Fréttir

Katrín: Engin sátt um sveltistefnu í heilbrigðis- og menntamálum

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar ganga í berhögg við ákall kjósenda um uppbyggingu innviða og aukna velferð.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar einkennast af sveltistefnu og ganga í berhögg við ákall kjósenda í síðustu kosningum um að blásið yrði til sóknar í heilbrigðis- og menntamálum og uppbyggingu innviða. 

„Þarna er lagt til að sveltistefnan sem boðuð var í fjármálaáætlun verði lögfest. Stóra myndin er sú að samneyslan dregst saman sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hún hefur dregist saman frá árinu 2013 um tæp 4 prósentustig. Þótt þetta skýrist auðvitað að hluta til af þáttum á borð við minnkandi atvinnuleysi, þá er það svo að ákall kjósenda fyrir um ári var að blásið yrði til sóknar í heilbrigðismálum, skólamálum og kjörum aldraðra og öryrkja,“ segir Katrín í samtali við Stundina.

„Vaxta- og barnabætur eru á niðurleið og þetta bitnar á ungu barnafólki. Svo er ekki komið til móts við það sem háskólarnir og framhaldsskólarnir hafa kallað eftir og sagt þurfa til að geta staðið undir nafni.“

Ekki komið til móts við vilja fjárlaganefndar

Katrín bendir á að í nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar í vor hafi verið kallað eftir því að aðhaldskrafan á framhaldsskóla yrði endurskoðuð og að viðbótarféð sem háskólastiginu var úthlutað á fjárlagaárinu 2017 héldist áfram í fjárlögum fyrir árið 2018.

„Mér sýnist ekki vera komið til móts við þessar ábendingar,“ segir Katrín. Að því er fram kemur í greinargerð fjárlagafrumvarpsins mun aðeins helmingur af hinu 1,078 milljarða framlagi á yfirstandandi fjárlagaári haldast í fjárlögum næsta árs.

Tveggja prósenta aðhaldskröfu ríkisstjórnarinnar gagnvart framhaldsskólastiginu verður fylgt eftir og felur í sér að framlögin eru 576,8 milljónum lægri en þau væru ella. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir niðurfellingum á tímabundnum framlögum til málaflokksins. 

Hefur áhyggjur af vaxandi þunga
einkareksturs í heilbrigðisþjónustu

Katrín segist fagna því að umhverfisskattar hækki og að auðvitað sé ánægjulegt að staðið sé við áform um byggingu nýs spítala. Hins vegar sé óásættanlegt að rekstri sjúkrahúsanna sé sniðinn jafn þröngur stakkur og raun ber vitni.

Eins og Stundin greindi frá í dag er aðeins gert ráð fyrir 597 milljóna aukningu til reksturs og þjónustu Landspítalans og 75 milljóna aukningu til Sjúkrahússins á Akureyri. „Ég trúi ekki að það sé sátt um þetta. Þetta er ekki það sem kallað var eftir í aðdraganda síðustu kosninga,“ segir Katrín.

Í fjárlagafrumvarpinu er lagt til að veitt verði heimild til aukins samstarfs sjúkrahúsa og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við einkafyrirtæki í heilbrigðisgeiranum. „Við höfum auðvitað lýst áhyggjum af vaxandi þunga einkareksturs í heilbrigðismálum og viljum auðvitað vita hvað nákvæmlega á að felast í þessari heimild,“ segir Katrín. 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Fréttir

Sveinn segir söguna alla: „Okkur fannst þessi tengsl mjög skrítin“

Fréttir

Brynjar kemur fyrir í gögnunum sem áttu að fara leynt

Fréttir

Brynjar settur af sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Fréttir

Júlíus Vífill veitti lögmanni meðmæli

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Hjalti fundaði með Bjarna og Brynjari eftir að hann var kærður

Fréttir

Dæmdur fyrir hrottalega nauðgun gegn þroskahamlaðri konu – fékk uppreist æru í fyrra

Fréttir

Geir Jón skrifaði meðmæli fyrir nauðgara sem hann rannsakaði

Pistill

Þessi ótrúlegi óheiðarleiki

Pistill

Karlmaður í kventíma

Fréttir

Faðir forsætisráðherra var meðmælandi Hjalta – ráðuneytið hélt því leyndu