Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Vélveran

„Mamma, ég vil vera sæborg þegar ég er orðin stór,“ sagði litla stúlkan.

„Það heitir ekki sæborg á íslensku ástin mín,“ svarar konan. „Við tölum um vélmann ef það er manneskja sem er búin að græða í sig rafbætum eða er véltengd til langframa af heilsufarsástæðum.“

„Afsakaðu frú mín,“ segir bústni maðurinn sem stendur fyrir aftan mæðginin í strætóskýlinu. „Þetta er ekki alls kostar rétt. Vélmenni eru þær vélar, mennskar í útliti eða fullkomlega ómennskar sem þjónusta manneskjur. Til dæmis er afgreiðsluvélin í borgaralauna-stofnuninni vélmenni sem sérhæfir sig í að fara yfir skráningareyðublöð og annars konar skriffinnsku.“

Konan og dóttirinn stara á manninn, en þá birtist fjórði aðilinn. Frakkaklædd kona með stórar heilaígreiðslur undir hattinum og stálþarma sem gera henni kleift að melta grjót.

„Ég held að þér eigið við þjarka, herra minn. Vinnuþjarkar er íslenska þýðingin á róbót. Vélmenni er almennt álitið niðrandi í sæborgara-samfélaginu þótt sumum finnist í lagi að nota orðin vélmaður eða vélkona. Rafmanneskjur er það sem er talið hlutlausast að nota í dag.“

Litla stúlkan starir aðdáunaraugum á rafveruna, menndina, lífilinn, lífylinn, vélveruna, raf-líf-blendinginn, blendinginn, rafmanið, plús-mennið, Homo Sapiens 2.0, nýmennið, rafmanneskjuna.

Þegar konan og maðurinn eru farinn um borð í svifnökkvann sem tekur þau að BSÍ dæsir konan og lítur í átt að dóttur sinni. Þær eru ennþá að bíða eftir hraðlestinni eða sporvagninum eða léttlestinni sem á að taka þær tvær á Keflavíkurflugvöll en virðist aldrei ætla að koma.

„Nei annars,“ segir stúlkan. „Þegar ég verð átján ætla ég frekar að fá mér lífbætur, augu sem sjá í myrkri eða tálkn eins og Óli frændi er með.“

„Ertu viss? Þú veist að þessi genetík er ofboðslega dýr og svo er miklu erfiðara að fjarlægja tálknin þegar þau gróa fast. Þá er betra að vera með vélrænar viðbætur.“

Þegar hún var ung kona voru þetta yfirleitt kallaðir bætarar, og var litið á þá svipuðum augum og eiturlyfjafíkla eða anorexíusjúklinga. Hermimenn eða hermmaður kölluðu sumir náttúrusinnar þegar lúskruðu á frumstæðum bætlingum. Svo skrifaði S. Fjalar barnabókaröðina lífvélastrákurinn og lífvélahundur hans og eftir það fóru fleiri og fleiri að gangast við því að hafa viðbætur. Skurðlæknar með vélfingur, slökkviliðsmenn með brennhelda húð og ofurlungu, söngvarar með raddbætur og sölumenn með ofurferómón. 

Núorðið er eiginlega enginn maður með mönnum nema hann sé eitthvað meira en það. Ekki skrítið að barninu langi að bæta sig. Kannski ætti ég sjálf að skella mér, setja inn minniskubb svo ég nái loksins að tala reiprennandi spænsku eins og ætlaði mér.

 

P.S.

sérstakar þakkir fá Kristinn Leifsson, Einar Leif Nielsen, Sigurður Fjalar Sigurðsson, Helgi Briem, Helgi Már Friðgeirsson, Guðleifur Kristjánsson og Tryggvi Hjörvar, fyrir tillögur um þýðingar á orðinu Cyborg. Umræður fóru fram inn á feisbókargrúppunni Hið Íslenska Vísindasagnafélag.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni