Fréttir

Einn þekktasti frjálshyggjumaður landsins ráðinn ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs

Björn Jón Bragason, meðlimur í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og stuðningsmaður einkabílsins, hefur verið ráðinn ritstjóri fríblaðsins Reykjavíkur vikublaðs af Birni Inga Hrafnssyni útgefanda, í kjölfar kaupa Björns Inga og félaga á fríblaðaútgáfunni Fótspori.

Nýr ritstjóri Reykjavík vikublaðs Björn Jón Bragason sést hér á framboðsmynd sem send var út vegna framboðs hans til formanns Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Mynd: Björn Jón

Björn Jón Bragason, miðstjórnarmaður í Sjálfstæðisflokknum og fyrrverandi formaður Frjálshyggjufélagsins, hefur verið ráðinn ritstjóri fríblaðsins Reykjavík vikublað, sem dreift er á heimili í Reykjavik.
Ráðningin kemur í kjölfar þess að blaðaútgáfan Fótspor ehf, sem gaf út 12 blöð víða um land, var seld til Vefpressunar ehf, útgáfufélags í eigu Björns Inga Hrafnssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, og viðskiptafélaga hans.

Við kaupin var Ingimar Karli Helgasyni ritstjóra sagt upp störfum. Ingimar hafði langa reynslu af fjölmiðlum, meðal annars á Ríkisútvarpinu, Fréttablaðinu og Stöð 2, en hann bauð sig fram í prófkjöri Vinstri hreyfingarinnar - Græns framboðs árið 2012.

Nýr ritstjóri Reykjavíkur vikublaðs er einn þekktasti frjálshyggjumaður landsins. Fjallað er um feril Björns Jóns á Wikipedia: „Björn Jón hefur verið virkur í starfi Heimdallar og Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þá hefur hann frá árinu 2012 setið í stjórn Sjálfstæðisfélags Langholts og frá sama ári í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur starfað með Verði – fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og stýrt stjórnmálaskóla Varðar, auk þess að stýra námskeiðum á vegum Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins. Þá hefur Björn Jón tekið þátt í starfi ungliða í hverfafélögum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Björn Jón var formaður Frjálshyggjufélagsins árin 2009–2012. Hann sat í stjórn félagsins áður frá árinu 2007. Árið 2011 bauð Björn Jón sig fram til formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, á sambandsþingi þess. Björn Jón laut í lægra haldi fyrir Davíð Þorlákssyni og hlaut Björn 38% atkvæða en Davíð 62%. Björn Jón bauð sig fram í 2.-3. sætið til borgarstjórnar Reykjavíkur 2014. Hann var langt frá því að ná kjöri og var ekki í 10 efstu sætunum.“

Gagnrýnir „hatur“ á einkabílnum

Björn Jón hefur gagnrýnt borgaryfirvöld harðlega fyrir að þrengja að einkabílnum og fyrir að sýna einkabílnum „hatur“. „Undanfarið hefur mikið borið á hatursmönnum einkabílsins, þeir heimtað að dregið verði úr notkun einkabíla og fólk jafnvel skikkað til að nota aðra og óvinsælli ferðamáta á borð við strætisvagna eða reiðhjól,“ skrifaði Björn Jón árið 2011, vegna áherslu borgaryfirvalda á stuðning við vistvænar samgöngur.

Eitt helsta baráttumál hans undanfarin ár hefur verið að koma í veg fyrir sumarlokun Laugavegs fyrir bílaumferð. 

Björn Jón er með meistarapróf í sagnfræði og vakti athygli fyrir bókaskrif sín. Hann skrifaði meðal annars bókina Hafskip í skotlínu. Fyrir skrifin hlaut hann greiðslur frá Björgólfi Guðmundssyni, einum af aðalmálsaðilunum í Hafskipsmálinu og eins aðaleigenda Landsbankans. Bókin kom út um það leyti sem Landsbankinn fór í þrot haustið 2008. Niðurstaða hennar var að Hafskip, félag Björgólfs, hefði  verið látið fara í þrot af annarlegum ástæðum.

Þá gaf Björn Jón fyrr á árinu út bókina Bylting - og hvað svo? Ein af niðurstöðum bókarinnar var að það hefðu verið mistök að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar hefði farið frá völdum í kjölfar mikilla mótmæla snemma árs 2009.

Skrifar á vef Sjálfstæðisflokksins

Björn Jón hóf skrif í DV fyrr á árinu eftir að félagið Vefpressan ehf, í eigu Björns Inga Hrafnssonar og viðskiptafélaga, keypti útgáfuna í kjölfar yfirtöku. Samhliða skrifum í DV hefur hann skrifað á vef Sjálfstæðisflokksins.
Í grein sem Björn Jón skrifaði á vef flokksins í febrúar gagnrýndi hann borgarstjórn Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar fyrir að stunda áróður með starfrækslu upplýsingadeildar borgarinnar.
„Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks hafa margsinnis gagnrýnt fjáraustur í áróðursmáladeildina, sem oftar en ekki er nefnd „Propaganda Büro“, en Dagur B kallar deildina „faglega fjölmiðladeild“. Fréttir gærdagsins sýna og sanna að „faglega fjölmiðladeildin“ er réttnefnd áróðursmáladeild Dags B.
Á sama tíma og gatnakerfi borgarinnar er að hruni komið og öll almenn grunnþjónusta vanrækt er með engu móti réttlætanlegt að vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn haldi úti sérstakri áróðursmáladeild. Við reykvískir útsvarsgreiðendur eigum heldur ekki að þurfa að þola það siðleysi að skattfé almennings sé með þessum hætti varið í pólitískan áróður.“

Reykjavík vikublað komst í fréttir fyrr á árinu þegar  Gunnlaugur Sigmundsson, faðir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, sendi spurningalista á borgaryfirvöld vegna þess að dagskrárriti Borgarbókasafnsins var dreift með blaðinu. Sagði hann að fyrrverandi útgefandi, Ámundi Ámundason, væri „þekktur fyrir störf á vettvangi Alþýðuflokks og Samfylkingar og ritstjóri blaðsins Ingimar Karl Helgason [hefði] verið í framboði fyrir VG í Reykjavík“

Á sama tíma og Björn Jón er ráðinn ritstjóri er Dr. Sigurður Ingólfsson ráðinn ritstjóri Austurlands vikublaðs, en hann er meðal annars fyrrverandi ritstjóri Austurgluggans.

Ritstjóri ósáttur

Nýr eigandi Reykjavíkur vikublaðs
Nýr eigandi Reykjavíkur vikublaðs Björn Ingi Hrafnsson kemur með nýjar áherslur hjá Reykjavík vikublaði eftir kaup á útgáfunni.

Við yfirtöku Björns Inga og félaga á Fótspori var öllum sagt upp störfum. Einn þeirra, Björn Þorláksson, ritstjóri Akureyrar vikublaðs, útilokaði að starfa fyrir Björn Inga Hrafnsson. „Ekki séns í helvíti“ Björn Ingi Hrafnsson ... Ég gæti aldrei átt trúnað við þig, því ég trúi ekki að þú hafir trúnað við almannahagsmuni að leiðarljósi með þinni útgáfustarfsemi. Held að þín áhersla sé á hreina sérhagsmuni. Sjálfstæðir og reyndir blaðamenn eru ekki skógarþrastarungar sem bíða með opinn gogginn eftir þínum peningum, sem enginn veit hvaðan koma. Lifi frelsið og gagnrýnin upplýsing. Netið færðu seint keypt upp!“

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Viðtal

Frá fíkli til flóttamanns

Fréttir

Isavia þarf að afhenda Aðalheiði yfirstrikaðar upplýsingar: „Svo mér endist ævin til að reka þetta mál“

Fréttir

Gagnrýnir prófíl-mynd þingkonu sem kvartar undan áreitni

Fréttir

Þrjú hundruð stjórnmálakonur skora á stjórnvöld: „Hótað nauðgun vegna skoðana minna“

Fréttir

Óttast að trúfélagsapp safni persónuupplýsingum

Mest lesið í vikunni

Pistill

Davíð spilar með Geir og þjóðina

Aðsent

VG – in memoriam

Fréttir

Selur bílinn sinn til að borga ríkinu fyrir eigin brottflutning

Fréttir

Umtalaðasta símtalið birt: „Þetta eru 100 millj­arð­ar, spít­al­inn og Sunda­braut­in“

Fréttir

Gagnrýnir „afsal á forystuhlutverki Sjálfstæðisflokksins til VG“ og segir að frjálsar umræður leyfist ekki í Valhöll

Fréttir

Berjast fyrir betra LÍN