Viðtal

Endurskilgreining lífsins eftir áfallið

Óvissan um líf Stefáns Karls Stefánssonar færir honum og Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur nýja heimssýn. Tíminn er hugsanlega takmarkaður og þau ætla að nota hann vel. Þau segja frá því hvernig er að vakna til lífsins á skurðborðinu, hver tilgangur lífsins er, hvernig maður segir börnunum sínum að maður sé með sjúkdóm sem getur leitt til dauða og hvernig viðbrögð fólks við veikindunum eru hluti af lækningunni.

Stefán Karl Stefánsson vaknaði á skurðarborðinu eftir eina flóknustu aðgerð sem hægt er að gera á mannslíkamanum með þau skilaboð að nú þyrfti hann að lækna sig sjálfur.  

Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, eiginkonu hans, leið sem hún stæði við hyldýpi. Eftir greininguna eru þau elt af skugga. En þau hafa sínar aðferðir til að bægja honum frá. Þau hafa tekist á við áfallið með þeim verkfærum sem þau hafa tiltæk: Hreinskiptni, sannleikann og húmorinn, og svo barst þeim liðsauki frá þjóðinni. Áfallið hefur svipt þau einhverju og veitt þeim annað. Þau fengu nýja sýn á tímann, nauðsynina, kærleikann og tilganginn, og öðluðust sterkari tengsl við fólk. 

„Þetta endurskilgreinir allt,“ segir Stefán Karl.  

Nánast allt hafði gengið upp hjá Stefáni og Steinunni þar til áfallið skall á. Hann farsæll leikari með spírandi drauma um byltingarkennda grænmetisræktun og hún að byggja upp gagnrýninn fréttavef. 

Veikindin birtust Steinunni einn daginn þegar hún horfði í augun á Stefáni. Hann var með gul augu, sem reyndist vera einkenni og afleiðing sjaldgæfs gallgangakrabbameins sem dregur mikinn meirihluta þeirra sem veikjast til dauða. 

Stefán Karl og Steinunn tala um hvernig hreinskilni og opin umræða er forsenda lækningar hvort sem kemur að krabbameini eða þjóðfélagsmeini, hvernig skömminni vegna veikinda og fátæktar er skilað og kraftur sóttur í staðinn, hvernig staðreyndir eru þeirra trú og kærleikur fjöldans staðgengill guðs. 

Yfirskilvitlegt að finna samhug þjóðarinnar

„Þetta er næst því sem ég hef upplifað eitthvað yfirskilvitlegt,“ segir Steinunn Ólína. „Þegar ég gekk um göturnar fannst mér eins og ég væri í einhverjum verndarhjúp. Mér fannst eins og það væri haldið utan um mig. Velviljinn, mér fannst hann áþreifanlegur. Bara eins og einhver hefði breitt yfir mig teppi.“

„Þetta er Guð,“ segir Stefán Karl. 

„Nei, þetta er bara kærleikur,“ segir hún. „Og samhugur.“

„Einhver myndi segja: Þetta er Guð. En við megum ekki hengja það á einhvern Guð,“ segir hann. „Við verðum að axla þá ábyrgð sjálf.“ 

„Þetta eru gerðir mannanna, að koma vel fram við náungann, að sýna honum skilning og hlýju,“ segir hún. 

Eftir að þau sögðu opinberlega frá veikindunum brást samfélagið við með sáluhjálp handa þeim í kommentakerfum, í skilaboðum á Facebook og úti á götu. „Alls staðar þar sem ég kem. Menn hafa skrúfað niður rúðuna á rauðu ljósi og sagt: Ég sé að þú ert kominn út í umferðina. Góður! Gangi þér vel!“ Ég segi bara: „Já, takk!“ Og maður fer glaður á næsta fund. Það er mín áfallahjálp.“ 

Í miðjunni á lífssýn Steinunnar Ólínu og Stefáns Karls er að segja hlutina eins og þeir eru, að leita sannleikans. Að upplýsingar séu uppi á borðinu. Að ræða hlutina í staðinn fyrir að afneita þeim. Að opna sig frekar en að loka sig af. 

„Hérna áður fyrr var skömm að vera veikur,“ segir Stefán Karl. „Skömm að vera veikur eins og það er skömm að vera fátækur í góðæri. „Ertu aumingi?“ Þú ert hálfur maður, það er ekkert hægt að nota þig í vinnu. Þannig að það er ekkert skrítið að hérna áður hafi fólk verið að leyna veikindum sínum. Því fólk getur verið dæmt af þeim.“ 

Ákvörðunin um að greina opinberlega frá veikindunum var í raun óumflýjanleg, en hún féll að gildismati þeirra beggja. „Stefán var búinn að vera inniliggjandi í tvo eða þrjá sólarhringa þegar ég fékk fleiri en eina og fleiri en tvær samúðarkveðjur. Fólk hélt að hann væri látinn, eða að hann væri við dauðans dyr. Ég var að lesa þessi skilaboð fyrir Stefán og hann sagði: „Veistu það, Steina, ég held að það sé bara miklu betra að við segjum frá því hvað er í gangi til þess að koma í veg fyrir frekari misskilning. Og þess vegna ákváðum við að gera það,“ segir hún.

„Líka til að passa börnin okkar,“ segir hann. 

Skráðu þig inn til að lesa

Þú færð 4 greinar fríar í mánuði. Þú hefur síðan val um að styrkja óháða blaðamennsku með áskrift á hagstæðu verði, frá aðeins 1.290 krónum á mánuði. Leiðbeiningar má nálgast á stundin.is/leidbeiningar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

VG ekki á móti því að tilteknir Sjálfstæðismenn gegni ráðherraembætti

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Mest lesið í vikunni

Pistill

Enn meiri spilling af völdum Sjálfstæðisflokksins

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Víðir bóndi í stríði gegn laxeldinu: „Hrafninn eyðilagði hér 80 rúllur“

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“