Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Refsiglaða þjóðin

Réttlætiskennd þróast hraðar en lögfræði. Annað er tilfinning og hitt er hefð. Árutugum síðar virðist hefðin ógeðfelld og barbarísk. Nokkrum öldum síðar absúrd og fáránleg. Mér finnast dómar á Íslandi sérkennilegir en miðað við þróunina munu afkomendur okkar líta á dómskerfið árið 2100 og finnast sérkennilegt frekar vægt til orða tekið. Ég myndi ekki nota orðið „sérkennilegt“ til að lýsa því þegar maður er hýddur fyrir að stela snærisspotta.

Þegar við hugsum til refsinga í fortíðinni, dauðadómsins hvort sem það var með öxi eða drukknun, eða opinberrar hýðingar, þá er auðvelt að fordæma, en erum við minna refsiglöð nú í dag? Galdrabrennur tilheyra fortíðinni, en einn týndur hundur getur samt haft í för með sér öðruvísi nornaveiðar. Netið gerir manni kleift að fordæma ekki bara þá sem búa með manni í þorpinu heldur fólk í fjarska, maður þarf ekki annað en að lesa fyrirsögn stundum til að komast að niðurstöðu.

En þessi grein er ekki um gæsluvarðhald. Í mínum huga leikur ekki vafi á því að lögreglan geti nýtt gæsluvarðhald oftar. Og þá er ég ekki endilega að tala um þetta tiltekna mál í gær. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir nefnir í pistli sínum í þessu blaði í gær nokkur hrottaleg dæmi, þar sem nálgunarbann og gæsluvarðhald hefði getað bjargað lífum. Þessi grein er ekki um það. Hún er um hversu auðvelt er að fá fólk til að kalla eftir harðari og meiri refsingum, en hversu erfitt það er að fá sams konar baráttu fyrir vægð eða miskunn. 


Nýverið var hollensk kona dæmd í ellefu ára fangelsi fyrir að smygla efnum til landsins. Efnin eru hættuleg en þeim er ekki troðið ofan í kokið á neinum gegn vilja þeirra. Þvert á móti. Kókaín er mjög dýrt. Í þau fáu skipti sem mér hefur verið boðið kókaín hef ég fyllst þakklæti en afþakkað pent. Það er talsvert ódýrara að bjóða manni bjór úr ísskápnum og þar að auki þurfti einhver að fela þetta upp í endaþarminum á sér.

Ellefu ár er gríðarlega langur tími. Sem betur fer skynjaði ég ekki á öðrum Íslendingum að þeir væru sammála dóminum. Þvert á móti virtist hann frekar barbarískur í augum þeirra. Ellefu ár er mjög langur tími til að ræna frá manneskju, jafnvel þótt hún sé að gera slæma hluti. En er eitthvað víst að hún komi betri manneskja út eftir 11 ár. Íslensk fangelsi koma nefnilega illa út úr samanburði við önnur lönd. Það er mun algengara að fangar fremji glæp þegar þeir koma út og snúi aftur heldur en á Norðurlöndunum. Að því leytinu til erum við líkari Bandaríkjunum heldur en Noregi, og það er setning sem ég vil helst ekki segja oft. Það þýðir að fangar hafa ekki hlotið nægilega góða þjálfun, menntun eða geðhjálp til að snúa aftur út í samfélagið og líða vel.

Annar hollenskur einstaklingur, í þetta sinn karlkyns, var einnig settur í fangelsi fyrir sams konar glæp. Hvorugt þeirra beitti ofbeldi. Hvorugt þeirra þvingaði fólk í að neyta efnum. Það kom til landsins af því Íslendingar voru að kaupa efnin fyrir mjög freistandi fjárhæðir. Þessi tiltekni maður var settur í einangrunarvist á Litla Hrauni. Svo kom í ljós í fréttum að hann var þroskahamlaður. Og að fjölskylda hans vissi ekki hvar hann var.

Pælum í því. Þroskahamlaður einstaklingur sem talar ekki tungumálið í kringum sig (áttar sig kannski ekki á alvarleika glæpsins sem hann hefur framið heldur), hefur ekki rænu á að biðja um að hringja í fjölskyldu sína, er dæmdur í fangelsisvist og settur í einangrun.

Ísland kemur reyndar illa út í samanburði við norðurlöndin aftur. Við beitum einangrunarvist mest af öllum, og þetta er ekki eina dæmið um að fólk með geðræn vandamál sé lokað inni án mannlegra samskipta. Evrópuráð í pyntingum hefur áhyggjur af því hvernig Íslendingar beita einangrunarvist. Svo er það hitt með plankann. Sjá tilvitnun í þessa grein á Rúv hér:

 Þegar nefndin (Evrópuráð í pyntingum) kom hingað til lands árið 2004 lét hún fjarlægja járnhringi úr gólfi öryggisklefa á Litla Hrauni og vakti það athygli nefndarinnar í september að búið var að koma upp svipuðum búnaði að nýju, það er að segja viðarplanka með sex járnhringjum á. Þegar nefndin lét áhyggjur sínar í ljós við fangelsisstjórann var fullyrt að búnaðurinn væri ekki lengur í notkun. Í bréfi frá íslenskum stjórnvöldum í janúar síðastliðnum hafi síðan verið tilkynnt að búnaðurinn hafi verið fjarlægður og verði ekki settur upp að nýju.

Í drögum að skýrslu nefndarinnar segir að 10. júlí á síðasta ári hafi fangi verið lagður á grúfu á viðarplankann og handjárnaður fyrir aftan bak og hafður þannig í tvær klukkustundir. Þetta hafi haft hættu í för með sér, ekki síst í ljósi þess að fanginn var að sögn astmasjúklingur. 

Þetta er eiginlega magnað. Yfirvöld með einstakan brotavilja. Kannski ætti að senda þau í einangrunarvist? 

Sennilega væri það slæm hugmynd, því ekkert bendir til að harkalegar refsingar skili tilætluðum árangri. Sem er kannski ástæða þess að íslensk fangelsi standa sig svona illa í að draga úr glæpum. Því miður hefur Fréttablaðið ekkert skrifað um fangelsi sérútbúin til pyntinga enn.

Fíkniefnastríðið svokallaða líður bráðum undir lok. Almenningsálit hefur snúist gegn þeim harkalegu aðferðum sem beittar eru gegn veiku fólki. Fíklar þurfa meðferð, ekki refsivist. Og ég myndi frekar segja að bankafólkið sem kaupi kókaínið beri meiri ábyrgð á því sem það dregur upp í nefið heldur en Hollendingarnir á litla hrauni. Svo átta ég mig ekki alveg á því af hverju þeir eiga að vera krossfestir fyrir syndir þeirra. En hræsnisfull og furðuharkaleg afstaða gegn fíkniefnum er kannski ekki eina ástæðan fyrir framkomu okkar.

Fyrr í sumar var flóttamaður handtekinn og settur í mánaðarlangt gæsluvarðhald fyrir að smita Íslendinga af kynsjúkdóm. Síðar kom í ljós að maðurinn hafði verið að selja sig, að Íslendingarnar höfðu a.m.k. sumir nýtt sér neyð mannsins og ekki einu sinni haft nógu mikla skynsemi til að nota verjur þegar þeir keyptu sér vændi. Þarna taldi lögreglan sig hafa nægar heimildir til gæsluvarðhalds þótt að maðurinn væri ekki ásakaður um ofbeldi eða neitt benti til þess að hann væri ofbeldisfullur.

Kannski eiga þessi þrjú dæmi öll sameiginlegt að um útlendinga var að ræða. Og ef karlarnir tveir sem grunaðir eru um tvær nauðganir og þriðju nauðgunartilraun væru erlendir þá sætu þeir mögulega ennþá inni og enginn mótmæli hefðu orðið í gær. Ég efast ekki um að við þurfum sem samfélag að taka kynferðisafbrot fastari tökum. Kannski felast þessi föstu tök í því að karlmenn grunaðir um kynferðisafbrot séu lokaðir í gæsluvarðhaldi á meðan rannsókn á sér stað. Og lengri dómum (en það þyrftu þá að vera fangelsi með meiri endurhæfingu en eru í dag).

Máttur refsingarinnar er lítill og leiðin til endurhæfingar liggur ekki þaðan. Ef við berum glæpi á borð við smáþjófnað, smygl og eiturlyfjasölu saman við ofbeldi, nauðganir eða fjársvik af slíkri stærðargráðu að þeir gera heila þjóð nánast gjaldþrota, þá sjáum við að þetta eru smámunir. Þetta eru snærisspottar nútímans og meðan við erum svona refsiglöð gagnvart þeim sem minna mega sín þá erum við öll barbarar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni