Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Hvað gerðist raunverulega á Núpi?

Jón Gn­arr lýs­ir kyn­ferð­is­legu of­beldi í hér­aðs­skól­an­um á Núpi. Stund­in ræð­ir við fyrr­ver­andi nem­end­ur og kenn­ara.

Fyrrum kennarar við heimavistarskólanum Núpi ætlast til þess að Jón Gnarr, fyrrum borgarstjóri og núverandi framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365, skýri betur orð sín um að einn þeirra hafi brotið á nemanda á árunum 1981 til 1983.

Jón lýsti grófu ofbeldi af höndum bæði nemenda og kennara sem á að hafa átt sér stað við skólann í forsíðuviðtali við Fréttablaðið síðastliðinn laugardag. Auk þess að lýsa meintri hópnauðgun á heimavist skólans, segist Jón í viðtalinu hafa sterkan grun um að vinur hans, „Sprelli“, hefði verið misnotaður af einum kennara.

„Svo kom nýr kennari og hann var töffari, hlustaði á pönk og vissi um tónlist og svona. Og hann bauð Sprella inn í kennaraíbúðina til sín til að drekka og hlusta á tónlist og spjalla. En svo vildi Sprelli aldrei tala um þetta og ég hugsaði eftir á, af hverju býður kennarinn mér ekki? Ég veit miklu meira en Sprelli. Ég var afbrýðisamur út í Sprella, og mér fannst þessi kennari vera í svo miklu rugli að hafa ekki boðið mér – ég drakk og vissi svo mikið um pönk. Það var ekki fyrr en ég skrifaði niður söguna hans Sprella, og ég er að verða fimmtugur, sem ég fattaði – auðvitað var verið að misnota hann inni í þessari kennaraíbúð,“ er haft eftir Jóni í viðtalinu.

Raunin er sú að á þessum tíma voru karlkynskennarar einungis um átta talsins og liggja þeir nú allir undir grun. Stundin hefur rætt við þrjá kennara og sex nemendur við skólann á þessum árum. Sjálfur hefur Jón ekki svarað.

Kennararnir tala allir varlega og vilja lesa bók Jón, Útlaginn, sem kemur út á næstunni áður en þeir vilja tjá sig mikið efnilega um málið. Þeir voru þó allir á sama máli um að Jón þurfi að svara fyrir orð sín. Flest skólasystkini Jóns, sem Stundin hefur rætt við, segja upplifun sína af skólanum allt aðra en Jóns. „Mér finnst þetta rosalegt, því það er fullt af fólki sem getur ekki varið sig. Mér finnst þetta mjög ósmekklegt hjá Jóni,“ segir eitt fyrrum skólasystkini hans.

„Nú liggja allir undir grun“

Björn Hafberg
Björn Hafberg Var kennari á Núpi í byrjun níunda áratugarins og er ósáttur við ásökun gegn ónafngreindum kennara um kynferðisofbeldi.

Björn Hafberg er einn þeirra karlkennara sem kenndu við skólann á sínum yngri árum. Hann segir ásakanir Jóns alvarlegar í samtali við Stundina.

„Okkur er eiginlega alveg óskiljanlegt hvað hann er að gefa til kynna, hver þetta gæti verið sem liggur þarna undir grun. Nú eru allir undir grun þegar svona er gefið til kynna,“ segir Björn. Hann segist vilja lesa bókina og vonast hann til að í henni séu þessar ásakanir betur skýrðar.

„Kannski er hægt að álykta eitthvað meira út frá bókinni hvað hann er að gefa til kynna og hverja hann er að vísa til. Ég get ekki séð þennan kennara sem hefur áhuga á pönki. Mér er það algjörlega óskiljanlegt hver það gæti verið. Þetta er rosalega einkennileg ályktun hjá Jóni. Það kom auðvitað fyrir að nemendur kæmu til kennara til að leysa úr einhverjum málum og það var rosalega mikið návígi því við vorum með íbúð á endann á ganginum. Það var ekkert útilokað að nemendur kæmu inn til kennara af ýmsum ástæðum. Það að einhver nemandi kæmi inn til kennara, að það þýði kynferðisleg misnotkun er ótrúleg skýring sem honum dettur til hugar þrjátíu árum síðar,“ segir Björn.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár