Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Loftlagsráðstefnan í París- síðasti sjéns?

Ef fyrirsögn endar á spurningamerki þá er svarið yfirleitt nei. En inni á milli verður að brjóta regluna. Sumir veðurfræðingar vilja meina að við séum nú þegar of sein að ætla okkur að koma í veg fyrir gróðurhúsaáhrifin. Ef það næst ekki samkomulag milli stærstu iðnríkja heimsins um takmörkun gróðurhúsalofttegunda þá mun hlýnun jarðarinnar hraðast. Við erum nú þegar að upplifa afleiðingar hennar.

Eftir tvö ár verður Kyoto sáttmálinn um takmörkun gróðurhúsalofttegunda 20 ára gamall og síðan sú ráðstefna var haldin hefur furðu lítið breyst í raun. Rafmagnsbílar eru að verða að alvöru möguleika, sólarorka og vindorka eru stærri en nokkru sinni áður, en allt er þetta frekar lítið og frekar seint. Mannkynið í heild sinni er ennþá háð orku sem byggir á gróðurhúsaútblæstri, og frekari ráðstefnur hafa ekki komið okkur langt áleiðis í baráttunni gegn þeirri fíkn. Ráðstefnan í Kaupmannahöfn 2009 miðaði viðræðum áleiðis en endaði ekki á að skila miklu meira en djúsí fréttamyndum af óeirðum. Þann 30. nóvember hefst svo enn ein ráðstefnan í Parísarborg. Sumir vistfræðingar hafa gengið svo langt að segja að þetta sé mikilvægasti fundur í sögu mannkynsins, þetta sé seinasta tækifærið fyrir stóru risana Kína, Indland, Rússland, Bandaríkin og ESB að koma sér saman um aðgerðir. 

Þegar Al Gore þáverandi varaforseti kom heim eftir að hafa skrifað undir Kyoto sáttmálann mætti hann mótstöðu repúblikana á Bandaríkjaþingi og á endanum tók sáttmálinn ekki gildi. Þar sem Bandaríkin eru stærsti mengandinn hafði það þau áhrif að Kyoto sáttmálinn hafði lítil sem engin áhrif, þær þjóðir sem skrifuðu undir og brutu svo samkomulagið hlutu enga refsingu, og stærri þjóðir eins og Rússland skrifuðu ekki undir fyrr en mörgum árum síðar þegar það var í raun orðið of seint að ná markmiðum samkomulagsins. 

Í þetta sinn má vona eftir kraftaverki. ESB hefur þegar lofað að skera útblástur niður um 40% miðað við árið 1990, árið 2030. Bandaríkin stefna á fjórðungs minnkun í útblæstri miðað við árið 2005, og ætla að ná því markmiði 2025. Kína hefur lofað að auka ekki útblástur eftir árið 2030.

Þessar aðgerðir einar og sér munu ekki duga. Í Kaupmannahöfn náðist samkomulag um að ríkari þjóðir myndu styrkja þær fátækari um rúma 30 milljarði dollara til að koma sér upp hreinni orkugjöfum, styrkir sem myndu aukast upp í 100 milljarði árið 2020. Það er engu að síður ekkert samkomulag um hvernig eigi að ná í þessa peninga og hvort það verði Heimsbankinn, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn eða ríkistjórnirnar sjálfar sem útvegi þá. (Og það verður erfitt að selja svona gríðarstóra þróunaraðstoð heima fyrir gæti maður trúað).

En fjölmiðlar úti um allan heim eru að búa sig undir fundinn og auka umfjöllun sína um þetta stærsta málefni aldarinnar. Hér eru nokkrar af skýrustu og athyglisverðustu umfjöllunum sem hægt er að finna á netinu í dag.

Bloomberg setti upp þetta graf sem á skýran máta kannar tölfræðina að baki ýmsum kenningum sem settar hafa verið um hlýnunina.

Hér. Lesendur geta hérna skoðað hvaða áhrif hitastig sólarinnar, sporbaugur jarðar, eldvirkni og skógareyðing hafa haft á hnattræna hlýnun.

New York Times er með nokkuð greinargóða umfjöllun um breytingar á El Nino og veðrakerfi Kyrrahafsins. Trópískir fiskar eru að skola upp á ströndum Alaska, þurrkar eru að eyða upp stöðuvötnum í Kaliforníu, kóralrif eru að hverfa, skógareldar geysa í Indónesíu á áður óséðum skala og stormar virðast öfgafyllri en áður. Hér getið þið lesið um áhrif „The blob“ á stærsta haf í heimi.

Le monde er hér með ágætis grein um hlýskeiðið á miðöldum. Efahyggjumenn benda iðulega á hátt hitastig á miðöldum sem ætti ekki að koma Íslendingum á óvart. Við vitum að hitastig á Íslandi var mun hlýrra á þjóðveldistímanum en síðar meir. Stutta ísöldin sem hófst á sextándu öld lék þjóðina líka býsna grátt. Greinin bendir á að vissulega hafi hlýskeið staðið yfir á jörðinni árið 1000, eða öllu heldur í Evrópu. Í Afríku hafi meðalhiti verið lægri en á 20. öld og meðalhitinn á plánetunni sjálfri hélst hin sami. M.ö.o. þá voru hlýindin nær því að vera lókal frekar en að vera glóbal. Héraðsbundin, ekki hnattræn.

Fyrir þá sem vilja skoða flottar myndir (eða eru góð í frönsku) þá er hægt að kynna sér greinar úr sama blaði um Páskaeyju, Réunion, Suður Afríku, Kína, Svalbarða og Nýju Orleans meðal annars. Sumar fylla manni óhug, eins og eyðimerkurvæðing Tíbet og vaxandi líkur á því að Nýja Orleans sökkvi, aðrar fylla mann von. Sjá hér.

Að lokum má enda lesturinn á þessari Guardian grein hér. Hér eru nokkrar af þeim upplýsingum sem koma fyrir í þessu örstutta bloggi og fleiri sem útskýra hvers vegna augu heimsins munu hvíla á Parísarborg þann 30. Nóvember 2015. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni