Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 5 árum.

Ævintýri sölumanns Íslands sem vildi sigra heiminn

Æv­in­týra­legri eig­enda­sögu Skúla Mo­gensen á WOW air lauk í byrj­un nóv­em­ber þeg­ar botn komst loks í næstu skref fram­tíð­ar flug­fé­lags­ins. Á síð­ustu sjö ár­um hef­ur Skúli ver­ið eitt helsta and­lit ferða­manna­lands­ins, far­ið mik­inn í fjöl­miðl­um og ver­ið með stór plön um heims­yf­ir­ráð WOW air.

Ævintýri sölumanns Íslands sem vildi sigra heiminn

Ef setja ætti andlit einhvers eins manns á þá sprengingu sem verið hefur í ferðamannaiðnaðinum á Íslandi síðastliðin áratug þá myndu líklega margir nefna nafn Skúla Mogensen, stofnanda og bráðum fyrrverandi eiganda flugfélagsins WOW air. 

Skúli hefur verið rödd jákvæðni, hressleika og stöðugrar sóknar síðastliðin sjö ár í stafni WOW air og keyrt starfsemina áfram af mikilli bjartsýni og stöðugt bætt við nýjum flugleiðum og áfangastöðum: Los Angeles, Dallas, Tel Avív og Nýja-Delhí. 

Fáir í íslenskri ferðaþjónustu hafa verið eins áberandi og Skúli síðastliðin ár og hann lagt sitt af mörkum sem ötulasti sölumaður Íslands. Ófáar fréttir og myndir hafa birst af Skúla þar sem hann kynnir nýjustu áfangastaði WOW air, annað hvort íklæddur flugþjónsbúningi flugfélagsins eða uppáklæddur að klippa á borða í erlendri flugstöð. 

„Ævintýramennskan er það sem hefur alltaf drifið mig áfram“

Ævintýramaður með gleðina að vopni

Á meðan stærsta flugfélag landsins Icelandair minnir meira á trausta og andlitslausa stofnun, mestmegnis í eigu lífeyrissjóða, sem stýrt er af tæknimönnum í dökkum jakkafötum er Skúli bronsaður og brosandi, stórhuga ævintýramaður sem sækir fram  með að minnsta kosti tvær efstu tölurnar á skyrtunni fráhnepptar og bringuna bera. „Ævintýramennskan er það sem hefur alltaf drifið mig áfram og mér leiðist afskaplega ef það er ekkert að gerast. Þegar hlutirnir eru fallnir í ljúfa löð verð ég órólegur,“ sagði Skúli í viðtali við DV árið 2012 eftir að hann hafði komið WOW air á koppinn og keypt MP Banka ásamt hópi fjárfesta.  „Að einhverju leyti er þetta spennufíkn. En við skulum vona að ég sé orðinn aðeins skynsamari núna,“ sagði hann þá.  

Mikilvægið sem Skúli leggur upp úr jákvæðni má meðal annars undirstrika með því að fyrir nokkrum árum þegar hann hafði samband við blaðamann, sem þá var starfsmaður DV, og bað um það sérstaklega að blaðið hætti að birta af honum mynd þar sem hann var alvarlegur á svipinn og sendi þess í stað myndir þar sem hann var með sigurvegarabros á vör og í fráhnepptri skyrtu. Skúli virðist hafa fundist neikvætt að virka ekki glaður á þeim myndum sem birtar voru af honum af því hann vill að umheimurinn sjái sig sem jákvætt afl.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár