Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Sjúgandi sogrör

Sjúgandi sogrör

Mér líður stundum eins og ég sé staddur í martröð þegar ég virði fyrir mér götur New York-borgar að enduðum degi. Það er þá sem íbúar jafnt sem atvinnurekendur rogast út með ruslapokana sína.

Fyrst heyrist skrjáfið í plastinu … svo glamrið í glerinu … síðan stunurnar úr lungunum ...

Móðar manneskjur í óhrjálegu ásigkomulegu hökta úr spori með sligandi þyngsli neyslu sinnar. Aðstandendur veitingastaða hrúga upp heilu fjallgörðunum af rusli við gangstéttarkantana. Sama gildir um óbreytta borgara og önnur nátttröll: Rétt í þessu lá ég stjarfur á njósnum út um gluggann þegar um það bil 310 kílógramma kona hrasaði út úr húsi sínu með fimm gígantíska ruslapoka sneisafulla af plastumbúðum utan af neytendavænum, hæfilega söltuðum og/eða sykruðum snakkvörum. 

Ef heitt er í veðri leggst svo fljótlega yfir borgina þessi notalegi ódaunn af gerviefnum og rotnandi holdi í samkrulli við útblástur og pissulykt upp úr neðanjarðarlestakerfinu. 

Hinn frjálsi, nýi heimur.

Ein leið borgaryfirvalda til að losa sig við alla ruslapokana er að henda þeim ofan í holu. Fresh Kills nefnist landfylling sem gnæfir yfir nágrenni sínu í Staten Island-hluta borgarinnar. Sú var stofnuð árið 1948 og árið 1955 var hún strax orðin sú stærsta í heimi. Notkun var hætt árið 2001. Þannig er það með urðunarstaði: að lokum hlýtur plássið að þrjóta. Núna er þarna bara einhvers konar fjall úr sorpi. Mér skilst að á tímabili hafi Fresh Kills-fjallið verið annað tveggja mannvirkja sem sást berum augum frá tunglinu. Hitt var Kínamúrinn!

Önnur leið er að kasta ruslinu bara út í sjó. Á íslensku er einmitt stundum sagt: Lengi tekur sjórinn við. Já … en ekki að eilífu, kerli mín. Sjórinn er reyndar hættur að taka við: líf þar er smátt og smátt að lognast út af. Leigusalinn minn, P., tók fyrir nokkru upplýsta ákvörðun um að hætta alfarið að snæða fisk. P. komst að þeirri niðurstöðu að vegna plastagna í sjávarafurðum væri kænlegast að sniðganga þær. Kannski er P. svolítið paranojaður – og kannski ekki. Mann sakar sjálfsagt ekki af einni sojasósulöðrandi California Roll öðru hverju – en tvær, þrjár fiskmáltíðir í hverri viku, jafngildir það ekki núorðið sjálfsmorði?

Í þessu samhengi verður mér hugsað til nokkurs sem ég las nýlega: að fimmtán mínútna hjólaferð um Manhattan-eyju teljist vera heilsusamleg hreyfing, en sé hjólað lengur en í korter, þá byrji loftmengun að vega niður heilsusamlegan ábata og eftir hálftíma er maður bókstaflega tekinn að hjóla sig niður í gröfina. 

Nóg um það. Ég hef lengi hvatt vini og vandamenn (þá sem nenna að hlusta) til að nota taupoka frekar en plastpoka. En í dag langar mig að tala um svolítið annað – sogrör.

Í dag vék ég mér sem sagt inn á mexíkanskan veitingastað til að innbyrða búrrító og bað í leiðinni um vatnsglas.

„Viltu rör?“ spurði afgreiðslustúlkan mig.

Átti ég að móðgast? Öskra jafnvel á hana: Nei, auðvitað vil ég ekki plaströr! Eða lít ég út fyrir að vera með ósjálfbjarga munn? Þarf fólk í alvöru einhvers konar stoðtæki til að hella upp í sig úr glasi? 

„Það er vegna illa upplýsts fólks sem þambar gosdrykki gegnum sogrör sem vinur minn og leigusali, P., getur ekki lengur borðað fisk!“ hefði ég átt að öskra á afgreiðslustúlkuna. 

Að öllu gamni slepptu, þá berum við öll ábyrgð á því að ganga vel um jörðina, ekki bara eitthvert sorpvinnslufyrirtæki, eða ríkisstjórnin, eða væmnar poppstjörnur sem básúna hippalegar yfirlýsingar af sviðinu. Og hvers konar fullorðin manneskja, heilbrigð, drekkur vatn með plaströri?  Er það ekki algjörlega fáránlegt? Er það ekki hámark úrkynjunarinnar? (Mér skilst að Evrópusambandið sé nú á lokastigunum með að innleiða löggjöf sem bannar notkun einnota plasts. Kannski andstæðingar ESB fái þar enn eina ástæðuna til að mæla gegn aðild?)

Ímyndaðu þér ef þú mættir ekki losa rusl út úr húsinu þínu í heilan mánuð. Eða í heilt ár. Eða í heilan áratug ... Eða yfir heila ævi ... Myndi ruslið sjást frá tunglinu? Sjálfsagt ekki með berum augum – en sennilega með góðum sjónauka.

Neysluspor Íslendinga er eitt það stærsta í heiminum. Ekki líta út eins og gaurinn á myndinni. Fullorðið fólk notar ekki sogrör.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni