Fréttir

Fjárlög: Boða aðhald í heilbrigðismálum, samdrátt í hjúkrunarþjónustu og aukið samstarf við einkafyrirtæki

Ríkisstjórnin boðar aukið samstarf við einkafyrirtæki í heilbrigðismálum. Útgjöld vegna hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu dragast saman um tæpan hálfan milljarð og aðeins er gert ráð fyrir 597 milljóna aukningu til reksturs Landspítalans og 75 milljóna aukningu til Sjúkrahússins á Akureyri.

Fjárveitingar vegna þjónustu og reksturs Landspítalans aukast um 597 milljónir króna og um 75 milljónir hjá Sjúkrahúsi Akureyrar samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í morgun. Þetta er umtalsvert minni aukning en stjórnendur spítalanna hafa fullyrt að þurfi til að tryggja viðunandi þjónustu við sjúklinga. 

Skýringin liggur aðallega í „stefnu ríkisstjórnarinnar um aðhald í útgjöldum ríkissjóðs“ eins og það er orðað í fjárlagafrumvarpinu. Aðhaldið gerir það að verkum að útgjöld til Sjúkrahússins á Akureyri eru rúmum 40 milljónum lægri en þau ellegar væru og hjá Landspítalanum 332 milljónum lægri.

Þá fellur tímabundið framlag vegna hjúkrunar- og dvalarrýma, meðal annars til að mæta útskriftarvanda Landspítalans, niður á komandi fjárlagaári. Alls lækkar rekstrargrunnur hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu um tæplega hálfan milljarð á næsta fjárlagaári.

Framlög til byggingar nýs Landspítala verða 2,8 ma.kr. og hækka um 1,5 ma.kr. frá fjármálaáætlun. Áfram verður haldið með átak til að bæta núverandi húsnæði Landspítala. Þá er lagt til að veitt verði heimild til aukins samstarfs sjúkrahúsa og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við einkafyrirtæki sem vinna að vísindarannsóknum og þróun nýjunga á sviði heilbrigðismála og læknisfræði. 

Alls aukast útgjöld til sjúkrahússþjónustu úr 83 milljörðum í 85,9 milljarða. Álíka mikil aukning er til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, úr 42 milljörðum í 45 milljarða. Megnið af aukningunni í heilbrigðismálum rennur hins vegar til uppbyggingar nýs spítala eða stafar af áætluðum launa- og verðlagsbreytingum. 

Gert er ráð fyrir um 247 m.kr. vegna reksturs sjúkrahótels á lóð Landspítala við Hringbraut sem hefur verið í byggingu síðastliðin tvö ár. Það verður tekið í notkun í kringum næstu áramót. Til reksturs jáeindaskanna á Landspítala er fyrirhugað að veita 200 m.kr. en tækið verður tekið í notkun síðar á þessu ári. Tímabundið 500 milljóna framlag til kaupa á línuhraðli fellur hins vegar niður.

Fram kemur í greinargerð frumvarpsins að hjúkrunar- og dagdvalarrýmum verði fjölgað, innviðir stofnana styrktir, teymisvinna efld og fjarheilbrigðisþjónusta styrkt. Skimun hefst fyrir krabbameini í ristli, ráðgjöf um heilsueflingu verður efld og heilsueflandi samfélögum fjölgað. Þá verða innkaup lyfja styrkt í samstarfi við önnur lönd. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Berst gegn umgengnistálmunum en hélt sjálfur barni frá móður þess

Fréttir

Rekinn úr Karlalistanum vegna fréttar Stundarinnar

Greining

Svona verður Eyþór Arnalds borgarstjóri

Leiðari

Hér er engin spilling

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Kosningapróf Stundarinnar opnað

Viðtal

Beitt trúarlegu ofbeldi í tíu ár

Pistill

Heiftarlegt uppgjör launafólks og stjórnmálaelítunnar framundan

Fréttir

Frambjóðandi sló son sinn: „Þú veist að þú áttir þetta skilið“

Fréttir

Kvartar yfir að „þurfa að sitja alltaf undir því að Sjálfstæðisflokkurinn sé einhver spillingarflokkur“

Fréttir

Ríkislögreglustjóri heimilaði lífvörðum sona forsætisráðherra Ísraels að koma með skotvopn inn í landið