uppfull af dæmum um þöggun, misbeitingu valds og ógnarstjórnun gagnvart þeim sem gera ekki það sem flokkurinn líkar.

Mann grunar þó að Benedikt Sveinsson sé ekki eina stóra nafnið sem eigi eftir að koma upp í tengslum við þessi mál heldur sé bara eitt stórt púsl inn í atburðarrásina. Mann grunar líka að þetta sé hreinlega byrjunin á stíflu sem er að bresta og eigi eftir að verða að flóði sem muni minna talsvert á mál Jimmy Saville þar sem stjórnkerfið hélt hlífishendi yfir þeim viðbjóðslega barnaníðingi.

En eitt er víst.

Þeir ráðherrar og þingmenn sem tóku þátt í tilraunum til þöggunar hafa svívirt eigin æru og skaðað stjórnkerfið allt illilega.

Því miður fyrir þau geta þau ekki sótt um vélræna afgreiðslu á uppreistri æru nema þá kannski helst með afsögn sinni.

Jafnvel þó allur Sjálfstæðisflokkurinn yrði meðvirkur með þeim á meðmælabréfum.

Líkt og flokkurinn kvittar alltaf meðvirkt upp á allt það sem Bjarni Ben og fjölskylda hans hafa gert af sér.

Sama hversu skuggalegt og siðlaust það er.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu