Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Góðlátleg ráðlegging handa þeim sem eru að sækja um Græna kortið

Góðlátleg ráðlegging handa þeim sem eru að sækja um Græna kortið

Á minn afdankaða, utangátta hátt hef ég nú búið í Bandaríkjunum í tæplega fimm ár. Sem er fáránlegt! Þetta var aldrei planið. Ég biðst innilega afsökunar.

Nýlega var orðið tímabært að endurnýja græna kortið mitt. Samband fólks við yfirvöld hér í New York er oft mjög þjakað. Sérstaklega er allur pakkinn í kringum græna korts-stússið kafka- og kaótískur. Þetta gildir þó ekki um mig. Ég er einatt sultuslakur. 

Í því skyni að endurnýja græna kortið mitt pantaði ég mér samviskusamur tíma hjá USCIS (sem er skammstöfun fyrir U.S. Citizenship and Immigration Services). Vegna neyðartilfellis missti ég af tímanum. Þá pantaði ég mér snarlega annan tíma. Ég gleymdi honum. Mér var úthlutað þriðja tímanum. Konan mín teiknaði upp risastórt dagatal, hengdi það upp á vegg við eldhúsborðið og skrifaði við tilheyrandi dagsetningu stórum rauðum tússtöfum:

TÍMI VEGNA ENDURNÝJUNAR GRÆNA KORTSINS!! EKKI GLEYMA!!!!!!!!

Síðan dró hún feitan ógnvekjandi hring utan um áminninguna.

Á settum degi hélt ég því í leiðangur frá Brooklyn til Manhattan í því skyni að fara í – vonandi – rétta byggingu. Í lestinni rann nefnilega upp fyrir mér, og því fylgdi vægt panikkkast, að ég hafði eiginlega ekkert gáð hvort ég var yfirhöfuð að fara á réttan stað. Var viðtalið ekki örugglega á Manhattan? Jú, sennilega. Fínt. Það hvarflaði að mér að ganga úr skugga um að ég væri á réttri leið í símanum mínum, en ég hætti við. Það þjónaði engum tilgangi úr þessu að stressa sig óþarflega á þessu rugli.

Ég var alveg á nippinu með að verða of seinn þegar ég stökk lafmóður inn um dyrnar á USCIS-byggingunni.

„Hvert þykist þú vera að fara, væni minn?“ spurði öryggisvörður sem leit út fyrir að geta snúið þig úr háls með auglitinu einu saman.

Ég hafði ratað inn í rétta bygginguna – en farið inn um rangar dyr.

„Á græna korts-fund.“

„Grunaði ekki Gvend. Farðu út, til vinstri og fyrir hornið – og síðan inn um aðrar dyr á hægri hönd.“

„Takk!“

Næst var leitað á mér hátt og lágt og farið rækilega í gegnum man purse-hliðartöskuna mína.

„Ertu að koma í biometrics?“

„Ha, bíó ...? Já, kannski bara – þetta er svona græna kortsins eitthvað bla bla …“

Snaggaraleg kona sendi mig upp á 19. hæð. Þar var, mér til sárra vonbrigða, ekkert klósett.

Mér var sagt að fylla út eitthvert eyðublað. Svo var mér sagt að fara í biðröð. Þarna var fólk af ýmsu þjóðerni og frekar daufleg stemning. Sem betur fer var ég með bók.

Þegar ég hafði staðið lesandi í biðröðinni nokkra stund, var mér sagt að fylla út annað eyðublað. Þetta eyðublað var að mestu alveg nákvæmlega eins uppbyggt og fyrra eyðublaðið, sem var heppilegt því nú var ég kominn í góða æfingu við að fylla út slík eyðublöð. Síðan var mér sagt að setjast á stól – á tiltekinn stól meira að segja, sem konan benti sérstaklega á: „Þennan stól,“ sagði hún – og þar settist ég og hélt áfram að lesa. Í pissuspreng.

Báðum megin við mig sátu aðrar manneskjur og biðu. Allir virkuðu stressaðir nema undirritaður. (Ég verð aldrei stressaður.) Einn annar var líka að lesa bók. Ég fagnaði því í hljóði. Ég gleðst alltaf í hjartanu þegar ég sé aðra manneskju lesa bók.

Loks var kallað á mig („Swapuch Norland!“) og ég beðinn um að fylla út þriðja eyðublaðið. „Já, já, ekkert mál að fylla út fleiri eyðublöð,“ sagði ég, bóngóður að vanda.

„Ég ætla að taka af þér ljósmynd,“ sagði einhver kona og beindi að mér maskínu sem leit út eins og yddararnir sem ég notaði í Hlíðaskóla þegar ég var barn. Svo bað konan mig um að rétta fram hægri hönd. Hún þvoði fingurgómana á mér vandlega og þrýsti þeim, einum og einum í senn, við láréttan snertiflöt. Bráðlega blöstu fingraförin mín við okkur á tölvuskjánum: úrillislegt skuggaflökt sem líktist einhverju sem maður sér í veðurfréttum sjónvarpsins þegar stormur er í vændum. Átti þetta lægðamynstur að signifía hver ég væri? Það var fáránleg tilhugsun. Bandarísk stjórnvöld hlutu að luma á einhverjum reisnarlegri aðferðum við að bera í framtíðinni kennsl á mig en að notast við þetta geðvonskulega aftakaveður á skjánum.

„Þú mátt fara,“ sagði konan allt í einu og ég hrökk við.

„Ha, er þetta bara búið? Ekkert viðtal eða neitt? Engin yfirheyrsla með fjórum skuggalegum náungum sem bretta upp á skyrtuermarnar, berja krepptum hnefa í borð og öskra á mig að segja sannleikann?“

„Nei, ekkert svoleiðis. Já, þú mátt fara strax og þú hefur fyllt út þetta eyðublað. [Réttir mér eyðublað.]“

Ég fyllti út eyðublaðið og stakk því niður um rauf í lítinn viðarkassa.

„Fæ ég núna nýtt grænt kort?“ 

„Já.“

„Snilld!“

Áður en ég yfirgaf svæðið tók ég lyftuna upp á tuttugustu hæð. Þar var klósett. Hvers vegna lendi ég alltaf í því á smáum almenningssalernum, að þegar ég bogra feginn yfir pissuskálinni, þá skal alltaf leynast pukurslegur karl á næsta bás að athafna sig í laumi og reyna að dempa hljóðin en með vægum árangri uns hann loks springur á limminu og gefst upp og sendir frá sér þessa óhugnanlega blöndu af nautnastunum, örvæntingarmási og kvalaandvörpum? Með hryllingi flýtti ég mér út og burt úr þessu húsi.

Sem sagt: Ef þig vantar ráðleggingar um hvernig best sé að öðlast (eða endurnýja) Græna kortið, þá er ég þinn maður. Ekki hika við að hafa samband! Mitt er á leiðinni í póstinum.

(Myndin við greinina er eftir hinn frábæra Saul Steinberg. Sjá hér.)

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu