Mest lesið

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“
1

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik
2

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik

„Ég er orðin 36 ára gömul og bý með móður minni“
3

„Ég er orðin 36 ára gömul og bý með móður minni“

Launin gera fólk háð maka sínum
4

Launin gera fólk háð maka sínum

Kvótaerfingi sýnir skart, seðla og dýra bíla í nýju myndbandi
5

Kvótaerfingi sýnir skart, seðla og dýra bíla í nýju myndbandi

„And-Gréta“ komin fram í Þýskalandi og á leiðinni til Bandaríkjanna
6

„And-Gréta“ komin fram í Þýskalandi og á leiðinni til Bandaríkjanna

Stundin #112
Febrúar 2020
#112 - Febrúar 2020
Prentútgáfa Stundarinnar kemur næst út þann 6. mars.
Þessi grein er meira en mánaðargömul.

Einar Már Jónsson

Svanavatn á torgi

Í staðinn fyrir að vera „umbótamaður“ hefur Emmanuel Macron afhjúpað sig sem „Thatcher Frakklands“, að sögn Einars Más Jónssonar sem skrifar frá Frakklandi.

Einar Már Jónsson

Í staðinn fyrir að vera „umbótamaður“ hefur Emmanuel Macron afhjúpað sig sem „Thatcher Frakklands“, að sögn Einars Más Jónssonar sem skrifar frá Frakklandi.

Svanavatn á torgi
Mótmæli í París Ungur mótmælandi með gjallarhorn 17. desember síðastliðinn, mótmælir umdeildum umbótum Macrons forseta.  Mynd: Shutterstock

Sá sem ætlar milli hverfa í París þessa daga á fyrir höndum ferð án fyrirheits, því samgöngukerfi borgarinnar er lamað. Neðanjarðarlestir ganga með höppum og glöppum, ef þær ganga á annað borð, og aldrei nema dagpart í senn, en margar línur eru alltaf lokaðar. Einstaka strætisvagnar silast eftir götum, þeir sem eru svo heppnir að komast upp í þá verða að dúsa þar inniklemmdir svo þeir fara að öfunda síldirnar í sínum dósum. Utan höfuðborgarinnar er ástandið eitthvað skárra, en þó geta menn lítt vitað fyrirfram hvort lest ekur af stað eða ekki. Því nú stendur yfir hart og langvarandi verkfall þeirra sem starfa við samgöngutækin, það hefur staðið yfir í þrjátíu og átta daga þegar þetta er skrifað – lengur en nokkurt verkfall í Frakklandi síðan 1968 að minnsta kosti – og enn sér ekki fyrir endann á því, báðir aðilar eru ósveigjanlegir.

En þessir verkfallsmenn í samgöngunum standa ekki einir, fjölmargar aðrar stéttir á ýmsum sviðum hafa einnig lagt niður vinnu jafnlengi og hafa þá orðið ýmsar kynlegar uppákomur. Hjúkrunarfólk í sjúkrahúsum er í verkfalli, en það er engin nýjung, þar hafa verið mótmælaaðgerðir um langt skeið vegna þeirra vinnuskilyrða og kjara sem þeim er boðið upp á. Undarlegar kann að virðast að málafærslumenn eru líka í verkfalli, allir með tölu, þannig að engin réttarhöld fara nú fram í landinu, og þeir láta ekki við það sitja. Þegar dómsmálaráðherrann, Nicole Belloubet, kom á fund málafærslumanna, reyndar til að ræða eitthvað sem kom verkfallinu ekki við, gerðu þeir hróp að henni, og sýndu reiði sína með því að grýta á gólfið fyrir framan hana þeim svörtu hempum sem þeir íklæðast við sitt starf. Lágu hempurnar þar í hrúgu. Starfsmenn við opinberu útvarpsstöðvarnar hafa lagt niður vinnu þennan sama tíma, þannig að útvarpsdagskrár eru nú með minnsta móti. Svo þegar útvarpsstýran í útvarpshúsinu stóra og kringlótta kallaði starfsmennina saman í byrjun janúar til að óska þeim árs og friðar var útvarpskórinn skyndilega mættur og kæfði nýársóskirnar með því syngja fagurlega söng hinna herleiddu Gyðinga úr óperunni Nabucco: „Va pensiere...“. Þessum gerningi var útvarpað. Ballettdansmeyjar í verkfalli dönsuðu „Svanavatnið“ á torginu fyrir framan hið fornfræga óperuhús í hjarta Parísar.

MótmælendurAðgerðir mótmælenda setja svip sinn á Paris.

Ástæðan fyrir þessum verkföllum er nýskipan eftirlauna sem Macron forseti hefur boðað og virðist nú ætla að knýja í gegn með hörku hvað sem tautar og raular, en eins og síðar verður sagt, er hún einnig neistinn sem hefur kveikt í púðurtunnunni. Rökin sem gefin eru fyrir þessari nýlundu er sú að í landinu séu fjölmörg mismunandi eftirlaunakerfi, eftir starfstéttum, sum betri en önnur, og því verði að samræma þau, afnema „forréttindi“ einstakra stétta, eins og sagt er, og setja alla undir sama hatt. Lausnin sé sú, samkvæmt stjórnvöldum, að setja á „punktakerfi“, semsé að láta menn ekki borga beint í eftislaunasjóð heldur greiða fyrir „punkta“ sem síðan séu taldir saman í eftirlaun, og út á það ganga tillögur Macrons. Menn voru fljótir að reikna út, að þótt einstaka stéttir myndu vinna í þessu nýja kerfi myndu flestir tapa, sumir mjög miklu, einkum og sér í lagi konur. Og svo bættist annað við, „punktar“ eru aldrei annað en „punktar“, þeir eru ekki peningar og hafa því ekkert fast gildi. Það er kannske hægt að ákveða í byrjun að hver punktur jafngildi t.d. einni evru, og láta menn borga eftir því, en ekkert kemur í veg fyrir að stjórnvöld taki upp á því síðar að minnka verðgildið t.d. niður í áttatíu sentímur. Slíkt hefur nefnilega gerst í löndum þar sem punktakerfið hefur verið tekið upp, og þannig er einfalt að lækka öll eftirlaun með einu pennastriki. Macron sór að vísu og sárt við lagði að verðgildið yrði fest í lögum og ekki við því hróflað, en gallinn er sá að því sem ein lög hafa ákveðið er hægt að breyta með öðrum lögum, og vafalaust verða þá á ferli hagfræðingar einn og átta sem útskýri að þessi lækkun sé alveg nauðsynleg. Það er auk þess franskt máltæki að loforð í stjórnmálum séu ekki bindandi nema fyrir þá sem leggja trúnað á þau, og nú er svo komið að þeir eru afskaplega fáir.

Ofan á þetta bætast ýmsar aðrar ráðstafanir. Í nýja kerfinu eiga eftirlaunin að miðast við allan starfsferil manna en ekki síðasta (og tekjuhæsta) hlutann eins og hingað til. Á þessu munu margir tapa miklu, og þá ekki síst kennarar, því laun þeirra eru mjög lág í byrjun. Reiknað hefur verið út að með þessu myndu eftirlaun þeirra lækka um 400 evrur á hverjum mánuði eða jafnvel mun meira fyrir suma. Stjórnvöld hafa að vísu sett fram loðin loforð um að kennurum yrði bætt upp þetta tap, en það eru ekki annað en venjuleg loforð stjórnmálamanna, og auk þess fylgir sá böggull skammrifi að til að geta fengið þessar uppbætur þurfi þeir að bæta á sig störfum, og taka á sig sitthvað nýtt, og það vekur lítinn fögnuð. Svo kemur enn annað, eftirlaunaaldur er eins og áður 62 ár, en framvegis eiga menn ekki að fá full eftirlaun fyrr en 64 ára, annars fá þeir „malus“. Þetta snýst reyndar um fleira en eftirlaunin ein, margir menn missa sitt starf um miðjan aldur og fá enga vinnu eftir það, og þegar eftirlaunaaldurinn hækkar lengist einnig sá tími sem þessir menn eru atvinnulausir og fá enga „punkta“; þannig minnka þau eftirlaun sem þeir eiga síðan rétt á. Stjórnvöld tala reyndar mikið um það hve nauðsynleg þessi nýbreytni sé, við það sparist miljarðar. Og þar stendur hnífurinn í kúnni, öll þessi nýbreytni er kannske í og með sparnaðaraðgerð á kostnað almennings.

En marga grunar að á bak við þetta sé líka annað, að hleypa bandarískum eftirlaunasjóðum inn í Frakkland, semsé “einkavæða” eftirlaunin að hluta til – og leyfa þessum sjóðum að græða drjúgt og fara með gróðann úr landi, kannske alla leið til Meyjareyja. Þessi grunur styrktist þegar undarlegt mál kom upp. Það kom nefnilega í ljós að sá maður í ríkisstjórninni sem átti að stýra þessum breytingum, koma nýja kerfinu á, var í nánum tengslum við einn stærsta bandaríska eftirlaunasjóðinn. Frá því hafði honum verið skylt að segja þegar hann tók sæti í stjórninni, en af einhverjum ástæðum hafði honum láðst það, og það var víst sitthvað fleira sem hann hafði gleymt. Eftir stutt þref varð hann að segja af sér og laumast burt með skottið mili lappanna. Ekki bætti það andrúmsloftið.

Loks má ekki gleyma því að sjálf átylla þessarar nýbreytni, að það þurfi að sameina hina ýmsu eftirlaunasjóði stenst mjög illa. Eins og Páll postuli sagði (I Kor. 12,4): „Mismunur er á náðargáfum, en andinn hinn sami; og mismunur er á embættum og Drottinn hinn sami; og mismunur er á framkvæmdum, en Guð hinn sami.“ Þau störf sem menn inna af hendi eru afskaplega mismunandi, sumir vinna lýjandi erfiðisvinnu og slitna fljótt; sumir sitja við skrifborð og glápa á tölvu; sumir hafa með hendi hættuleg störf, t.d. þeir sem vinna með sprengiefni; sumir þurfa að vera löngum stundum fjarri sínum nánustu, t.d. lestarstarfsmenn; sumir vinna ábyrgðarstörf sem geta útheimt snögg viðbrögð, t.d. flugmenn; sumir vinna störf sem einungis er hægt að vinna á takmörkuðu aldurskeiði, t.d. dansmeyjar; sumir geta komist í lífshættu í sínu starfi, t.d. lögreglumenn; sumir verða í sínu starfi að standa einir andspænis mannýgum unglingum, t.d. kennarar. Það er því út í hött að láta alla sitja við sama borð í eftirlaunamálum, og það endurspegla hin ýmsu kerfi. Í þau vilja menn halda og neita að tekin séu af þeim réttindi sem eru ekki aðeins  uppbætur fyrir annað.

Svo hlálega vill til að þessi rök hafa yfirvöldin sjálf viðurkennt óbeint, og þannig kippt grundvellinum undan sínum eigin áformum; þau gengu nefnilega fljótt að samningum við ýmsar starfsstéttir og samþykktu sérreglur þeirra, semsé „forréttindin“ eins og þau sögðu. Eftir stutt verkfall var samið við ballettdansara, því það kostaði allt of mikið, og mega þeir eftir sem áður fara á efirlaun 42 ára. Það var Lúðvík 14. sem kom þessu kerfi á árið 1698, en hann var sjálfur liðtækur ballettdansari á yngri árum og vel það og vissi um hvað málið snerist. Eða vildu margir koma og horfa á 64 ára gamla dansara? Svo var líka samið við lögregluþjóna um að þeir mættu hafa sitt eftirlaunakerfi áfram. Fyrir því höfðu þeir sterk rök en það voru þó ekki þau sem sannfærðu stjórnvöld heldur hitt að þeir hótuðu að fara í verkfall sjálfir, og þá var voðinn vís.

MacronGerði út á að vera hvorki hægri né vinstri.

„Jafnvel í mesta troðningi hef ég ekki heyrt nokkurt hnjóðsyrði í garð verkfallsmanna“

En bak við þetta allt er þó nokkuð sem mótar nú andrúmsloftið. Enginn fer lengur í neinar grafgötur um að Macron – sem boðaði að hann væri „hvorki til vinstri né hægri“ og ætlaði aðeins að gera „nauðsynlegar umbætur í landinu“ – er kominn í sitt embætti til þess eins að framkvæma stefnu frjálshyggjunnar út í æsar. Til þess ætlast þau öfl sem studdu hann til valda, og þeirri línu hefur hann staðfastlega fylgt frá því hann var kjörinn. Eitt allra fyrsta verk hans á forsetastóli var að fella niður stóreignaskatt og gefa auðkýfingum ýmsar aðrar skattaívilnanir sem um munaði. Svo gerði hann veigamiklar breytingar á atvinnulöggjöfinni, sem minnkuðu réttindi vinnandi fólks og gerðu kjör þess verri. Hann vann markvisst að því að ýta stéttarfélögum til hliðar og vildi ekki viðurkenna þau sem samningsaðila. Oftsinnis hefur hann sleppt út úr sér niðrandi orðum um almenning og ekki síst atvinnuleysingja, eins og þegar hann sagði við einn þeirra: „Þú þarft ekki annað en fara yfir götuna til að fá vinnu!“ eða þegar hann talaði um þá „geðveikislegu fúlgu“ sem færi í atvinnuleysisbætur. Hann lofsöng þá sem væru „efstir í öryggislínunni“, semsé í fjallgöngum, og átti þá við stórkapítalista. Í staðinn fyrir að vera „umbótamaður“ hefur hann afhjúpað sig sem „Thatcher Frakklands“. Og samlíkingin nær lengra: menn líkja verkföllunum nú við verkfall námumanna í Norður-Englandi í byrjun níunda áratugarins. Járnlafðin barði það niður með hörku og eftir það hafði hún fullt olnbogarými. Nú sé það ætlun Macrons að hafa sama háttinn á, berja þetta verkfall niður til að geta leikið lausum hala. Næst á dagskrá halda sumir að sé einkavæðing sjúkrasamlagsins.

Á þessu eru menn nú búnir að átta sig, og því er ekki að undrast að verkfallsmenn skuli nú hafa víðtækan stuðning, rúmlega helmings manna samkvæmt sumum skoðanakönnunum, enn meira samkvæmt öðrum. Jafnvel í mesta troðningi hef ég ekki heyrt nokkurt hnjóðsyrði í garð verkfallsmanna, og sömu sögu segja fleiri. Og það sem segir kannske mest: samkvæmt nýlegum fréttum hafa þrjár miljónir evra safnast í verkfallssjóði. Eftirlaunamálið hefur leyst úr læðingi langvarandi reiði, kannske einhvers konar vísi að uppreisn gegn frjálshyggjunni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“
1

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik
2

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik

„Ég er orðin 36 ára gömul og bý með móður minni“
3

„Ég er orðin 36 ára gömul og bý með móður minni“

Launin gera fólk háð maka sínum
4

Launin gera fólk háð maka sínum

Kvótaerfingi sýnir skart, seðla og dýra bíla í nýju myndbandi
5

Kvótaerfingi sýnir skart, seðla og dýra bíla í nýju myndbandi

„And-Gréta“ komin fram í Þýskalandi og á leiðinni til Bandaríkjanna
6

„And-Gréta“ komin fram í Þýskalandi og á leiðinni til Bandaríkjanna

Mest lesið í vikunni

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“
1

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi
2

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi

Svar við yfir­lýsingu vegna kvik­myndarinnar Elle
3

Árni Pétur Arnarsson

Svar við yfir­lýsingu vegna kvik­myndarinnar Elle

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik
4

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik

Mamma þín vinnur ekki hér – hún er orðin popúlisti
5

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Mamma þín vinnur ekki hér – hún er orðin popúlisti

Fer af stað klukkan fjögur að nóttu
6

Fer af stað klukkan fjögur að nóttu

Mest lesið í vikunni

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“
1

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi
2

Var ofsóttur á samfélagsmiðlum og beittur ofbeldi

Svar við yfir­lýsingu vegna kvik­myndarinnar Elle
3

Árni Pétur Arnarsson

Svar við yfir­lýsingu vegna kvik­myndarinnar Elle

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik
4

Slæmar fréttir: Bernie á ekki breik

Mamma þín vinnur ekki hér – hún er orðin popúlisti
5

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir

Mamma þín vinnur ekki hér – hún er orðin popúlisti

Fer af stað klukkan fjögur að nóttu
6

Fer af stað klukkan fjögur að nóttu

Mest lesið í mánuðinum

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“
1

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar
2

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar

Lögreglumenn sem starfa hjá sjálfsvarnarfyrirtæki sakaðir um ofbeldi
3

Lögreglumenn sem starfa hjá sjálfsvarnarfyrirtæki sakaðir um ofbeldi

Varasöm þerapía: Röng meðferð getur gert slæmt ástand verra
4

Varasöm þerapía: Röng meðferð getur gert slæmt ástand verra

Fleiri konur deila slæmri reynslu af þerapista
5

Fleiri konur deila slæmri reynslu af þerapista

„Svo er ég ekkert geðveikur!“
6

„Svo er ég ekkert geðveikur!“

Mest lesið í mánuðinum

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“
1

„Ég er hætt að vera mjó og sæt og meðvirk“

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar
2

Samherji boðsendir lögfræðibréf á tólf manns og vísar til fangelsisvistar

Lögreglumenn sem starfa hjá sjálfsvarnarfyrirtæki sakaðir um ofbeldi
3

Lögreglumenn sem starfa hjá sjálfsvarnarfyrirtæki sakaðir um ofbeldi

Varasöm þerapía: Röng meðferð getur gert slæmt ástand verra
4

Varasöm þerapía: Röng meðferð getur gert slæmt ástand verra

Fleiri konur deila slæmri reynslu af þerapista
5

Fleiri konur deila slæmri reynslu af þerapista

„Svo er ég ekkert geðveikur!“
6

„Svo er ég ekkert geðveikur!“

Nýtt á Stundinni

Stöð 2 með drulluna upp á bak

Valkyrja

Stöð 2 með drulluna upp á bak

Kvótaerfingi sýnir skart, seðla og dýra bíla í nýju myndbandi

Kvótaerfingi sýnir skart, seðla og dýra bíla í nýju myndbandi

Höft, skömmtun, og spilling

Stefán Snævarr

Höft, skömmtun, og spilling

„And-Gréta“ komin fram í Þýskalandi og á leiðinni til Bandaríkjanna

„And-Gréta“ komin fram í Þýskalandi og á leiðinni til Bandaríkjanna

Sjávarútvegsráðherra hefur litlar skoðanir á máli sem er pólitískt stórmál í Noregi

Sjávarútvegsráðherra hefur litlar skoðanir á máli sem er pólitískt stórmál í Noregi

„Mitt er mitt, við semjum um hitt“

Þorvaldur Gylfason

„Mitt er mitt, við semjum um hitt“

Þýsk yfirvöld auka viðbúnað eftir hryðjuverkaárás hægri öfgamanns

Þýsk yfirvöld auka viðbúnað eftir hryðjuverkaárás hægri öfgamanns

Ráðherra hefur ekki heimild

Steindór Grétar Jónsson

Ráðherra hefur ekki heimild